Ekki gleyma – andleg örorka er jafngild og líkamleg örorka!

2.desember 2019

Góðan daginn

Loksins hefur stytt upp hér í litla landinu mínu og vonandi fáum við nokkra daga þar sem sólin skín og allt verður miklu bjartara.

Mér varð hugsað til öryrkjanna minna í morgun. Þeir eru ekki í litla landinu mínu en búa ýmist á Íslandi,  Spáni eða Norðurlöndunum.  Líklega hafa fleiri bæst í hópinn núna með fjölgun vina á Facebókinni minni.

Stundum föllum við í þá gryfju að gleyma því að það eru ekki bara líkamlegir sjúkdómar sem valda örorku. Við megum ekki gleyma því að andleg líðan getur leitt til örorku og það er ástand sem hugsanlega væri hægt að bæta með því að búa almennilega að þeim sjúklingum.

Ég horfði á viðtal í gær þar sem rætt var við foreldra drengs sem hafði látist úr hjartaslagi, held ég, vegna ofneyslu vímuefna.  Þetta var átakanlegt viðtal og ég velti því fyrir mér á eftir hvernig foreldrarnir tækluðu ástandið og dáðist að hugrekki þeirra að koma fram og ræða málið á svo opinskáan hátt!

Það er hryllilegt að missa barn og ekki hægt að komast yfir það en lífið heldur áfram og einhvern vegin nær fólk að lifa af með söknuðinn, sársaukann og sektarkenndina.

Öryrkjarinir mínir sem þjást af andlegum sjúkdómum segja oft að þeim sé hafnað og ekki sé talað um þá. Líklega er það rétt. Því miður eru enn fordómar gagnvart þeim sem finna ekki fjölina sína andlega og talað um aumingjaskap og að þeir eigi nú að hafa sig upp úr volæðinu! Almáttugur!

Það getur vel verið að margir þeirra sem eru öryrkjar vegna þunglyndis og annarra andlegra sjúkdóma gætu náð sér að einhverju leiti ef þeir þyrftu ekki endalaust að vera með áhyggjur af því hvernig þeir komist af fjárhagslega næsta mánuðinn eða jafnvel bara næstu vikuna.

Ég er þeirrar skoðunar að aðbúnaður öryrkja, fjárhagslega, sé slíkur að hann stuðli að andlegri örvæntingu. Ég held því fram að væri heilbrigðiskerfið í stakk búið til þess að hjálpa þessum einstaklingum þá mundi þeim fækka. Ég held því líka fram að þyrftu öryrkjarnir ekki að lepja dauðann úr skel alla daga gæti þeim liðið betur og þeir gætu komist aftur út í þjóðfélagið og fundið tilgang með lífinu sínu.

Ég fékk að skoða launaseðla tveggja öryrkjanna minna. Þau eru hjón og hafa stuðning af hvort öðru og komast held ég  sæmilega af andlega.

Launaseðlarnir eru fyrir desember og þar sést heildarafkoman yfir árið.

Hann hefur álíka laun fyrir allt árið og formaður stjórnmálaflokks sem situr á alþingi  í stjórnarandstöðu (ég ætla ekkert að nefna neitt nafn) hefur fyrir einn mánuð!

Hann hefur starfað við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar og fært björg í bú og byggt upp með framlagi sínu, þjóðfélag þar sem allir ættu að geta haft það sæmilegt. Vegna þess að hann hefur sparað í lífeyrissjóð alla sína starfsæfi er hann látinn niðurgreiða það sem hann fær frá TR. Þessi vinur minn getur ekki farið út á vinnumarkaðinn. Hann hefur ekki líkamlega heilsu í það, það er ekki smuga. Ég hugsa oft um það hvað þessi hjón eru þó heppin að hafa hvort annað og geta stutt hvort annað andlega. Væru þau ein, hvort í sínu lagi, gætu þau hæglega fallið í þunglyndi og örvæntingu og jafnvel orðið andlegir öryrkjar í viðbót við líkamlega heilsu sem er í rúst.

Hún hefur minni árslaun en forsætisráðherra Íslands hefur á mánuði!

Hún hefur ekki minnstu möguleika á því að koma sér út á vinnumarkaðinn vegna líkamlegrar örorku. Hún varð fyrir slysi sem svifti hana venjulegu lífi. Hann varð líka fyrir slysi og á einni stundu gjörbreyttist líf hans.

Við vitum aldrei hver verður næstur. Það getur verið þú eða einhver sem er þér nákominn, annað hvort ættingi eða vinur. Hörmungarnar gera ekki boð á undan sér, þær skella bara á og manngreinarálit er ekki til á þeim bæ.

Aftur að launum þessara vina minna. Þegar ég skoða launaseðlana þeirra sé ég glöggt hve kerfi það sem saumað hefur verið fyrir öryrkja er mikil ófreskja. Það er í raun og veru óskiljanlegt og ekki að furða að velkist fyrir fulltrúum TR að útskýra það fyrir viðskiptavinunum.

Í morgun hvatti ég facebook vini mína sem fá greitt frá TR til þess að senda launaseðla sína til alþingismanna, einkum og sér í lagi til stjórnarherranna. Það er held ég holt fyrir þá sem búa í kössum velmegunar að sjá svart á hvítu þennan seðil. Þið getið fundið öll netföng allra þingmanna á vef alþingis og ef þið eruð facebook vinir mínir þá eru netföngin bæði á síðunni minni og á “milli lífs og dauða”.

Ég hvet ykkur til þess að gera þetta.

Það er engin sem þarf að skammast sín annar en þeir sem setja lögin.

Munið að langvarandi líkamleg vanlíðan getur leitt til andlegrar örorku og þegar þangað er komið er nauðsynlegt að hafa björgunarhringi úti þar sem hægt er að fá hjálp við að ná sér upp, en til þess þarf stjórnvaldið að veita fé í heilsugæslu og forvarnir. Þetta er mál sem varðar okkur öll á hvaða aldri sem við erum.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: