- nóvember 2019
Góðan daginn
Nú er allt á kafi í auglýsingum um svartan föstudag og svo eru að sjálfsögðu allar jólaauglýsingarnar sem lýsa því hve allt er dásamlegt ef aðeins er farið og keypt nógu mikið!
Ég er ekkert að argast út í það þó fólk fái kaupæði fyrir jólin. Sumir þurfa þess og það gefur lífi þeirra fyllingu sem kannski vantar annars staðar frá. Nei, fariði bara og verslið eins og þið mögulega getið og ekki gleyma svarta föstudeginum sem er akkúrat núna í þessari viku.
Í næstu viku fá þeir sem eru á launum frá ríkinu borgaða desemberuppbót.
Ég veit ekki hvað venjulegur ríkisstarfsmaður fær en ég veit hvað þingmenn fengu í fyrra og eru það rúm 180 þúsund krónur Í JÓLABÓNUS.
Björn sagði í fyrra held ég að það hafi verið, frekar en hitteðfyrra, að hann þyrfti ekki þennan jólabónus og hann vildi hann ekki. Hins vegar gat hann ekki með nokkru móti afþakkað hann eða sloppið við hann, kerfið bauð ekki upp á það.
Ég er ekkert að öfundast út í jólabónusa almennt en finnst þó að t.d. fólk með 6 föld laun öryrkjans ekki hafa neitt með auka sporslur að gera í desember. Einhver rís nú upp og segir mig öfundsjúka mannfyrirlitningar persónu og það er bara fínt. Sá eða sú sem það gerir hefur greinilega ekki alveg gert upp við sig í hvora löppina skuli stigið og ekki ætla ég að aðstoða við lappastigið.
Í fyrradag var ég hjá lækninum mínum á spítalanum og var meðal annars spurð um ákveðinn sjúkdóm hjá ættinni. Ég hafði ekki hugleitt það neitt en þarna rifjaðist upp fyrir mér hvernig bróðir minn, sjómaðurinn þjáðist af því sem spurt var um. Þetta leiddi til þess að ég fór enn eina ferðina að hugleiða afdrif uppáhalds stéttarinnar minnar, sjómannanna, og hvað verður um þá þegar þeir eldast eða verða veikir. Mér varð líka hugsað til fiskverakonunnar og hennar afdrifa.
Margt af þessu fólki, bæði sjómenn og fiskverakonurnar urðu að láta í minni pokann vegna álags á líkamann og í verstu tilfellum varð þetta dásamlega fólk öryrkjar.
Öryrkjar eru ekki aumingjar.
Öryrkjar eru í þeim hópi vegna veikinda, slysa eða galla á líkama sem þeir fæðast með. Þeir eru ekki bara fólk sem nennir ekki að vinna, langt í frá. Þeir eru í þessum hópi margir hverjir vegna ómanneskjulegs álags á líkamann. Sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfólk og fleiri sem annast veikt fólk reyna á líkamann til hins ýtrasta og að lokum gefst líkaminn upp og segir hingað og ekki lengra.
Einn góður vinur minn sem var sjómaður er nú öryrki. Hann aflaði fyrir þjóðabúið og vann eins og berserkur, rétt eins og þeir gerðu allir hér á árum áður og gera líklega enn í dag.
Einn góðan veðurdag slasaðist vinur minn alvarlega og er nú, mörgum árum seinna, öryrki. Þessi vinur minn vildi svo sannarlega geta unnið eitthvað en líkaminn segir nei. Það er ekki hægt að ofbjóða líkamanum endalaust, sem betur fer.
Þjóðfélagið endurgreiðir hetjum hafsins sem hafa þurft að sætta sig við orörk með því að greiða þeim örorkubætur og nú í desember fylgir jólabónus, svona rétt til þess að gleðja og sjá til þess að hægt sé að gera sér dagamun á hátíðinni.
Allir fá jólabónus sem eru á vinnumarkaðinum.
Alþingismenn fá jólabónus.
Þeir sem fá greitt frá TR fá jólabónus.
Af hverju er ég nú að andskotast út í þetta bónusa mál?
Jú, það vill svo einkennilega til að því hærri sem launin eru því hærri verður jólabónusinn!
Hefði ekki verið hægt að koma því þannig fyrir að allir fengju sama glaðninginn, að minnsta kosti þeir sem fá greitt eitthvað frá ríkinu?
Nei, það var ekki hægt.
Eins og venjulega er vel hugsað um þá sem eiginlega þurfa ekkert að láta hugsa sérstaklega um sig á þessum tíma og eru bara með nokkuð góð laun allan ársins hring.
Já, en það fá allir sama bónus!
Nei, ekki aldeilis.
Í fyrirtækjum er víða tekinn umsaminn bónusinn og hann hækkaður í samræmi við yfirborganir. Þeir sem fá hærri launin fá hærri bónus! Auðvitað!
Á Alþingi fá menn 180 þúsund rúmlega.
Árið 2018 var þetta svona en fyrir öryrkja og eldri borgara heitir þetta ekki jólabónus heldur desemberuppbót:
“Desemberuppbótin er 43.103 kr. miðað við fulla tekjutryggingu. Við bætast 14.569 kr. til þeirra sem fá greidda fulla heimilisuppbót.”
Þetta eru upphæðir hjá öryrkjum árið 2018 skv. Vef TR
Öryrkinn, sjómaðurinn, vinur minn fær auðvitað skertan jólabónus vegna þess að hann borgaði í lífeyrissjóð þegar hann var á sjónum og ekki hægt að ætlast til þess að slíkar greiðslur láti í friði almennan jólabónus frá stofnuninni. Hann býr ekki einn og fær þar af leiðandi ekki heimilisuppbót.
Núna eru að koma jól, núna er tími gleði og hátíðar hjá mörgum. Núna er hins vegar tími örvæntingar hjá mörgum öryrkjum. Þeir sjá ekki fram á hvernig þeir komast af það sem eftir er af mánuðinum og þeir fá ekki greitt frá TR fyrr en þann fyrsta. Nokkrir dagar eru langur tími þegar ekki er hægt að borða almennilegan mat eða fara til læknis ef fólk veikist skyndilega. Svartur afsláttar föstudagur er ekki inni í myndinni og ekki jólagjafir eða jólasteikur.
Sjómennirnir okkar, margir hverjir eru nákvæmlega í þessum sporum sem ég lýsi í málsgreininni á undan. Fiskverkakonurnar, sjúkraliðarnir, hjúkrunarfólkið, gangastúlkurnar og margar fleiri stéttir eru nákvæmlega á þessum stað núna og það eru að koma jól!
Ég veit ekkert hvort taka á jólabónus af þingheimi. Ég hef ekki ákveðið hvað mér finnst um töluna, ekki endanlega, en líklega finnst mér þessi bónus óþarfur til þeirra sem standa í þrasi á Alþingi stundum um allt og ekki neitt en láta vera að berja í borðið og sjá til þess að öryrkinn þurfi ekki að svelta síðustu viku mánaðarins.
Mér finnst líklega óþarfi að ráðherrar og stjórnarlið sem ekki tekur á viðbjóðslegri spillingu sem étur þjóðfélagið innan frá, séu að fá greidda jólauppbót, fyrir að viðhalda spillingunni fram í rauðann dauðann og láta sér fátt um finnast þó orðspor landsins sé nú orðinn slíkur að fólk skammast sín fyrir að láta vita að það séu Íslendingar!
Ég lýg ekki með stjórnvöldum. Ef ég er spurð þá segi ég frá því hvernig ástandið er og hvernig blóðtaka spillingar er að drepa almenninng, ekki bara á Íslandi, heldur teygir viðbjóðurinn sig til sárafátækra landa, líklega fleiri landa en nú er vitað um.
Að sjálfsögðu hafa svona skrif engin áhrif. Það les þau enginn sem hefur vald til þess að gera eitthvað í málinu. Það er svo sem allt í lagi. Það sem gerist er að öryrkjarnir, vinir mínir, sjá þó að ég stend með þeim í gegnum þykkt og þunnt og það skiptir mig máli.
Ég vildi svo sannarlega hafa völd til þess að breyta þessu en því miður er ég valdalaus, hef ekki einu sinni kosningarétt á landinu. Það er í raun ekki slæmt að hafa ekki kosningarétt. Ég get leyft mér að vera ánægð með fólk úr hinum ýmsu flokkum, fólk sem mér þykir standa við bakið á öryrkjunum, vinum mínum, og öllum þeim sem búa við fátækt. Það eru örfáir svoleiðis á Alþingi núna og ég fylgist með þeim og er þakklát þegar þau rísa upp og berja í borðið. Því miður eru þessir ágætu þingmenn í stjórnarandstöðu en það kemur dagur eftir þennann dag og von mín er að þegar þau setjast í stjórnarstólana berji þau áfram í borðið og breyti þjóðfélaginu til hins betra. Það þarf að taka kyrfilega til og henda út skemmdu eplunum sem eitra allt í kringum sig.
Hulda Björnsdóttir