11.nóvember 2019
Ég ætla að leyfa mér að spúa því út úr mér að þingmenn ættu að skammast sín. Kjör þeirra eru hlægileg. Þeir komast undan því að greiða skatta af tekjum (hlunnindum) sem hinn almenni launþegi þarf að greiða af.
Þingmenn fá himinháa persónuuppbót ofan á ágætis laun í desember á meðan öryrkinn og eldri borgarinn þurfa að lepja dauðann úr skel. Þeir sem arga úr stól Alþingis um bætt kjör þeirra sem minnst hafa ættu að éta það sem úti frýs og sæta sömu skerðingum og sömu reglum um skattskyldu og fátæka fólkið.
Ég er svo ægilega fúl núna að ég þori varla að skrifa meira því eitthvað gæti læðst út úr puttunum á mér sem ég yrði svo sett í fangelsi fyrir því auðvitað má ekki hnika við aðlinum.
Fjandinn hafi það, ætlar fólk, hinn almenni Íslendingur, virkilega að láta hafa sig að fífli enn eina ferðina næst þegar kosið verður til Alþingis?
Ætlar almenningur að trúa lyginni og fallegu loforðunum og krókudílatárunum?
Ekki trúa pólitíkusum.
Þeir kunna held ég bara ekki að setja sannleikann á borðið.
Vitiði að frúin sem grét sig inn á þing er með 1.651.791 krónur á mánuði í föst laun fyrir utan allar sposlurnar?
Föstu launin þessarar ágætu frúar eru tæplega fimm föld mánaðarlaun mín og tæplega sjö föld laun þeirra sem eru á fullum eftirlaunum frá TR og engum greiðslum frá Lífeyrissjóði?
Í þessum samanburði er EKKI tekið tillit til allra auka auranna sem frúin fær! þeir aurar skipta nokkrum mánaðarlaunum öryrkjans!
Hvar býr svo þessi ágæti þingmaður og hvað borgar þingmaðurinn í húsaleigu á mánuði?
Auðvitað kemur mér þetta ekkert við og get bara haldið kj,,,i en ég er graut fúl og læt það eftir mér.
Hulda Björnsdóttir