Það eru að koma jól hjá sumum – Aðrir vilja ekki vita af þessum árstíma og fara í felur- Getur það verið?

10.nóvember 2019

Löggjafinn er vinur litla mannsins, Það fer ekki á milli mála!

Við sem komin erum á eftirlaunaaldur og höfum alla okkar hundstíð lagt fyrir til þess að geta lifað eins og venjulegt fólk þegar við hættum að vinna rekum okkur kyrfilega á og fáum að finna fyrir því að sparnaður samkvæmt lögum er ekki alveg það sem við bjuggumst við.

Þessi vinur litla mannsins, það er löggjafinn, sem situr á Alþingi og vélar þar um hvernig hægt sé að hjálpa aumingja útgerðinni sem er kannski enginn útgerð en hefur fengið á silfurfati úthlutað kvóta sem þeir svo græða á, bæði á tá og fingri, er EKKI  vinur okkar venjulega fólksins.

Fjárlög næsta árs sanna kyrfilega fyrir hverja ríkisstjórn rauðlyppuðu konunnar vinnur.

Nú eru jól á næsta leyti.

Auglýsingar um allan heim um dásemd hátíðarinnar og dásemd kaupmanna og dílara dynja jafnt og þétt alla daga og kvöld.

Nú er að renna upp tími sjálfsmorða og uppgjafar hjá mörgum.

Nei, nei, nei, ekki tala um svoleiðis NÚNA, segja hinir háu herrar sem er nokk sama um meðferðarúrræði hins sótsvarta almúga. Hinir háu herrar skreppa út fyrir landssteinana eða bara á einkapláss þurfi þeir að þurrka sig eða eitthvað annað enn hallærislegra eins og til dæmis í hjartaaðgerð eða slíkt.  Engum hinna háu herra dettur í hug að ómaka sig á því að skoða tölur um sjálfsvíg á þessum tíma svona rétt fyrir jóli. Nei nei alls ekki.

Ég er ekki á því að gefast upp sem betur fer en ætla að leyfa ykkur að sjá hvernig farið er með sparnaðinn minn eftir 40 ára starfsævi.

Mitt dæmi er nokkurn vegin svona núna:

Ég fæ 157 þúsund út úr Lífeyrissjóði, verðbólgan hefur hækkað greiðsluna um nokkur hundruð á árinu.

Ég borga skatta af þeirri upphæð (greiðslunni frá Líf) þar sem framlag mitt var ekki skattlagt þegar ég lagði það fyrir (reyndar er partur af framlagi mínu tvískattaður vegna þess að fyrir núverandi fyrirkomulag greiddum við staðgreiðslu af öllum launum og gátum ekki eins og gert núna dregið frá framlag í lífeyrissjóð og séreignasparnað)

Nú er ég komin á eftirlaunaaldur og á að fá greitt frá TR krónur 248.105 þúsund á mánuði

En

Þar sem ég hafði lagt fyrir í Lífeyrissjóð passar löggjafinn upp á að ég sé ekki of sæl
og segir mér að 25 þúsund krónur séu frjálsar og ég geti notað þær eins og ég vilji
En eftir það skuli ég gefa ríkinu 45% af sparnaðinum mínum því auðvitað megi löggjafinn  ekki til þess hugsa að ég gæti ef til vill átt fyrir mat alla daga mánaðarins.

Löggjafinn ákvað að ég og aðrir sem komnir eru á eftirlaun þurfi ekki 45% af því sem ég og aðrir spöruðu lögum samkvæmt og rífur af mér ( og öllum þeim sem fórum eftir lögunum) án þess að blikna, þessi 45 prósent og notar til þess að niðurgreiða það sem mér ber frá TR.

Þannig að útkoman mín er svona:

188.705 á mánuði frá TR

Frádreginn skattur 69.708 mínus persónuafsláttur 56.447 samtals skattur kr.13.261 vegna greiðslu frá TR.

Samtals greitt frá TR eftir skatt kr. 175.444

Síðan koma 157.000 krónur frá Líf VR og þar af borga ég fullan skatt sem er krónur 57.996 þannig að eftir skatt eru tekjur mínar frá LÍF VR kr.99.004

Fyrir skatta lítur dæmið út þannig: greiðsla frá TR 199.705 og greiðsla frá líf VR 157.000

Samtals eru þessar tekjur fyrir skatt 345.705

Síðan er dreginn frá skattur 71.257 og eftir standa 274.448

Skýring:

(Hvernig er skerðingin reiknuð út hjá mér?

Eftir 25.000 frítekjumark eru tekjur frá Líf reiknaðar 132.000

og 45% af þeirri upphæð er 59.400 sem er dregin frá 248.105

svo út fæ ég frá TR krónur 188.705 þúsund.

157.000 mínus 25.000 = 132.000

45% af 132.000 = 59.400

248.105 mínus 59.400 = 188.705 )

Auðvitað eru margir með minni tekjur en þetta á mánuði og er mér það vel ljóst. Ég tek mitt dæmi af því að það er persónulegra en að vera að tala um Jón eða Gunnu úti í bæ.

Ég verð hins vegar að segja að byggi ég á Íslandi gæti ég ekki lifað af þessum 274.448 krónum mannsæmandi lífi. Ég gæti hugsanlega átt fyrir mat ef ég væri heppin með húsaleigu. Ég gæti örugglega ekki farið til tannlæknis eða keypt mér gleraugu reglulega. Ég gæti líklega átt fyrir lækniskostnaði ef ég væri ekki því lasnari og ég kæmist ábyggilega ekki í venjulega líkamsrækt því hún væri of dýr fyrir mig. Gæti ég átt bíl og rekið hann? Ég bara veit það ekki en finnst það frekar ótrúlegt en auðvitað er hægt að ferðast með strætó ef maður hefur heilsu til þess í hvaða veðri sem er.

Svo koma jólin. Ætli það væri mikið um veisluhöld hjá mér um hátíðina? Hefði ég ráð á því að bjóða fólki í mat eða gæti ég keypt jólagjafir handa þeim sem mig langaði að gefa gjafir?

Líklega ekki.

Gæti ég fengið mér góðan mat, betri mat en alla hina daga ársins, bara fyrir jól? Ég er ekki viss um það.

Þyrfti ég að fara til hjálparstofnana og leita eftir aðstoð um hátíðina? Ja, það væri ekki ólíklegt. Mundi ég hins vegar gera það? Gæti ég hugsað mér niðurlæginguna í því að standa í biðröð fyrir utan og bíða eftir því að mér yrði hleypt inn og kannski þyrfti ég að svara óþægilegum spurningum ef verið væri að ganga úr skugga um að ég ætti nú örugglega rétt á aðstoð?

Mundi ég kannski frekar halda mig heima og reyna að gleyma því að það eru jól og allir EIGA að vera svo glaðir?

Getur verið að örvænting þeirra sem hafa enn minna en mitt dæmi sýnir, sé svo yfirþyrmandi að þeir sjái enga leið út og gefist upp og takið lífið í sínar hendur og ljúki því? Ég held að það sé þannig hjá mörgum. Við tölum bara ekki um það. Við viljum ekki sjá það sem er óþægilegt og getur komið við samvisku okkar sem þjóðfélags. Sumir drekka meira um jól en aðra daga. Hvað þeir eru að drekka er svo annað mál. Sumir brugga heima og aðrir drekka dropa. Sigga svarta var hún kölluð fallega konan sem tapaði fyrir bakkusi vegna aðstæðna sem hún réð ekkert við. Það var fyrir mörgum áratugum. Hefur ástandið batnað á landi hinna ríku? Nei, það hefur ekki batnað, hins vegar hafa margir eldri borgarar og öryrkjar flúið á vit annarra landa þar sem ódýrara er að lifa og kannski hægt að horfa til morgundagsins án þess að maginn gargi af hungri.

Jólin eru tími saknaðar hjá mörgum útlögum en við því er ekkert að gera. Þeir gera eins vel og þeir geta til þess að komast af og sumum tekst það en öðrum ekki.

Gleymum því ekki að mjög margir lifa til efri ára og verða kannski gamlir. Margir þeir sem nú maka eigin krók gætu orðið fyrir óhappi eða slysi eða átt nákominn ættingja sem þeir þyrftu að taka að sér. Það er enginn óhultur en margir virðast halda að þeirra líf sé eilíft og gefa lítið fyrir náungann sem passar ekki inn í formið sem kakan er bökuð í.

Alþingismenn!

konur eru líka menn og því ávarpa ég þingheim svona:

Þið hafið valdið. Þið getið gert landið búanlegt fyrir ALLA ef þið einfaldlega viljið. Ef þið gerið ekkert í málinu annað en að blaðra endalaust um allt og ekki neitt þá eigið þið ekki skilið að sitja í þessu gamla virðulega húsi. Árangur ykkar er ekki launatengdur. Árangur ykkar speglast í því hve margir hinna fátæku lifa af þessi jól og hve margir gefast upp og hverfa til betra lífs á öðrum hnöttum hvar svo sem þeir hnettir eru. Einn góðann veðurdag kemur að uppgjörinu og guð hjálpi þeim sem nú stjórna í boði græðgi og mannfyrirlitningar.

Það er sárara en tárum taki að horfa upp á poppúlista ætla að flækja flókið kerfi enn meira og halda að það sé hægt að slá sér upp á loforðum og upphrópunum sem standast ekki skoðun. Þeir sem eru að argast í verkalíðsforystunni fyrir að vera á móti flækjunni sem nú er gargað um ættu að skammast sín og horfa á hvað þeir eru að gera og skoða málið frá öllum hliðum.

Hulda Björnsdóttir

 

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: