7.nóvember 2019
Góðan daginn
Haukur Arnþórsson er háskólamenntaður fræðimaður sýnist mér á Facebook síðunni hans.
Hann skrifar mikið, bæði bækur og greinar og hefur aðgang að dagblöðum á Íslandi, sýnist mér.
Og síðast en ekki síst þá er hann karlmaður!
Ég er ekki háskólamenntaður fræðimaður.
Ég hef ekki skrifað margar bækur eða mikið af greinum í dagblöð á Íslandi.
Ég hef ekki aðgang að dagblöðum á Íslandi.
- Og síðast en ekki síst þá er ég EKKI KALL, ég er kvenkyns!
Ég er hins vegar Íslendingur og íslenskur ríkisborgari sem hef verið svo ósvífin að kynna mér málefni eldri borgara þó nokkuð vel og leyft mér að hafa skoðun á þeim málum á Facebook og með bloggi.
Til þess að skrifa um málefni eldri borgara og birta tölur tel ég mikilvægt að farið sé með rétt mál og ekki sé verið að blanda saman ellilífeyri og félagslegum pökkum. Félagslegu pakkarnir eru nokkrir, til dæmis heimilisaðstoð, bílastyrkur, húsaleigubætur og fleira.
Ég skil auðvitað að það er fádæma frekja í mér, kvennsniftinni, að ætlast til þess að karlmaður viti hvernig ellilífeyrir er byggður upp!
Auðvitað á ég ekkert að vera með afskiptasemi út af greinum sem sérfræðingurinn birtir ásamt fleirum sem falla í sömu grifjuna og halda að eftirlaun frá TR séu samsett af ellilífeyri og heimilisuppbót og geri þar af leiðandi eitthvað í kringum 300 þúsund krónur á mánuði fyrir skatta.
Málið er hins vegar svona í laginu:
Ellilífeyrir (eftirlaun) frá TR er árið 2019 krónur 248.105
Síðan koma félagslegu pakkarnir, þar á meðal heimilisuppbótin sem Haukur tekur með í samanburðartölun sínum.
Hér að neðan eru upplýsingar teknar af síðu TR, varðandi greiðslur til eftirlaunafólks!
Heimilisuppbót til ellilífeyrisþega: 62.695 kr. (Fyrir þá sem búa einir)
Ellilífeyrir – útreikningur lífeyris
Allar skattskyldar tekjur eru notaðar við útreikning á lífeyri og tengdum greiðslum, svo sem atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur. Undantekningar eru þó greiðslur frá TR, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og úttekt á séreignarlífeyrissparnaði.
Fjármagnstekjur eru sameign hjóna / sambúðarfólks og hefur því helmingur þeirra áhrif á útreikning hjá hvoru fyrir sig. Aðrar tekjur maka en fjármagnstekjur hafa ekki áhrif.
Tekjur hafa engin áhrif ef valið er að fara á hálfan lífeyri frá TR á móti hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum.
Auðvelt er að setja forsendur inn í reiknivél lífeyris á tr.is til að skoða áhrif tekna á greiðslur.
Hvað má hafa í tekjur án þess að það hafi áhrif á útreikning?
Atvinnutekjur: 1.200.000 kr./ári
Aðrar tekjur s.s. lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur: 300.000 kr./ári
Áhrif tekna yfir frítekjumörkum á ellilífeyri: 45%
Áhrif tekna yfir frítekjumörkum á heimilisuppbót: 11,90%
Greiðslur falla niður: 6.916.133 kr./ári eða 576.344 kr./mán.
Einungis þeir sem fá greiddan lífeyri geta fengið greidda heimilisuppbót og aðrar uppbætur. Búseta erlendis getur lækkað greiðslur lífeyris og tengdra bóta. Þegar búið er að reikna út heildartekjur eru þær notaðar til að ákvarða upphæðir greiðslna.
Upphæðir
Fullur ellilífeyrir fyrir þann sem býr ekki einn: 248.105 kr/mán.
Þeir sem búa einir geta átt rétt á heimilisuppbót sem er 62.695 kr./mán.
Samanlögð réttindi fyrir þá sem búa einir geta verið 310.800 kr./mán.
Greiðslur heimilisuppbótar falla niður þegar tekjur ná 6.622.185 kr/ári, 551.849 kr/mán.
Uppbót á lífeyri getur verið 5-140% af lífeyri. Allar tekjur, að meðtöldum skattskyldum tekjum frá TR öðrum en aldurstengdri örorkuuppbót hafa áhrif á útreikning. Uppbætur falla niður ef eignir í peningum og/eða verðbréfum fara yfir 4 milljónir hjá einstaklingi en 8 milljónir hjá hjónum. Greiðslur uppbóta falla niður þegar tekjur ná 2.827.779 kr/ári eða 244.132 kr./mán.
Réttur á uppbót vegna rekstur bifreiðar myndast ef einstaklingar eru með hreyfihömlunarmat frá TR og er upphæðin 17.180 kr/mán.
Ráðstöfunarfé er 74.477 kr/mán. og greiðslur falla niður: 1.327.182 kr/ári eða 110.599 kr/mán.
Það væri ekki vitlaust fyrir þá sem lesa grein Hauks í Mogganum að skoða það sem er hér á undan með stærra letri svo ekkert fari nú forgörðum.
Ég skil auðvitað að það er fádæma frekja í mér, kvennsniftinni, að ætlast til þess að karlmaður viti hvernig ellilífeyrir er byggður upp!
Þeir sem búa erlendis og búa þar einir fá auðvitað ekki heimilisuppbót þar sem hún er félagsleg aðstoð og allt sem heitir félagsleg aðstoð fellur niður við flutning frá Íslandi!
Bjarni og co hafa notað afðerð Hauks ásamt fleiri pólitíkusum sem þurfa að slá um sig með fallegum tölum. Að maður sem segist vera að vekja athygli á bágum kjörum eftirlaunafólks á Íslandi skuli falla í sama farið finnst mér með ólíkindum.
Heimilisuppbót var sett á til þess að létta undir með þeim sem búa einir rétt eins og margir aðrir þættir sem falla undir félagslega aðstoð.
Eins og sjá má þá lýtur heimilisuppbót ekki sömu skerðingarlögmálum og ellilífeyrir! Munurinn á 45% og 11,90% er nú ekkert smáræði, eða það finnst mér sem er auðvitað ekki háskólamenntuð stjórnmálafrík.
Ég frábið mér að taka þátt í umræðu um bandvitlausar tölur þegar verið er að segja frá því hvernig við eftirlaunafólk höfum dregist aftur úr. Það munar nú ekkert smá um 62.695 krónur á mánuði og gæti ég alveg treyst mér til þess að taka á móti þeim krónum til viðbótar við skert eftirlaun mín, sem ég auðvitað niðurgreiði með lögbundnum sparnaði mínum í Lífeyrisjsóð.
Það er líklega borin von að koma háskólagenginu í skilning um hvernig ellilífeyrir er og hvað hann er hár, óskertur, fyrir venjulegt fólk!
Það er líklega líka borin von að halda að Haukur og hans skrif taki í framtíðinni mið af því sem ég er að segja!
Það er nefninlega þannig að konur eiga ekkert að vera að rífa sig um málefni sem þær hafa vit á og þekkja í kjölinn. Konur eins og ég eiga bara að sitja og sauma eða prjóna og bíða eftir flottum greinum frá háskólagenginu.
Ég ætla að láta það vera að hnykkja á töluþekkingu formanns LEB og fleiri þar á bæ. Það er efni í annann pistil.
ARRRRRRRRRG
Er ekki hægt að skilja þetta jafnvel þó það sé á íslensku:
Er ómögulegt að hafa þessa staðreynd rétta? Ellilífeyrir (eftirlaun) frá TR er árið 2019 krónur 248.105 á mánuði! Heimilisuppbót er EKKI ellilífeyrir – hún er félagslegur stuðningur!
Hulda Björnsdóttir