31.október 2019
Góðan daginn
Síðasti dagur mánaðarins og þeir sem fá greitt úr Lífeyrissjóðum fá væntanlega inn á reikninga sína í dag.
Á morgun er 1. nóvember og þá greiðir TR út.
Allt er þetta rétt eins og venjulega en það sem er svo ömurlegt við þetta allt saman er að margir hafa ekki átt fyrir mat síðustu viku og enn fleiri ekki fyrir mat þessa viku.
Venjulega er ég með allt mitt á hreinu og þarf ekki að svelta síðustu dagana og er það eins núna um þessi mánaðamót.
Ég er heppin.
Ég bý erlendis þar sem eftirlaunin endast betur en á hinu fokdýra Íslandi.
Þeir sem búa á Íslandi og eru svo óheppnir að tilheyra venjulegu eldri borgurunum og öryrkjunum eiga ekki sjö dagana sæla síðustu viku mánaðarins. Þeir sem leigja húsnæði eru líklega allra verst staddir. Mér sýnist húsaleiga vera að kæfa venjulega fólkið.
Núna er að hefjast málarekstur vegna þjófnaðar ríkisins á sparnaði okkar sem höfum unnið á Íslandi og greitt í lífeyrissjóði alla okkar starfsæfi.
Ærandi þögn um málið er áberandi frá þeim sem eru í atkvæðasmölun fyrir næstu kosningar.
Það þykir ekki merkilegt að 3 manneskjur, Finnur Birgissson, Wilhelm Wessmann og Ingibjörg hafa látið hendur standa fram úr ermum og tekist að fá Gráa Herinn til þess að vera með í málssókninni.
Mér þykir þetta merkilegt.
Ég hef fylgst með Finni og Wilhelm síðustu 2 árin og séð hvernig þeir hafa jafnt og þétt þokað málinu áfram og svo gekk Ingibjörg til liðs við þá.
Þessi þrjú eiga heiður skilið. Þau sættu sig ekki við endalast innantómt bla bla bla um að eitthvað þyrfti að gera. Þau stóðu upp og framkvæmdu.
Framkvæmdirnar eru einmitt það sem eldri borgarar þurfa á að halda. Fallegar hugvekjur um hina minnstu bræður og FÓLKIÐ OKKAR skila engu, nákvæmlega engu.
Nú er komið að okkur að fylgjast grannt með málarekstrinum og styðja við málið ef leitað verður eftir því. Þetta er mál sem tekur tíma og verður rándýrt.
Þremeningarnir hafa gengið svo frá öllu að ekkert annað en fullkomlega löglegt er í boði.
Söfnunarsjóðurinn hefur verið stofnaður og þinglýstur. Lögmenn hafa tekið málið að sér. Allt hefur verið gulltryggt svo að ekki verði hægt að hengja einn eða neinn fyrir að ekki hafi verið staðið rétt að málum.
Ég hlakka til að fylgjast með. Ég hlakka til að sjá upplitið á ráðamönnum þjóðarinnar til margra áratuga þegar endanleg niðurstaða birtist.
Ef það væri manndómur í íslensku réttarkerfi þyrfti þetta mál ekki að fara fyrir Mannréttindadómstól. Ef það væri réttlæti í íslenska kerfinu mundi Landsréttur dæma málshöfðendum í vil.
Hvað gerist vitum við ekki en þetta er komið af stað og snjóboltinn mun ekki bráðna á leiðinni. Hann kemst alla leið niður fjallið og við munum fagna sigri að lokum.
Hulda Björnsdóttir