28.október 2019
Það er næstum alveg sama hvað Trump gerir, hann segir alltaf að það hefði átt að gera það í tíð fyrri forseta. Nú er búið að drepa enn einn hryðjuverkagúrúinn og Trump ræður sér ekki fyrir gleði og rausar út í eitt um eigið ágæti. Myndir hafa verið birtar þar sem kallinn situr ábúðarmikill fyrir borðsendanum með merkjapríddu liði til beggja hliða.
Mér datt þetta í hug þegar ég sá grein eftir formann stærsta félags eldri borgara áðan. Hann talar þar um ævisögu sína, maðurinn auðvitað frægur og ekkert minna en ævisaga getur tekið á því einstaka máli. Svo talar hann um fólk sem hafi dáið. Sumir líklega vegna aldurs og aðrir vegna sjúkdóma. Auðvitað deyr fólk og er rétt að geta þess. Það létust til dæmis 3 ungmenni, vinir, í nótt hér í litla landinu mínu. Þau fórust í bílslysi. Svo lést 14 ára drengur í traktorsslysi í dag. Það deyr fólk á hverjum einasta degi hér í landinu mínu í umferðarslysum og er vissulega haft orð á því og birt í blöðum. Þetta er hræðilegt ástand og í gær varð ég vitni af “næstum því” slysi þar sem ungur maður keyrði eins og vitfyrringur inn á litið hringtorg og bíllinn lyftist á aðra hliðina en sem betur fer rétti hann sig af, það er bíllinn, og ekki varð slys.
Hvað koma slys í útlöndum við grein formanns stærsta félags eldri borgara á Íslandi?
Jú, þetta er partur af lífinu og á rétt á að um sé fjallað. Hins vegar sé ég ekki hvers vegna maðurinn, sem hefur nú nýlega fagnað 80 ára afmæli sínu, notar ekki vettvang “Lifðu núna” til þess að heyja baráttu fyrir kjörum eldri borgara. Hann minnist aðeins á hina minnstu bræður! Og baráttu fyrir bættum kjörum þeirra.
Mér er verulega misboðið þegar formaðurinn kallar mig hinn minnsta bróður og gerir lítið úr mér og mínu ævistarfi. Ég hef að vísu ekki orðið fræg fyrir að sparka í tuðru á fótboltavelli eða að skipta um stjórnmálaflokka en ég hef unnið samviskusamlega og fylgt lögum og reglum landsins og greitt skatta og skyldur og sparað í Lífeyrissjóð til efri áranna og ætti að hafa það sæmilegt ásamt öðrum á mínum aldri þegar starfsævinni er lokið.
Það er ekki við miklu að búast með slíka forystu í baráttumálum okkar eldri borgara. Það er eiginlega rökrétt að ástandið sé eins og það er með þennann ágæta formann í stærsta félaginu og fráfarandi formann nú sem formann í Landssambandinu.
Ég verð þó að segja að Grái herinn, sem snéri við blaðinu nýlega og varð alvöru baráttuafl, er að standa sína plikt. Málssóknarsjóðurinn er að sjá dagsins ljós og Finnur, Wilhelm og Ingibjörg eru að lyfta grettistaki með starfi sínu. Sem betur fer er til fólk sem bullar ekki út í eitt í hugvekjuformi um hina minnstu bræður. Nei, það er sem betur til fólk sem brettir upp ermarnar og framkvæmir það sem getur skipt máli fyrir eldri borgara. Þannig fólk eru þessi þrjú og þeir sem starfa með þeim innan núverandi Gráa hers og er ég þakklát fyrir þau.
Ég vildi að ég gæti haft áhrif á að fá öflugann mann til forystu í stærsta félagi eldri borgara. Ég hef engin völd. Ég hef eiginlega ekkert með málið að gera annað en að ég nýti rétt minn til þess að taka við eftirlaunum frá Íslandi, réttindi sem ég hef verið að vinna mér inn alla starfsævina, mara áratugi.
Ef Kinverska alþýðuveldið hefði veitt mér varanlegt dvalarleyfi hefði ég búið í Kína núna og þá hefði íslenska ríkið sloppið við að greiða mér eftirlaun. Það er nefninlega ekki sama hvar þú býrð þegar þú ferð á 67 ára aldurinn og réttindi þín til eftirlauna rjúka út um gluggann ef þér dettur sú fyrra í hug að flytja til Asíu! Það má kannski segja að Kínversk stjórnvöld hafi gert mér greiða með því að gera mér eins erfitt fyrir og mögulegt var með að búa í landinu sem ég hafði valið mér. Stundum sér maður að mestu vonbrigðin eru líklega fyrir bestu eins og sakir standa.
Svo ég víki aftur að því jákvæða í þessum pistli mínum, framtaki Finns, Wilhelms og Ingibjargar, þá er ærandi þögn stjórnmálamanna, þeirra sem eru í andstöðunni, um þetta mál. Flokksformaður FF hefur blásið út af stolti yfir máli móður Ingu gegn TR og er hress með að það mál vannst og mismunar fólki eins og svo oft áður. Í upphafi var hrópað hátt á vegum FF um réttlætið fyrir alla. Núna er komið í ljós að sumir, móðir Ingu, er réttlátari en aðrir og hennar réttlæti er annað en okkar hinna.
Inga, formaður FF gæti hugsanlega sett dæmið svona upp miðað við það sem ég hef heyrt til hennar í fjölmiðlum um málið:
Hugsum okkur að Inga væri spurð í fjölmiðli hvernig stæði á því að móðir hennar fengi dráttarvexti en aðrir fjármagnstekjur (vexti) sem TR telur vera tekjur og koma til skerðinga á eftirlaunum? (ég fékk skerðingu vegna vaxtanna og þurfti að endurgreiða skuld sem varð til vegna útreiknaðra vaxta hjá mér sem voru hins vegar kallaðir dráttarvextir hjá móður Ingu)
Inga gæti til dæmis orðað þetta svona:
“Móðir mín var notuð fyrir ykkur öll í svo nefndu prófmáli. Lögmaður hennar gerði ítrustu kröfur fyrir hana sem sinn skjólstæðing þar á meðal kröfu um dráttarvexti. Sú krafa gildir þó ekki fyrir alla heldur einungis aðila málsins.Þeir sem vilja sækja dráttarvextina þurfa að gera það sjálfir gegnum dómkerfið. Tryggingastofnun hefur ekki með þetta að gera svona er bara gildandi réttur.”
Ofangreint svar hefði hæglega getað verið frá Ingu. Guðmundur Ingi sem er hinn baráttumaðurinn fyrir fátækt fólk á Alþingi orðaði þetta svona í umræðu sem ég átti við hann á Facebook:
Guðmundur Ingi Kristinsson Landsdomur visar í stjórnarskrá og hún er æðri en almannatryggingalogin. Því má kæra þetta til úrskurðarnefnd.
Hulda Bjornsdottir En Guðmundur, þarf þá hver og einn að kæra til úrskurðarnefndarinnar? Mér finnst þetta alveg ótrúlegt mál og lýsa einhverju annarlegu kerfi sem ríkir innan Tryggingastofnunar ríkisins.
Guðmundur Ingi Kristinsson Hulda Bjornsdottir já því miður og svona hefur fjórflokkunum tekist að brjóta á lífeyrislaunaþega hjá TR í áratugi.
Guðmundur Ingi Kristinsson Hulda Bjornsdottir mun pottþett halda áfram að benda á þetta í ræðustóli Alþingis.
Hefur Guðmundur Ingi talað um þetta ákveðna mál úr ræðustól Alþingis? Ég hef ekki séð það, en það getur verið að það hafi farið framhjá mér.
LÍFEYRISLAUNÞEGAR er nýtt orð sem þingmaðurinn dregur hér upp. Ekki veit ég hvaðan það er komið en er svo sem ekki verra en hvað annað.
Einhverjir eldri borgarar hafa skrifað athugasemdir hjá mér og sagst hafa fengið það sem þeim ber. Þeir hafa líklega ekki athugað nákvæmlega hvaða afleiðingar það sem þeir fengur greitt hefur fyrir framhaldið eða hversu miklar skaðabætur þeir fengu vegna málsins. Dráttarvextir eru samkvæmt ótal dómum Hæastaréttar landsins ekki vextir, þeir eru skaðabætur, en samkvæmt ummælum Ingu og Guðmundar eru þeir dómar tómt rugl sem enginn hlustar á !
Já, baráttan er ekki alveg einlit. Sumir eru jafnari en aðrir. Sumir eru betur settir og nýta sér ýtrustu þjónustu hvernig svo sem þeir fara að því. Það kemur mér auðvitað ekkert við hvar alþingismenn búa eða hvað þeir borga í húsaleigu. Það kemur mér auðvitað heldur ekkert við að farið sé í mál við TR og blásið út að þar sem flokkurinn eigi svo mikla peninga ætli hann að kosta málið úr eigin sjóðum. Það kemur mér auðvitað ekkert við að málið drógst vegna þess að sótt var um gjafsókn og hún fékkst.
Það kemur mér auðvitað ekkert við og ég á ekkert að vera að spyrja svona spurninga en ætla samt að gera það:
HVAÐ BORGAÐI FLOKKUR FÓLKSINS MIKIÐ FYRIR MÁLSSÓKNINA GEGN TR VEGNA JANÚAR OG FEBRÚAR 2017? HVAÐ FÓRU MARGAR KRÓNUR AF SJÓÐUM FLOKKSINS Í ÞESSA MÁLSSÓKN?
Flokkurinn fékk dágóðan styrk árið 2017 tæpar 10 milljónir minnir mig og væri fróðlegt að vita hvað margar milljónir hann notaði í þetta mál sem var á endanum ekki eins fyrir alla jafnvel þó um prófmál væri að ræða.
Nú rísa væntanlega upp stuðningsmenn FF og húðskamma mig. Það er allt í lagi. Ég get tekið því. Það verður fróðlegt að sjá tölurnar, þó ég búist ekki við því að þær fáist birtar. Líklega hefur FF komist inn á þing meðal annars vegna þessa máls og skrúðsins í kringum það.
Eru allir búnir að gleyma því að stór fundur var haldinn í Háskólabíói og þar átti ákveðinn lögmaður að tala um málssóknina gegn TR en hætt var við þá ræðu vegna annars vandræðamáls lögmannsins? Það þótti ekki vænlegt til árangurs að lögmaðurinn talaði á fundinum, semsagt ekki vænlegt til atkvæðaveiða!
Ætti Flokkur Fólksins, sem segist vera fyrir alla og fyrir réttlæti handa þeim sem eru órétti beittir, ekki að vera hreinlega að ærast af gleði yfir því að nú skuli vera að skella á málssókn vegna einhvers hróplegasta ranglætis Íslandssögunnar gagnvart þeim sem hafa safnað í Lífeyrisjsóði samkvæmt lögum og reglum?
Þögnin er ærandi
Hulda Björnsdóttir