4.október 2019
Góðan daginn
Ég tók mig til í morgun og sendi bréf til Úrskurðarnefndar Velferðarmála. Ég bað einhvern um að gefa sig fram fyrir nokkrum dögum og aðstoða mig við kæruna en fékk engin svör og ákvað í morgun á láta vaða.
Ég er ekki lögfræðingur eða löglærð og kann ekkert sérlega mikið á lagaflækjur og aðferðir við að leita réttar míns hjá kerfinu. Margir fleiri eru ábyggilega í sömu stöðu og því ætla ég að birta hér bréfið sem ég sendi til nefndarinnar en auðvitað voru svo ótal skjöl sem beðið var um. Upphófst nú gmaila samræða og mikið langaði mig til að segja eitthvað sem ég hefði svo ábyggilega séð eftir, eins og til dæmis: getið þið ekki skrollað niður mailið sem ég sendi ykkur afrit af? Þegar ritarinn hafði spurt mig hvort ég hefði sótt um leiðréttingu hjá TR. Arrrg.
Ferlið allt er mjög flókið.
Það er hægt að fara inn í kerfið í gegnum tölvu en björninn er ekki unninn með því og þeir sem eru óvanir tölvum gætu fórnað höndum.
Önnur leið er að senda bréf til nefndarinnar. Það gæti reynst snúið fyrir marga og fullt af eldri borgurum sem geta ekki og hafa ekki heilsu í að stappa við óbilgjörn stjórnvöld sem virðast stjórnast af geðþóttaákvörðunum oft á tíðum.
Nú verður einhver móðgaður og mér er svo sem sama um það.
Það liggur fyrir hjá mér að hlusta á umræðuþátt um málefni eldri borgara í RUV og ég kvíði því eins og ég væri að fara að ganga fyrir björg. Það er sárgrætilegt að sjá það sem hefur verið skrifað um þennann þátt en kemur ekki á óvart. Sama fólkið er aftur og aftur kallað til. Fátæka fólkið er ekki með. Það er ekki gjaldgengt í svona fínerí. Formaður LEB er auðvitað fremst í flokki og ég verð að segja að hún þyrfti nauðsynlega að fara að hvíla sig og hætta að nýta REYNSLU SÍNA í okkar þágu.
Jæja, hér á eftir er semsagt bréfið sem ég lét vaða til Úrskurðarnefndar Velferðarmála og býst ég ekki við miklum árangri.
Árangur fyrir mig eina er ekki það sem ég er að sækjast eftir og hefði verið auðveldara fyrir mig að láta kyrrt liggja og gefa ríkinu eftir þessa örfáu þúsundkalla sem þeir fá. Ég get samt ekki bara setið og þóst ekki vita um málið. Ég hef áhyggjur af þeim sem ekki geta bjargað sér og reynsla mín af því að biðja um hjálp við að sækja málið lofar ekki góðu fyrir þá sem eru upp á aðra komnir. Mér finnst líka hálf dapurlegt að heyra Ingu tala á Bylgjunni um málið og vinninginn en minnast ekki á hvernig eldri borgurum er mismunað í þessu máli. Er nóg fyrir hana að móðir hennar hafi fengið allt sem hún vildi og geta hinir bara etið það sem úti frýs, eina ferðina enn. Það er fínt að slá um sig og sitja svo og segja að allt sé nú fjórflokknum að kenna og ekkert hægt að gera því það fyrirbæir hafi eyðilagt allt!
Velferðarráðherra er auðvitað þvílíkur smánarblettur á þjóðfélaginu að ég á ekki til orð í þá lýsingu.
Ráðherrar og stjórnarfólk hamast endalaust með 6 milljarða en tekur aldrei fram að sú tala er brúttó. Þegar búið er að taka skatta og skerðingar af herlegheitunum breytist talan verulega en það lítur ekki eins vel út þegar verið er að hæla sér af því hvað miklum fjármunum er eytt í þessa óþörfu málaflokka, málaflokka eldri borgara og öryrkja.
Þá er ég semsagt búin að ausa úr skálum vonbrigða minna í bili og hér kemur bréfið til hinnar háæruverðugu nefndar:
4.október 2019
Eftirfarandi er svar frá TR til mín vegna athugasemdar við fjármagnstekjuskatt vegna dráttarvaxta sem greiddir voru vegna leiðréttingar fyrir jan og feb 2017 hjá eldri borgurum!
Í svari stofnunarinnar sem fer hér á eftir túlka þau málið þannig að einungis hafi einstaklingurinn sem kærði átt að fá dráttarvexti.
Aðrir sem hafa fengið leiðréttingu fá greidda vexti!
Ég er ekki lögfróð og get ekki svarað því hvort þessi túlkun sé rétt en get ekki ímyndað mér að svo sé.
Ég hélt að þetta væri prófmál og niðurstaða dómsins, að undanskildum tölum einstaklingsin, ætti við alla sem þessi lög brutu á.
Ég skil ekki hvernig málshöfðandi fær dráttarvexti en aðrir venjulega vexti.
Hvaða munur er á mér og málshöfðanda?
Við vorum báðar látnar sæta skerðingum vegna lífeyrissjóðstekna fyrir janúar og febrúar 2017 vegna lögleysu.
Við fengum báðar leiðréttingu vegna ólöglegu skerðinganna þessa 2 mánuði.
Hún fékk dráttarvexti og ég fékk vexti.
Hún fékk skaðabætur en ég fékk fjármagnstekjur!
Er þetta bara allt í lagi?
Svar TR til mín vegna athugasemdar minnar!
“Góðan dag
Í dómi Landsréttar nr. 466/2018 var einstaklingnum sem kærði dæmdir dráttarvextir.
Vaxtagreiðslur til þeirra lífeyrisþega sem fá greidd leiðrétt réttindi vegna janúar og febrúar 2017 í kjölfar dómsins taka hins vegar mið af 4. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, en þar segir að „Þegar bætur eru vangreiddar skal greiða bótaþega 5,5% ársvexti á þá bótafjárhæð sem vangreidd var…“.
Líkt og fram kemur í tilkynningu Tryggingastofnunar um leiðréttingu á greiðslum vegna janúar og febrúar 2017, dags. 25. september 2019, er hægt er að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála ef ágreiningur rís um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta eða greiðslna.
Kv”.Tilvitnun lýkur
Ég geri alvarlega athugasemd við túlkun TR. Jafnræðisregla hlýtur að eiga við hér. Það getur ekki verið að stofnun geti túlkað mál eins og gert er hér að framan. Sé það hins vegar mat Úrskurðarnefndar að Tryggingastofnun fari með rétt mál og samkvæmt samtali við Alþingismann að hver og einn einstaklingur þurfi að sækja um leiðréttingu þá verð ég að segja að mér er stórlega misboðið.
Mér sýnist þessi túlkun TR vera á skjön við jafnræðisreglu. Ég sé ekki betur en verið sé að hlunnfara eldriborgara sem ekki geta kært málið fyrir þessari ágætu nefnd, og þeir eru margir sem ekki hafa tölvur hvað þá Íslykla til þess að skrá sig inn. Einnig eru þó nokkrir eldri borgarar sem ekki treysta sér til þess að kæra slík mál, jafnvel þó hægt sé að senda kæruna í almennum pósti.
Þetta kerfi til kæru er ótrúlega flókið og ef ég væri óþokkaleg mundi hvarfla að mér að kerfið væri gert til þess að koma í veg fyrir að fólk sæki rétt sinn.
Ég fer fram á að nefndin komi því til leiðar að lögum eða reglugerð verði breytt svo slíkt mál sem þetta þurfi ekki að koma upp aftur. Eldri borgarar hafa skilað sínu til þjóðfélagsins og eiga ekki skilið að vera meðhöndlaðir eins og þurfalingar. Eldri borgara eiga skilið að það kerfi sem þeim er boðið upp á sé aðgengilegt og einfalt og að það mismuni ekki fólki eins og áður nefnd túlkun TR gerir.
Ég fer fram á að nefndin úrskurði í mínu máli og mér verði taldar til tekna dráttarvextir en ekki fjármagnstekjur og þar af leiðandi verði mér ekki gert að greiða skatta af lítilræðinu.
Reiknaðir vextir Tryggingastofnunar Ríkisins voru krónur 17.191
Frádregnir skattar, fjármagnskattur er krónur 3.782
Ég fer fram á að mér verði úrskurðaðar 17.191 krónur sem reiknaðir dráttarvextir vegna málsins og þar af leiðandi verði ekki reiknaður skattur af upphæðinni þar sem dráttarvextir eru samkvæmt mörgum dómum Hæstaréttar ekki vextir heldur skaðabætur.
Ég fer einnig fram á að nefndin beiti sér fyrir því að ALLIR sem fengu leiðréttingu vegna handvammar ríkisins við lagasetningu fyrir jan og feb 2017 fái leiðréttingu sinna mála án þess að hver og einn þurfi að brasa í því að sækja um til Úrskurðarnefndar Velferðarmála.
Kostnaður ríkisins vegna þessa máls er EKKI eldri borgurum að kenna. Kostnaðurinn er tilkominn vegna flausturslegra vinnubragða löggjafans og eiga eldri borgarar ekki að þurfa að líða fyrir það.
Virðingarfyllst
Hulda Björnsdóttir kt.220545-7419
Tilvitnun lýkur
Nú er bara að bíða og sjá hvað kemur út úr málinu. Hvaða fleiri pappíra þarf? Hvaða frekari rök þarf ég að færa fram? og svo framvegis.
Ég hef sent nefndinni öll þau pappírssnifsi sem hún hefur beðið um og það eina sem ég get sagt jákvætt um þetta mál er að ritarinn hamaðist strax í þvi sem á vantaði en beið ekki í marga daga!
að lokum þetta:
6 milljarðarnir að frádregnum sköttum og skerðingum eru ekki tilkomnir vegna gjafmildi ríkisstjórnarinnar. Nei, þessi útgjöld eru vegna flausturslegra vinnubragða ráðuneytis og þeirra sem lögin skrifuðu. ÞETTA ER LEIÐRÉTTING vegna mistaka ráðuneytis og stjórnar en ekki hækkun á einu eða neinu til eldri borgara.
Ríkið, við, verður af stórfé alla daga ársins vegna subbuskapar þeirra sem eiga að passa upp á að rétt sé staðið að málum. Það er nú ekki flóknara en svo!
Hulda Björnsdóttir