12.september 2019
Góðan daginn
Rétt nokkur orð í morgunsárið.
Alþingi komið saman og búið að halda dásamlegar lofræður um allt og ekki neitt.
Stjórnin voðalega stolt af verkum sínum og allt svo ægilega fjölskylduvænt og dásamlegt fyrir þá sem minna hafa og kaupmáttur aukist og allt þetta venjulega.
Stjórnarandstaðan ekki eins stolt af verkum ríkisstjórnar og telur upp eitt og annað, sem er svo ótrúlegt en samt bara dagsatt.
Andstaðan er ábúðarfull, stjórnin er glöð og talar hægt og stundum með bros á vör en umfram allt svo hamingjusöm með allt.
Andstaðan talar hátt og æsa sumir sig mjög. Stjórnarráðherrar sumir, liggja ofan í símunum sínum og hlægja í laumi að andstöðu sem þeir vita að hefur nákvæmlega ekkert vægi. STJÓRNIN RÆÐUR og hinir geta bara RIFIÐ SIG EINS OG ÞEIR VILJA og ekkert breystist.
Allir þingmenn hafa farið í dómkirkjuna og hlustað á prestinn og svo hefur forsetinn líklega talað eitthvað, semsagt mjög dannað og virðulegt eins og vera ber.
Svo ganga allir frá kirkju í röð, inn í þinghúsið og upp hefst ný vella, framhald af þeirri fyrir sumarfrí.
Fjármálaráðherra hamast eins og rjúpan við staurinn og treður í okkur sannleikanum. ÞIÐ HAFIÐ VÍST FENGIÐ HÆKKUN OG KAUPMÁTTUR YKKAR HEFUR VÍST HÆKKAÐ.
Við, láglaunafólkið, öryrkjarnir og eftirlaunafólkið þetta venjulega sem er ekki á ofureftirlaunum, erum svo heimsk að við skiljum ekki fjármálaráðherrann, eða það heldur ríkisstjórnin.
Forsætisráðherrann er svo ægilega óstjórnlega stolt af því að vera í ríkisstjórn sem heldur svo fallega utan um þá sem mest þurfa á því að halda, auðmennina.
Já, ekki má gleyma heilbrigðisráðherra sem er yfir sig hamingjusöm með heilbrigðiskerfið og heldur ekki vatni yfir þeim dásamlegu fréttum sem þaðan berast.
Hún, heilbrigðisráðherra, er yfir sig hamingjusöm með stöðu vinkonu minnar, eða það hlýtur að vera, vinkonu sem fór á bráðamóttöku, var send heim, fór aftur á móttökuna sárlasin og sagt að fara því vaktinni væri að ljúka og best fyrir vinkonu mína að tala bara við heimilislækninn, hann gæti ábyggilega gefið henni sterk verkjalyf sem síðan mundu róa órólega fársjúka vinkonu mína.
DÁSAMLEGT HEILBRIGÐISKERFI ER STAÐREYND, eða er það ekki frú heilbrigðisráðherra, og þetta bara dyntir í vinkonu minni að vera með uppsteit vegna einhverra smá verkja rétt áður en vaktaskipti eru á bráðamóttöku?
Ég bara nenni ekki að tala um kúl myndatöku af stjórnarandstöðu og flottum rauðum kjólum. Það ergir mig bara enn meira.
Ég ætla þó að leyfa mér að vera öskuill yfir dónaskap fjármálaráðherra og framsóknar puntinu og skammast yfir því að þeir skuli ekki kunna betur mannasiði en að vera hlæjandi ofan í símana á meðan formaður stjórnmálaflokks stendur í pontu og reynir að garga yfir skemmtunina og segja þeim, eða reyna að koma þeim í skilning um, að fátæktin hafi ekkert farið.
Fjármálaráðherra er lyginn ómerkilegur valdaseggur og framsóknarpuntið er ekkert betra. Framsóknarpuntið hefur bara vit á að ljúga ekki opinberlega eins mikið og hinn.
Forsætisráðherra er ekkert annað en væmið fyrirbæri af valdagráðugri frú sem gaf allt upp á bátinn fyrir forsætisráðherrastólinn, eða hvað.
Það merkilega við þetta allt saman er að ég hef ekki hlustað á umræður á Alþingi í gær, ekki enn.
Ég ætla að gera það seinna í dag en það er ekki forgangsverkefni fram yfir annað sem dagurinn ber í skauti sér.
Sjálfsagt verð ég sótt til saka fyrir ljótt orðbragð og að ég sé að vega að mannorði framámanna á hinu háæruverðuga þingi þjóðar í neyð.
Mér er slétt sama. Á ekki eftir nema í mesta lagi 10 ár á þessari jörð og get alveg eytt þeim árum í þjark um hvort ég hafi brotið velsæmislög eða ekki.
Ég er hundfúl, og dauðskammast mín fyrir að tilheyra þjóð sem er skítsama um þá sem eru að mati sumra undirmáls í forríku samfélagi sem rakar eins og illgresi auðæfunum til örfárra. Væri ég ekki svo ólánsöm að hafa greitt skatta og skyldur til þessa þjóðfélags og sparað í Lífeyrissjóð samkvæmt lögum, og eiga þannig rétt á eftirlaunum frá Íslandi, mundi ég ALDREI líta á eitt eða neitt sem tilheyrir rekstri þessa viðurstyggilega samfélags valdaklíkunnar.
Hulda Björnsdóttir