9.september 2019
Til forstjóra TR
Til Fjármálaráðherra
Til Félagsmálaráðherra
Góðan daginn
Ellilifeyrir frá TR er árið 2019 krónur 248.105 samkvæmt vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins.
Ég sé ekki hvernig fólk getur lifað af 248.105 krónum á mánuði og er sú upphæð fyrir skatt.
Mér þætti ekki óeðlilegt að fyrrnefndir ráðamenn útskýrðu fyrir mér og fleirum hver uppskriftin er varðandi líf fólks sem hefur 248.105 krónur á mánuði fyrir skatt?
Mér þætti einnig eðlilegt og ekki ósanngjarnt að þeir sem setjast á þing ættu að fá að reyna hvernig er að lifa af launum þingmanna ef launin væru skert um 45prósent á mánuði með frítekjumarki upp á 25 þúsund, eins og þeim sem hafa greiðslur frá Lífeyrissjóði upp á einungis 150 þúsund á mánuði er ætlað að gera!
Forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins gæti til dæmis komist í þennan reynsluhóp og auðvitað fagnað því að fá að vera í svipuðum sporum og þeir sem hún er í umboði fyrir, eða með öðrum orðum skjólstæðingar stofnunarinnar.
Auðvitað eiga ráherrar, þingmenn, forstjórar, bankastjórar og aðrir framámenn í þjóðfélaginu að vera á margföldum launum þeirra sem eru svo ósvífnir að gerast eftirlaunafólk. Það væri að sjálfsögðu æskilegast að fólk næði að hámarki aldri upp að 67 ára og síðan flytti það yfir móðuna miklu og nyti næstu áratuga þar.
Lífið er því miður ekki svo einfalt og uppi situr þjóðfélagið með ósvífna eftirlaunaþega sem vilja fá að borða reglulega, hafa skjól yfir höfuðið og geta farið til læknis ef þörf krefur, rétt eins og allir sem yngri eru. Svo er frekjan svo hamslaus að þetta fólk vill geta keypt lyf ef það þarf á þeim að halda.
Ég ger mér grein fyrir, eða reyni það að minnsta kosti, að erfitt getur reynst fyrir fólk sem tilheyrir sæmilega vel launuðum stéttum að setja sig í spor þeirra sem eru orðnir 67 ára og hafa hungurlúsalaun sem ómögulegt er að draga fram lífið á.
Ég geri mér líka grein fyrir að það er auðvitað einhver besta lausn sem þetta vesalings fólk hefur fundið þegar það flytur bara í burtu frá landinu og sest að í löndum þar sem hægt er að draga fram lífið á hungurlúsinn. Þessi lausn er auðvitað það sem þið sem þetta bréf er ritað til, ættuð að beita ykkur fyrir af fullum krafti. Þá er hægt að komast hjá því að borga þessu aumingja fólki, sem er svo ósvífið að verða 67 ára og hvað þá heldur meira en það, strípaðan ellilífeyri og EKKERT annað. Engar félagslegar uppbætur, enga heimilisuppbót fyrir þá sem búa einir erlendis og fleira sem fellur niður þegar flutt er erlendis.
ALLRA BESTA LAUSNIN er hins vegar að þetta fólk, 67 ára og eldra, flytji til landa sem EKKI hafa gert tvíhliða samninga við Ísland. Til dæmis gæti einhverjum dottið í hug að flytja til Ástralíu, Asíu eða jafnvel Afríku og eyða þar restinni af ævinni og íslenska ríkið þyrfti ekki að punga út einni einustu krónu í ellilífeyri.
Já, það eru til lausnir fyrir ráðamenn. Ég stend þó við það að mér finnst besta hugmynd mín vera að þingmenn og fleiri sem vinna við störf sem tilheyra velferðarmálum á Íslandi sæti skerðingum á greiddum launum, svipað og þeir sem eru 67 ára eða eldri og farnir að taka út áunnin réttindi og fá greiddan ellilífeyri.
Hulda Björnsdóttir