So, this is in Icelandic but will be in English soon. just look at this like a draft. The pictures will come later but I had to write it while the feeling was fresh.
Kæru vinir. þetta er á íslensku og engar myndir í bili, eiginlega bara uppkast. myndir koma fljótlega en þær eru núna á Facebook. Varð bara að setja þetta niður á meðan tilfinningin var fersk. Sorry!
1.september 2019
Í gær fór ég til Ansiao, mætti snemma og hafði ákveðið að skoða hvað væri fyrir handan hornið!
Ég lenti reyndar ekki alveg þar sem ég hafði upphaflega áætlað en það var allt í lagi.
Lagði ég nú bílnum og steig út vopnuð símanum og vatnsbrúsanum sem aldrei yfirgefur mig, rétt eins og tryggur elskhugi. Þegar ég var að koma mér í bílastæði rak ég augun í hrikalega flott hringtorg, skreytt á óvenujulegan hátt.
Hér í litla landinu mínu er mörg hringtorg lista vel útbúin með heimagerðri list sem gleður augað. Stundum eru það styttur af einhverjum frægum sem er farinn yfir móðuna miklu en hefur verið áberandi í bæjarlífinu og venjulega pínulítið frægur eða þannig. Oft eru það einhver tákn og ryðgaður riddari stendur eins og vargur á einum stað sem ég fer framhjá á leið heim frá Ansiao.
Semsagt, ég lagði nú upp í könnunarleiðangurinn um garðinn og út á götuna að hringtorginu, gangandi.
Tveir ungir, flottir portúgalar voru að stússa við bílinn sinn og ég heyrði annan segja: So Turista, sem merkir að þessi skrítna væri ferðamaður. Ég var nú hreint ekki á því að vera stimpluð í hugum þessara flottu ungu manna sem geggjaður túristi, ó nei. Nao so turista, sagði ég þeim og brosti breytt. Eins og venjulega þurfti bæði ég og þeir að endurtaka málið nokkrum sinnum. Það gerum við hér í landi en á endanum var það á hreinu að fyrirbærið væri ekki túristi og fékk ég stórt bros og Bom Dia. Hvað er hægt að biðja um meira á sólríkum sumardegi í litla fallega landinu mínu? Ekki mikið!
Garðurinn sem ég var að skoða er með alls konar tækjum og óþarfi að vera að borga formúu fyrir líkamsrækt þegar hægt er að fara út í garð og styrkja vöðvana. Reyndar er þessi garður beint fyrir framan elliheimili þorpsins og kannski ætlaður fyrir þá sem þar búa. Hvað veit ég svosem um skipulag landa minna, það er stundum frekar einkennilegt, eins og það að klæða nýjustu byggingar í frauðplast og loka vel og vandlega svo hvorki komist inn hiti eða kuldi og allt er eins og kassar í laginu. Afleiðing af svona klæðnaði er auðvitað að rakinn helst inni og ég get rétt ímyndað mér lyktina þegar árin líða.
Mér þykir vænt um að sjá hvað vel er búið að eldra fólki hérna og hef séð nokkur heimili bæði fyrir norðan og í miðju landinu. Ég læt stundum inn á Facebook viðburði þar sem verið er að skemmta þeim sem ekki búa lengur heima hjá fjölskyldunni og þurfa að vera á stofnun. Það er ekki leiðinlegt að sjá eldri borgarana syngja með og spila og gleðin skín út úr augunum.
Jæja, þegar ég hafði skoðað bústna trjáboli í fallega garðinum, trjáboli sem eru í fötum sem líkjast helst felubúnaði fyrir hermenn, var kominn tími til þess að skila mér á phisio stöðina. Það hagar svo yndislega til að bílastæði, nóg bílatæði, með nægu plássi á milli bílanna er rétt hjá stöðinni og þar legg ég. Ég hafði það reyndar af í gær að reyna að koma mér út úr stæðinu á vitlausum stað en alltaf er einhver fínn portúgali sem getur leitt mig á réttan veg aftur! Sjúkraþjálfarinn minn var upptekin þegar ég kom og ég auðvitað snemma á ferðinni svo nokkrar myndir tók ég af næsta nágrenni. Það er til dæmis kaffistofa beint á móti og fólk situr þar úti, bæði portúgalar og útlendingar. Ég hef skoðað þetta fólk úr fjarlægð og mikið ofboðslega hlýtur lífið að vera leiðinlegt hjá þessu blessaða fólki. Ég held ég hafi aldrei séð annað eins safn af fýldum konum og körlum. Ætli það komist ekkert fallegt fyrir í hausnum á sumum? Ég bara spyr.
Umhverfi kaffistofunnar er áhugavert. Stál súlur mynda grindverk og verður úr nokkurs konar listaverk við hliðina á forljótum rafmagnsstaur sem er einkenni landsins og slíkir skarta um allt, bókstaflega um allt. Fallegur ljósastaur er þó við hliðina á þeim forljóta og hann vakti fallegar mynningar um slíka frá miðborg London þar sem þeir hafa prýtt Sherlock myndir í áranna rás og varpað draugalegri birtu þegar kolsvart myrkrið er skollið á.
Utan á kaffistofunni, húsi sem er líklega fjölbýlishús, er stór stokkur úr áli, held ég, og liggur hann niður og endar í fögru blómabeði! Það er ekki amalegt og bætir upp allar viðbjóðslegu vélarnar sem hanga utan á húsum og blása inn baneitruðu lofti í gegnum loftræstingu sem aldrei er hreinsuð.
Ég hef mikinn áhuga á hurðum. Alls konar hurðum og hér í landi er mikið úrval af þeim. Sumar eru alveg að lognast út af og aðrar, kannski bara næstu dyr, eru glænýjar og skínandi. Mér finnst þó þessar gömlu fallegri. Svo eru það gömlu húsin sem eru löngu yfirgefin og standa eins og hnarreistir verðir sem varðveita gamla menningu innan um viðbjóðslegu kassana sem eru klæddir í frauðplast og eyðileggja allan sjarmann.
Hollensk hjón sem ég hitti fyrir nokkrum árum og höfðu ferðast um landið lýstu því sem rústum og meiri rústum alls staðar. Það er nokkuð til í því og fjölbreytileiki rústanna er ómælanlegur.
Á litlum bletti, eins og þeim sem umvefur clinikina mína er margt að sjá ef maður opnar augun og nýtur litlu hlutanna. Það er dýrabúð á móti, og nautsterkar konur bera út níðþunga poka með fæði fyrir dýrin, bæði stór og smá, allt frá hundum upp í kýr.
Svo er búð sem selur hreinlætistæki sem hönnuð eru eftir allra nýjustu tísku við hliðina á yndisfögru flísunum þar sem hægt er að lesa sögu landsins í myndum, að ég tali nú ekki um flísarnar með dýrliðngum sem vernda þá sem eru vel kaþólskir!
Litadýrð húsa hér í landinu mínu er ekki ægilega fjölbreytt en þó er eitt hús í sjónmáli frá klinku sem er í svona gulum og brúnum mildum litum. Bara fallegt og tilbreyting frá hvítu og meiru hvítu og kannski örfáum með bleikum blæ.
Á leiðinni heim, þegar ég hafði verið lóðsuð út af bílastæðinu fór ég vitlausa leið og uppgötvað eitt og annað sem ég hef ekki séð áður. Það verður efni á fleiri pistla.
Eftir meðferðina labbaði ég niður götuna þar sem kaffistofan er og fann matsölustað sem var lokaður, auðvitað, fólk er farið í sumarfrí og kemur aftur í september. Svo sá ég flottann slátrara og rak nefið inn í blómabúð þar sem afgreiðslustúlkan hafði brugðið sér yfir götuna í kaffi hjá vinkonu en kom svo yfir og var frekar vonsvikin að útlendingslega daman ætlaði bara að kíkja inn og ekkert að kaupa.
Jú, það var líka markaðsdagur en þar sem klukkan var farin að ganga eitt var allt lokað og verið að ganga frá. Þarna er staður sem ég á kannski eftir að líta á einn góðan veðurdag í vetur. Það býr fullt af útlendingum, bretatítlum auðvitað, í bænum og væri forvitnilegt að sjá hvort þeir væru að selja eitthvað þarna.
Rúsínan í pylsuendanum var auðvitað að rekast á brúðkaup þar sem gestir stóðu fyrir utan kirkjuna og biðu brúðhjónanna. Ég var voða pen og hætti mér ekkert inn á svæðið enda hafði mér ekki verið boðið og ekki ætlaði ég að gerast boðflenna með vatnsflösku eina að vopni.
Kæru lesendur,
Auðvitað á þetta að vera í bloggi með myndum og verður þannig fljótlega en núna er hægt að skoða myndirnar á Facebookinni undir Ansiao part 1 og 2 held ég að það sé. Mér fannst bara upplagt að gefa ykkur smá mynd af deginum í gær og reyndar eru þetta ekki nema fyrstu klukkutímar dagsins því ævintýrið mikla var ekki fyrr en eftir hádegi að loknum matartíma og smá dormi, en seinniparturinn var dásamlegur og endaði betur en á horfðist í bili þegar ég var algjörlega búin að tapa glórunni og vissi ekkert hvar ég var, ekkert signal hvorki fyrir símann eða gpsið og engin, nákvæmlega engin manneskja sjáanleg í mílufjarlægð.
Ég elska lífið, það er ekki spurning og ég held að lífinu þyki bara svoldið vænt um mig líka sem er ekki amalegt.
Hulda Björnsdóttir
Nenni ekki að lesa þetta yfir, sorry!