25.júlí 2019
Boa tarde segjum við hér í Portúgal þegar komið er yfir hádegi.
Ég er ekki viss um hvað ég ætti að segja á íslensku svo portúgalskan verður að duga.
Hér logar allt og skógar brenna svo tugum hektara skiptir. Þetta er sumarglaðningur okkar hér í litla landinu mínu á hverju sumri.
Þegar ég lít út um gluggann hérna hjá mér núna þá er ég hérumbil viss um að dökku skýin eru ekki reykur, ég held að þau séu rigning og það er dásamlegt ef rétt reynist.
Evrópa er að deyja úr hita en hér í þorpinu mínu eru 23 gráður, sólarlaust og dásamlegt, í bili.
Facebook skammar mig fyrir að hafa ekki skrifað neitt í marga daga og ekki get ég látið bókina blessaða vera með áhyggjur af mér, nóg er nú samt.
Í morgun fór ég í viðbjóðslega rannsókn, það er jú verið að hamast við að finna út af hverju ég er eins og liðið lík, og þó ég eti járn eins og mér sé borgað fyrir það breytist ekkert og handleggirnir ískaldir!
Mér varð hugsað til þeirra sem eru komnir á efri ár og flytja til dæmis til Spánar og kunna ekki málið. Það getur verið snúið að fara til læknis eða á spítala og tala ekki mál landsmanna.
Clinikin sem ég var á í morgun (fyrirgefið slettuna) er frábær og ég hef farið þangað oft og fólkið í afgreiðslunni þekkir mig og rannsóknarliðið einnig. Það er góð tilfinning að þurfa ekki að útskýra endalaust hver ég er og hvaðan ég kem. Miklu betra er að geta bara sest inn og beðið eftir kallinu og vera svo borin í gegnum viðbjóðslegar rannsóknir sem væri auðvitað best að vera laus við. Staðreyndin er hins vegar sú að ENGINN á þessari klinikku talar annað en portúgölsku og mér verður alltaf hugsað til þeirra sem eru á mínum aldri á Spáni og kunna ekki spænskuna. Ég veit hreinlega ekki hvernig fólk fer að. Hugmyndaflug mitt nær ekki upp í að geta ekki talað við þann sem er að hjálpa manni við að finna út hvað er að kroppnum, að ég tali nú ekki um hvað það er gott að láta hlúa að sér þegar maður er skíthræddur eins og ég var í morgun, en þá verður maður að skilja málið.
Mér datt í hug að kannski væri gott fyrir þá sem hyggja á flutninga til Spánar að fara á námskeið fyrir brottför og læra eitthvað í málinu. Bara datt þetta svona í hug.
Erindi mitt í dag var samt ekki sjúkdómar og rannsóknir, heldur barátta félaga eldri borgara um land allt og spurningin fyrir hverja er verið að berjast.
Ég sá að verið var að kvarta yfir erfiðleikum við að komast í utanlandsferðir á vegum félags eldri borgara einhvers staðar úti á landi.
Þegar ég les svona þá hvarflar að mér hvað svona ferðir kosti og hvort þær séu niðurgreiddar og hvort þær séu fyrir ALLA eldri borgara. Það eru jú margir sem lepja dauðann úr skel og eiga varla fyrir mat í sumarfríi hvað þá fyrir utanlandsferð.
Ég hef stundum æst mig yfir afrekum Landssambands eldri borgara og skilningsleysi þeirra á kjörum þeirra sem verst hafa það og ég hef argast yfir því af hverju ekki er barist af hörku fyrir þá sem eru að fara yfirum af vosbúð og vanlíðan vegna peningaskorts þegar komið er yfir 67 ára aldurinn.
Hvenær ætli Landssambandið vakni?
Getur verið að það sé svona illa að sér vegna þess að litlu samböndin skilja ekki heldur, eða vilja ekki skilja, að metnaður ætti að vera fyrir því að allir sem komnir eru yfir 67 ára aldurinn hafi það sæmilegt og allavega að þessi hópur allur geti lifað mannsæmandi lífi og átt fyrir mat alla daga mánaðarins.
Svo ætla ég að klikkja út með gleðifréttinni sem ég sá nýlega.
Formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er hættur að tala um hina minnstu bræður. Ég er semsagt hætt að vera hinn minnsti bróðir í augum formannsins! Þetta er fínt.
Samt
Ég er svo óstjórnlega vanþakklát og varð æf þegar ég sá í grein eftir hans hátign að nú er hann farinn að tala um mig sem gamla fólkið!!!!!!!!!
Ég hef ekkert á móti gömlu fólki en eitthvað skekkir það reikningskunnáttu mína þegar fólk 67 ára og aðeins eldra er komið í tölu gamla fólksins, sem mér finnst eiginlega vera fólk eins og mamma var þegar hún var orðin tæplega 90 ára.
Herra formaður Ellert B. Viltu vera svo vænn að leyfa mér að vera áfram utan við hópinn sem þú telur þig tilheyra, það er gamla fólksins sem komið er á grafarbakkann.
Ég veit svei mér ekki hvort mér finnst verra að vera stimpluð sem “gamla fólkið” eða að vera stimpluð sem “hinir minnstu bræður”.
Líklega er ég bara hrokafull og vanþakklát en gömul er ég ekki. Ég neita því algjörlega. Ég á nokkur ár í pokahorninu eins og við segjum hér í litla landinu mínu og meiri lífsreynslu á ég en þeir sem eru fimmtugir. Lífsreynsla mín núna á þessu aldurskeiði er öðruvísi og þroskaðri en þegar ég var yngri en ég held áfram að þroskast alla vega í nokkur ár enn, haldi ég heilsu.
Ellert getur, fyrir mér, sest í helgan stein með gömlu fólki, en með mér getur hann ekki fengið far, því miður!
Hulda Björnsdóttir