2.júlí 2019
Góðan daginn
Ég veit ekki hvort ég er reið, sár, öskrandi ill eða bara undrandi.
Hafið þið hugsað um hvernig jafnræðisregla er?
Er hún ekki til þess að fólki sé ekki mismunað?
Þessi ágæta regla er eitthvað í þessa áttina:
“Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”
Af hverju er ég svo að æsa mig yfir þessu?
Jú, ég er fjúkandi yfir því hvers vegna, þegar ég er orðin 67 ára, allir 100 þúsund kallar sem ég afla mér eru ekki meðhöndlaðir eins hjá TR. Af hverju eru sumir 100 þúsund kallar meira virði en aðrir? Af hverju?
Forkólfur Félags eldri borgara í Reykjavík sem nú er orðinn forkólfur Landssambands eldri borgara ásamt nokkrum stjórnmálamönnum, til dæmis formanni Flokks fólksins, hafa barist grimmt fyrir því að allir hundraðþúsund kallar séu ekki jafnir fyrir lögunum ef móttakandi er orðinn 67 ára eða eldri.
Hér koma dæmi um hvernig þeir sem segjast berjast fyrir þá sem lægri hafa tekjurnar hafa komið baráttunni fyrir, og eru harla stoltir af.
Dæmi 1:
Einstaklingur sem hefur eingöngu tekjur frá TR fær á mánuði krónur 212.902 eftir skatt.
Ellilífeyrir krónur 248.106 mínus skattur krónur 35.203 og það gerir 212.902 per mánuð. Svo fær þessi einstaklingur í orofs- og desemberuppbætur samtals 93.555 krónur fyrir skatt.
Dæmi 2:
Hér er einstaklingur sem fær 100 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði af því að hann hefur sparað lögum samkvæmt til efri áranna lögbundna prósentu af launum sínum.
Þessi einstaklingur fær frá TR krónur 214.355 fyrir skatt, (frítekjumark er 25 þúsund hér)
Svo fær hann 100 þúsund krónur frá lífeyrissjóði fyrir skatt
Frádreginn skattur samtals er 59.676 og tekjur eftir skatt krónur 254.679
Þessi einstkalingur fær 75.555 krónur í orlofs- og desemberuppbætur á ári, fyrir skatt.
Dæmi 3:
Hér kemur einstaklingur sem hefur 100 þúsund króna atvinnutekjur á mánuði, hann er orðin 67 ára þessi og nú eru 100 þúsundkallarnir allt í einu orðnir meira virði en hjá þeim sem sparaði alla starfsævi sína í Lífeyrissjóð samkvæmt lögum. Þessi staða er vegna hörku baráttu formanns LEB og fleiri sem eru sannfærðir um að best sé að troða fólki yfir 67 ára út á vinnumarkaðinn, hvað sem tautar og raular. Þetta baráttulið ber enga virðingu, virðist vera, fyrir þeim sem eru orðnir útslitnir af erfiðsvinnu alla sína ævi og vilja fá að njóta ávaxta sparnaðar, lögbundins sparnaðar, síðustu ár ævinna, rétt eins og þeim var lofað við stofnun Lífeyrissjóða!
Þessi einstaklingur fær 248.105 krónur á mánuði frá TR fyrir skatt (frítekjumark hér er 100 þúsund, engar skerðingar af þessum 100 þúsund kalli)
Svo fær hann 100 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði, fyrir skatt
Eftir skatt eru tekjur þessa einstaklings krónur 275.962 á mánuði
Í orlofs- og desemberuppbætur fær þessi einstaklingur krónur 93.555 á ári, fyrir skatt (engar skerðingar hér)
Dæmi 4:
Hér er loks einstaklingur sem hefur haft efni á að leggja fyrir á séreignasjóð til efri áranna. Þetta er að öllum líkindum ekki verkakonan eða verkamaðurinn. Þetta er frjáls sparnaður og getur hver og einn valið að taka þátt eða ekki.
Þessi einstaklingur fer nú að taka út úr séreignasjóðinum sínum og tekur 100 þúsund krónur á mánuði, rétt eins og sá sem hefur sparað samkvæmt lögbundnum sparnaði ákveðna prósentu af launum sínum en hafði ekki val!
Þessi einstaklingur fær 248.105 þúsund krónur á mánuði frá TR fyrir skatt ( engar skerðingar hérna)
Hann fær 100 þúsund krónur úr séreignasjóði fyrir skatt
Eftir skatt hefur þessi einstaklingur 275,962 þúsund krónur á mánuði eftir skatt, nákvæmlega sömu upphæð og sá sem fær 100 þúsund kallinn fyrir atvinnu, en 21.283 þúsund krónum meira en sá sem fær út úr venjulegum lífeyrissjóði.
Í orlofs- og desemberuppbætur fær þessi einstaklingur 93.555 krónur á ári fyrir skatt ( og enn og aftur engar skerðingar).
Hundraðþúsund kallinn er líklega ekki stór upphæð í augum sumra og tekur því ekki að vera að rífa sig út af smámunum, það finnst líklega formanni LEB og fleirum.
Ég verð þó að segja að mig svíður sárt að minn hundraðþúsund kall skuli vera minna virði en þeirra sem annað hvort eru úti á vinnumarkaði eða eru að taka út séreignasparnað.
Mér finnst einfaldlega að allir hundraðþúsund kallar fólks sem er orðið 67 ára eða eldra, og er farið að taka eftirlaun frá TR, eigi að haf jafnt vægi.
Ég er svo einföld að ég held að mjólkin og maturinn kosti jafn mikið fyrir þann sem er orðin 67 ára hvort sem hann hefur hundraðþúsund kallinn sinn frá atvinnutekjum eða sparnaði í lögbundinn lífeyrissjóð.
Ég er öskuill yfir því að við sitjum ekki við sama borð. Ég verð fjúkandi þegar stjórnmálamenn hæla sér af dúsum á sama tíma og þeir berjast með kjafti og klóm fyrir þá sem eiga val. Það er einfaldlega þannig að ekki geta allir unnið úti eftir 67 ára aldurinn. Margir eiga ekkert val en það er ekki nógu fínt fyrir formann LEB og fleiri að berjast fyrir sama verðmæti ALLRA hundrað þúsund kalla þeirra sem eru 67 ára eða eldri.
Mikil er skömm ykkar sem teljið fólki trú um að hagur ALLRA eldri borgara brenni eins og logandi eldar í brjósti ykkar. Ég skil ekki hvernig þið getið farið að sofa á kvöldin, ég bara skil það ekki.
Hulda Björnsdóttir