Hver berst fyrir fátæka eldri borgara?

1.maí 2019

Góðan daginn og gleðilegan frídag.

Nýr mánuður heilsar og ég sá að einhver ætlar að tala fyrir hönd eldri borgara á Húsavík.

Ég var kvíðin og beið eftir því að sjá hvort hinn hugvekjuglaði yrði ræðumaðurinn, en svo er víst ekki og ég get hætt að hafa áhyggjur af því máli.

Nú í byrjun nýs mánaðar og eiginlega í upphafi sumars koma ýmsar hugsanir upp úr hugarfylgsninu mínu.

Mér verður hugsað til fátæka fólksins á Íslandi, fátæka verkafólksins sem á ekki fyrir mat alla daga mánaðarins.

Mér verður líka hugsað til öryrkjanna. Þar í hópi eru líklega þeir sem allra minnst eiga og sjá ekki fram á bjartari tíð eða blóm í haga, allavega ekki á meðan stjórnarhættir á einu ríkasta landi veraldar eru eins og þeir eru í dag og mokað undir hina betur stæðu á meðan hinir geta etið það sem úti frýs.

Þegar sumarið kemur fer fólk í ferðalög og nýtur útivistar og ævintýra með fjölskyldu eða vinum. Þetta þyrkir sjálfsagður hlutur og allt fullt á netmiðlum, bæði af tilboðum, og ekki síður frásögnum af hinu dásamlega fríi eða ævintýri.

Það er stór hópur fólks, fólks sem ekki lætur í sér heyra, sem fer aldrei í frí út fyrir heimaslóð. Það er líka stór hópur fólks sem aldrei fer í frí, svona yfirleitt, því það þarf að hafa fyrir brýnustu lífsnauðsynjum og frí er ekki þar á blaði.

Við hugsum ekki til þessara hópa, svona dags daglega, og sumir, t.d. frú forsætis og fleiri slíkir, hugsa aldrei um þetta fólk, nema þegar snuða þarf út úr þessu fólki atkvæði svo hægt sé að halda áfram að hlaða undir hina breiðu rassa.

Öryrkjafjandsamlegur ráðherra situr nú við völd. Eldri borgara vinur sem var árið 2013 í fögru bréfi boðberi betri tíðar situr nú á fjármálum ríkisins og passar upp á að fólk sem er svo ósvífið að vera orðið 67 ára eða meira, og tileheyrir ekki betri stétt þjófélagsins, sé ekki að lifa í vellystingum og alls ekki að hafa tækifæri til þess að fara í frí frá eymd og volæði. Í forsætisráðuneyti situr ráðherra sem brosir breytt og því breiðara sem brosið er því meiri er lygin og nú er frúin komin á þá skoðun að það sé eiginlega bara best að vera ekkert að svara þingmanni sem er að urra um málefni öryrkja úr ræðustól alþingis.

Það sem er svo ótrúlegt við þetta allt saman er að flokkur sem skartar karl- og kvenrembum af verstu gerð nýtur ómælds fylgis kjósenda. Forysta þessa flokks leggur í einelti öryrkja sem var svo ósvífinn að fletta ofan af sóðakjafti forystunnar, sóðakjafti sem undanvillingar frá öðrum flokki tóku fullan þátt í og færðu sig úr öryrkjaflokki yfir í peningaelítuna sem er ekki við völd í bili en gæti hæglega orðið í næstu ríkisstjórn. Þetta er allt saman lyginni líkast og ég sem er þó með auðugt hugmyndaflug gæti ekki látið mér detta í hug það sem þessu úrvals liði á Alþingi Íslendinga hugkvæmist. Að hugsa sér að þetta lið skuli vera við stjórnvölinn, jafnvel þó í stjórnarandstöðu séu í bili, og dundi sér við, á milli staupanna, að setja lög og reglur fyrir landið. Nei, þetta gæti auðvitað ekki gerst nema á Íslandi.

Nú þegar sumar gengur í garð vona ég að forysta eldri borgara sjái að sér og hætti að tala um að eldri borgarar geti notað öpp til þess að mæla ofan í sig lyfin og fleira slíkt.

Öpp eru ágæt fyrir frú formann LEB en þau eru ekki fyrir venjulega eldri borgara sem margir hverjir þurfa aðstoð við daglegt stúss.

Frú Formaður LEB sat á aðalfundi LEB og horfði með aðdáun á frú forsætis sem talaði um hve dásamlegt það væri að eldri borgarar hefðu það yfir höfuð svo dásamlegt.

Það verður fróðlegt að heyra ræðu þess fulltrúa Gráa hersins sem stendur á stalli á Húsavík í dag.

Fyrir hverja verður talað?

Verður það fyrir fátæka fólkið eða hina?

Ég hef ekki mikla trú en ætla að bíða og sjá hvað gerist.

Það er gefinn út netsnepill sem heitir því ágæta nafni “LIFÐU NÚNA”

Þessi snepill er fínn fyrir elítuna og hún lifir núna. Við hin getum eiginlega hvorki skrimmt eða drepist, en það skitpir ekki máli fyrir forystu landssamtaka eldri borgara.

Að lokum þetta:

Embætti í FEB og LEB virðast ganga í erfðir. Formaður FEB verður formðaur LEB. Stjórnarmaður í FEB og snepilsristjóri verður stjórnarmaður í LEB.

Er ekki eitthvað einkennilegt við þetta fámenni í hópi “baráttufólks” fyrir eldri borgara?

Er það mögulegt að erfitt sé að komast í forystusveit LEB ef fólk er raunverulegt og hefur raunverulegan áhuga á að bæta kjör þeirra sem hafa það svo skítt að þeir komast ekki í sumarfrí, hvorki sumar eða vetur?

Þarf kannski að stofna almennilega baráttusveit fyrir eldri borgara? Getur þetta verið raunin árið 2019?

Hulda Björnsdóttir

 

 

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: