24.apríl 2019
Góðan daginn
Nú er mikið rætt um nýgerða kjarasamninga og fólk reitt yfir því að fyrirtæki hafi lýst því yfir að vörurverð muni hækka, verði samningarnir samþykktir.
Einmitt.
Ef laun hækka samkvæmt kjarasamningum, þá greiða fyrirtæki hærri laun og ég spyr: Hvar eiga fyrirtækin að taka peninga fyrir kauphækkuninni?
Ég geri mér grein fyrir því að ekki eru svona spurningar vinsælar en finnst þó að þær eigi fullan rétt á sér.
Það hefur löngum verið svo að þegar laun hækka er þeim hækknum hleypt út í verðlagið.
Nú birtast fréttir af því að frú forsætis sé á meðal 19 hæst launuðu ráðherra, ekki bara á Íslandi, heldur í veröldinni!
Hvaðan eru peningar fyrir launum frú Forsætis teknir? Hver greiðir þessi laun?
Getur það verið að ekki sé hægt að hækka laun eldri borgara og öryrkja vegna hinna ofboðslega háu launa þingmanna, ráðherra, ríkisforstjóra, bankastjóra og fleiri slíkra?
Nei, það getur ekki verið.
Ég sá að ráðherra einn ágætur heldur því fram að það kosti svo mikið að afnema skerðingar að allt færi á hvolf ef það yrði gert.
Ég er að verða dálítið þreytt á þessum töluleik, sem komin eru út í hina örgustu töluleikfimi, hjá ráðherrum. Þeir eru inni í kössunum sínum eins og venjulega og hafa ekki græna glóru um hvernig lífið hjá venjulegu fólki virkar.
Mér verður óglatt í hvert sinn sem ég sé smeðjulegt bros frú forsætis, ég get ekki að því gert. Hún lepur ekki dauðann úr skel og að bjóða henni á landsfund eldri borgara er að mínu mati ófyrirgefanlegt eins og svo margt sem frú formaður þeirra samtaka hefur framkvæmt.
Frú forsætis heldur því fram að eldri borgarar hafi það gott og það sé voða dásamlegt. Auðvitað segir maður ekki voða dásamlegt á góðri íslensku en þetta passar bara svo dásamlega við smeðjuna.
Það eru vissulega eldri borgarar sem hafa það fínt. Sem betur fer leyfi ég mér að segja. Til dæmis má taka fyrrverandi ráðherra Davíð Oddsson sem sá til þess að gífurlegar greiðslur mundu falla honum í skaut þegar hann yrði eldri borgari!
Rök núverandi ráðherra sem tuggar endalaust hvað það kosti mikið að afnema skerðingar vil ég segja þetta:
Herra ráðherra, þú gleymir að taka skattpeninga sem mundu renna til ríkisins ásamt auknum tekjum af virðisaukaskatti því þegar fólk hefur fleiri krónur úr að spila verslar það meira, kaupir í matinn alla daga mánaðarins ásamt ef til vill fleiru sem það getur ekki í núverandi ástandi.
Herra ráðherra, það er líka staðreynd að geðrænum vandamálum og öðrum sjúkdómum fækkar þegar fólk sér fram á að eiga fyrir brýnustu nauðsynjum, alltaf. Við það lækkar heilbrigðiskostnaður, bara svona rétt til að upplýsa þig herra ráðherra, og alla hina herrana á hinu háa Alþingi, ef þeim væri þetta ekki ljóst, sem ég reyndar stórefa að skilningur sé á bak við ansi margt sem framkvæmt er á hinu háttvirta!
Nú er tillaga mín til herra ráðherra, sem heldur fram hrikalegum afleiðingum afnáms skerðinga, að hann fái sér aðstoð. Aðstoð sem gæti reiknað út hvað kemur til baka af tölunni sem ráðherrann rígheldur í. Það er einfaldlega þannig herra ráðherra og aðrir sem stjórna þessu ágæta landi, einu ríkasta landi heimsins, sem greiðir forsætisráðherra ein hæstu laun í veröldinni, að ekki fæst matur á diskinn eða húsaskjól fyrir spjallhópa sem skoða mál sem liggja beint við ef augu eru opin. Frú forsætis getur brosað breitt og haldið því fram að eftirlaunafólk hafi það fínt. Við sem erum komin í þennann aldursflokk og tilheyrum venjulegum Íslendingum vitum betur. Við vitum að við höfum það ekki gott. Við vitum að við eru rænd sparnaði okkar í hverjum einasta mánuði og við erum reið.
Ég er reið og sár yfir því að sparnaður sem ég hélt að mundi sjá mér fyrir helstu nauðsynjum á síðasta spretti ævinnar skuli nú vera hirtur vegna aðgerða stjórnvalda sem sjá ekki út fyrir rassinn á sjálfum sér.
Ég er eiginlega alveg ofsalega reið.
Ég er líka hálf hissa á því að fólk skuli ekki gera sér grein fyrir því að einhvers staðar þurfi fyrirtæki að taka peninga fyrir hækkun launa og hjá allflestum fyrirtækja fást peningarnir með sölu vörunnar eða framleiðslunnar og hækki kostnaðurinn verður að hækka eitthvað!
Hulda Björnsdóttir