Svik og prettir – er það málið?

  1. apríl 2019

Góðan daginn

Það er rigning og kuldi hér í Penela í dag en undanfarið hefur verið vorveður svo einhver viðbrigði eru þetta. Samt var gott að fá svolítinn hita í kroppinn þó ekki færu hitastigin yfir 20 stig. Það er miklu kaldara hér en á Spáni, bara svona til þess að upplýsa fólkið um sæluna sem sumir eru að bjóða upp á, að ég tali nú ekki um hina dásamlegu skattaparadís sem á að vera hér I landinu mínu.

Ég skil reyndar ekki móralinn á bak við skattamálin. Fólk hneykslast á BB og Simma og fleirum fyrir að stela undan skatti með því að fela peningana í paradísum þar sem enginn borgar neitt, á sama tíma og þetta sama hneykslunarfólk gengur bísperrt um götur Spánar til dæmis og hælir sér af því að borga ekki skatta og að enginn viti um búsetu þeirra í sælulandinu og þess vegna fái þetta ágæta fólk full laun frá TR eins og búið sé á Íslandi. Auðvitað má ekki tala um þetta, ég veit það, og líklega rísa einhverjir upp og skammast í mér. Þetta er hins vegar blákaldur sannleikur en ég skef ekki utan af því að margir eru strangheiðarlegir og búa á Spáni hluta úr árinu eða hafa flutt heimilisfang sitt til landsins og fara að öllum reglum.

Auðvitað flýr fólk fátækt á Íslandi þegar það er komið á eftirlaunaaldur og þjófnaður ríksins tekur við og stelur sparnaðinum. Annað væri hrein heimska.

Í grúppum eru oft ótrúlegir spekingar og vitringar sem vita allt. Einn sagði um daginn að ekkert eftirlit væir hér í Portúgal með þeim sem hingað flytja, og því væri ágætt að fela heimilisfesti sitt. Svo birtist líka skattaskylda hér í landinu, sem hafði verið tekin af netinu. Allt er þetta gott og blessað og ekki ætla ég að blanda mér í svona umræður. Fólk rekur sig bara á þegar það flytur í sæluna, eða þannig.

Að búa í útlöndum, t.d. á Spáni og lýsa því yfir eftir eins árs búsetu að nú sé komið að því að flytja heimilisfesti er skondið í mínum huga og ég velti fyrir mér hvort þjóðskrá sé hætt að lesa blöðin eða fylgjast með Facebook eins og gert var fyrir nokkrum árum. Kannski er ekki sama Jón og séra Jón hjá stofnunni. Hvað veit ég svo sem og auðvitað kemur mér ekkert við hvort fólk er að gefa út bækur og selja málverk í limbói.

Hérna í landinu mínu eru verkföll í dag. Byrjuðu á mánudaginn. Þetta snýst um bílstjóra á stóru bílunum, t.d. þá sem flytja bensínið. Stjórnvöld hafa ekki viljað tala við fólkið og nú var tekið til bragðs að stoppa allan flutning á eldsneyti. Flug raskast, langar raðir mynduðust við sölustaði eldsneytis á fólksbíla og í dag er ekki til eldsneyti fyrir fólk sem ekki byrgði sig upp í gær. Í þinginu eru heitar umræður um málið og sakar stjórnarandstaðan stjórnina og heimtar aðgerðir STRAX. Þetta er bagalegt fyrir fólk eins og mig til dæmis sem hefur ekki haft dug í sér að vera í röð bensínkaupanda svo klukkustundum skipti í gær. Reyndar kláraðist díselinn fyrst svo líklega hefði ég ekki fengið neitt, jafnvel þó ég hefði plantað mér aftast í langa röð.

Hér að ofan sjást tvær myndir frá þinginu í Portugal í morgun. Verið er að ræða um verkfall bílstjóra og konan í stjórnarandstöðu en á hinni myndinni er forsætisráðherrann og verkfallsmenn á litlu myndinni til hliðar við forsætisráðherrann. Þetta voru heitar umræður og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr öllu saman og hvað verkfallið stendur lengi.

Mér datt í hug ofstopinn sem gaus upp á Íslandi þegar Efling boðaði til verkfalla og var eins og heimsendir legðist yfir.

Flugfélag fór á hausinn og skyndilega var samið um eitthvað og loforð ríkisstjórnar sem yfirleitt hefur svikið það sem hún hefur lofað, og þar fremstur í flokki BB sem skrifaði hjartnæmt bréf til eldri borgara fyrir nokkrum árum sem var fallega orðaður kosningaráróður, en nýju foringjarnir trúðu loforðum BB og skrifðuðu undir samninga án þess að hafa dagsetningar á loforðum stjórnvalda!

Ég sagði fyrr að þetta hefðu verið vondir samningar og ég stend við það.

Ég geri ráð fyrir að forystan kynni plaggið sem gott.

Núna, eftir að skrifað hefur verið undir samninga, er allt í einu farið að tala um eldri borgara og öryrkja.

Fyrir samningagerðina var talað um að ekki yrði skrifað undir samninga nema þessir hópar fengju bætt óréttlætið!

Einmitt!

Það vaknaði von þegar ég sá nýju forystuna fyrir vekalýðnum og las yfirlýsingar þeirra og ég var bara nokkuð bjartsýn.

Vonin hefur horfið fyrir hornið, rétt eins og sólin sem felur sig á bak við skýin núna í litla landinu mínu, Portúgal, og hellir yfir okkur regni og kulda.

Það er ekki þar með sagt að ég segi að nýja forystan sé vont fólk. Aldeilis ekki. Ég held að þau hafi hins vegar verið svo bláeyg og líklega hafa þau ekki roð í gaura eins og BB og KJ. Bros frúarinnar hefur blindað Sólveigu og Ragnar, held ég. Mér finnst trúlegt að þau haldi að ríkisstjórnir séu fyrir fólkið og nú eru þau líklega að vakna upp við vondan draum sem er að snúast upp í martröð

Ástþór, þessi elskulegi viðskiptajöfur, ætlar nú að stofna nýtt flugfélag sem kæmi í stað WOW sem fór á hausinn.

Ég veit ekki hvort ég á að gráta eða hlæja að þessu öllu saman og held að ég láti hvort tveggja vera.

Spekingar á Facebook sem vita allt, eru góðir upplýsingamiðlarar.

Snillingar eins og fyrrverandi forsetaframbjóðandi eru auðvitað algjörar gersemar sem ekki verða metnar til fjár.

Bókaskrifarar og málarar sem komast upp með að búa 365 daga ársins í útlöndum og halda íslensku heimilisfesti eru auðvitað mestu snillingarnir í öllu dæminu.

Ég þarf að komast upp á spítala á morgun og á dísel til þess. Eftir það er ég kyrrsett þar til ríkisstjórn litla landsins míns, Portúgals, grípur inn í verkfallið. Sniðugt hjá bílstjórnunm að fara í verkfallið núna þegar allir eru á ferð og flugi og margir frídagar á næsta leiti.

Guð blessi spillinguna á Íslandi og gott verður að sjá hið nýja flugfélag forsetaframbjóðandans fyrrverandi og kannski kemur annað í kjölfarið sem Skúli Wow stofnar.

Það er ekki hægt að búa til lygasögu um þetta allt, staðreyndirnar eru svo lygilegar að hugmyndaflug getur ekki verið auðugra en þær.

Með kærri kveðju og súkkulaði áts veislu fyrir alla á landi hinna auðugu sem fyrirlítur þá sem ekki eiga fyrir mat þessa páska.

Bara rétt í lokinn, Landssamband eldri borgara er greinilega gengið Sjálfstæðisflokknum á hönd. Það sést á hinu frábæra blaði sem gefið var út fyrir landsfundinn hjá sambandinu. Já, frú Þórunn H. lætur ekki að sér hæða. Hún stendur með sínum, sem eru auðvitað ekki eldri borgarar, eða þannig.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: