5. febrúar 2019
Góðan dag
Ég er argandi ill í morgunsárið og ætla að leyfa mér að láta hugsanir mínar flakka.
Á meðan forysta félaga eldri borgara sýna ekki baráttuvilja fyrir hönd þeirra sem minna hafa er ekki von á góðu. Frítekjumark vegna atvinnutekna og hálfur hálfur lífeyrir fóru í gegn eins og ekkert væri. Hvers vegna? jú, forysta FEB og LEB barðist fyrir þessu með kjafti og klóm. Það er einfaldlega þannig að hlustað er á þessa forystu. Síðan er eytt milljónum í áróður fyrir gáu hári og fyrir því standa FEB og LEB. Væri ekki nær að reka áróður fyrir því að allir hefðu mat og húsaskjól? Nei, það þjónar ekki eiginhagsmunapoti þeirra sem að auglýsingunum stóðu. Það er ágætt að láta draum einhvers um grátt hár rætast en ég er hundfúl og reið yfir því að þeir sem eiga að vera í baráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara séu í fararbroddi í svona herferð.
Formaður LEB sat í starfshópi sem átti að skoða stöðu eldri borgara, staða sem hefur verið marg skoðuð og ekkert nýtt þar. Í kökusamkomunni var niðurstaðan sú að ekkert þyrfti að gera fyrir Íslendinga en útlendingar þyrftu að fá aðstoð strax.
Svo hlustar maður á hlæjandi Þórunni H, formann LEB, í þætti þar sem rætt er af miklum eldmóð um dásemd þess að verða gráhærður fyrir allar aldir og draumur eins viðmælanda rættist með þáttagerðinni.
Virðing fyrir gráu hári hefur EKKERT með eldri borgara að gera.
Á meðan foringi eldri borgara dásamar að hafa verið orðin gráhærð ung svarar hún ekki bréfum frá hópi sem er búin að fá vilyrði fyrir fjárframlögum til málssóknar á hendur ríkinu vegna upptöku sparnaðar í Lífeyrissjóði.
Hvað er eiginlega að frú formanni Þórunni H. og Ellert?
Hvað öfl ráða gerðum þeirra?
Hverra hagsmuna gæta þau?
ARRRRRRRRGGGGG
Hulda Björnsdóttir