24.janúar 2019
Ég sagði fyrir nokkrum dögum að ég ætlaði að skrifa um öryrkja. Það hefur dregist vegna ýmissa orsaka, meðal annars hef ég verið að viða að mér tölulegum upplýsingum í raunheimum, ekki bara af reiknivél TR.
Það verða nokkri pistlar á næstunni um þessi mál en sem betur fer eiga öryrkjar hauk í horni þar sem eru Píratar. Þeir berjast eins og ljón á Alþingi og Halldóra er formaður velferðarnefndar og lætur ekki vaða yfir sig á skítugum skónum.
Auðvitað er erfitt að fá mál í gegn þegar flokkur er í stjórnarandstöðu en hins vegar er framlagning mála mjög mikilvæg og eru þau þá tilbúin þegar farið í stjórnarsamstarf. Þetta gera margir flokkar sér ekki að venju, þ.e. að flytja frumvörp þó þeir séu í andstöðu. Það er einfaldlega þannig að verk tala hærra en orð eins og ég hef sagt hundrað þúsund sinnum ef ekki oftar.
Hvernig komið er fram við öryrkja er til svo mikillar skammar að ríkisstjórnin öll ætti að ganga með hauspoka alla daga.
Starfsgetumat sem látið er halda öryrkjum í gíslingu er augljósasta dæmið um skammarlega framkomu BB og Katrínar ásamt Framsóknarskrímslinu.
Með framkomu sinni eru stjórnvöld ekki aðeins að halda öryrkjum í gíslingu, þau eru einnig að sjá til þess að ómögulegt er fyrir þá öryrkja sem hugsanlega gætu komið sér aftur út í þjóðfélagið, vegna krónu á móti krónu skerðingarinnar.
Hvaða heilvita manni dettur í hug, og hvað þá stjórnarherrum öðrum en hálfvitlausum stóreignafíflum, að öryrki sem gjarnan vildi stíga út í þjóðfélagið aftur hægt og rólega geri það með þá vissu fyrir augum að hann muni ekkert, já ég segi EKKERT bera úr býtum fjárhagslega því allt sem hann mundi vinna sér inn í vinnu væri rifið af honum jafnóðum með skerðingum krónu á móti krónu.
Þetta er svívirða sem mig langar til að bölva í sand og ösku en ætla að reyna að stilla mig í bili.
Stjórnvöld eru svo nautheimsk að þau skilja ekki að geti öryrki þokað sér út í samfélagið aftur kemur það til með að spara samfélaginu beinharða peninga.
Öryrkinn verður ánægðari og sjálfstraust hans eykst. Hann gengur uppréttur og líður betur. Hann þarf minni læknishjálp og enn minni lyf. Hann verður eitthvað í stað þess að vera ekki neitt. Þeir sem vita vilja sjá að fólk sem getur bjargað sér og lifað með sæmilegri reisn er mun hraustara en þeir sem sveltir eru og sjá ekkert nema svartnætti framundan.
Stjórnvöld eru svo nautheimsk að þau þurfa alltaf að finna upp hjólið. Starfsgetumat hefur gefist illa í öðrum löndum. Hvers vegna þurfa íslendingar endalaust að taka upp það sem illa hefur gefist annars staðar?
Hvaða bull er það að nýta sér ekki reynslu annarra þjóða og læra af þeirri reynslu í stað þess að reka sig á sama vegg og aðrir hafa fyrir löngu klifið?
Jú þetta er allt saman svo fínt og flott á Íslandi, eða það halda stjórnarherrarnir sem nú sitja að kjötkötlunum og maka krókinn. BB og Katrín ásamt Maddömunni eru heillum horfin. Þeim er alveg sama um öryrkja og þau vita að enginn, já enginn sem þeim tilheyrir muni nokkurn tíman verða öryrki. Slysin fara nefninlega í manngreinarálit, eða svoleiðis, ef þið hafið ekki fattað það, sauðsvartur almúginn.
Nú er ég að verða svo reið að best að láta staðar numið í bili. Ég er enn að skoða tölur og kem með dæmi fljótlega, raunveruleg dæmi.
Á meðan skulum við gera okkur grein fyrir því að krónu á móti krónu skerðing er svívirðileg valdnýðsla og ekkert annað.
Sorgin vaknar þegar ég hugsa til þess að sama sukkið verði kosið áfram jafnvel þó farið væri í kosningar í vor.
Hulda Björnsdóttir