Samanburður á hvernig skerðingar virka hjá eldri borgurum

18.janúar 2019

Góðan daginn

Hér kemur samanburður á 100 þúsund krónu tekjum á mánuði, í öðru tilfellinu er um atvinnutekjur að ræða og hinu tilfellinu er um greiðslur frá Lífeyrissjóði að ræða.

 

  1. 100 þúsund krónur í atvinnutekjur á mánuði Greiðslur frá TR: Ellilífeyrir krónur 248.105 (engin skerðing)
  2. Samtals tekjur á mánuði eftir skatt (frá TR + 100 þúsund króna atvinnutekjur) 275.962
  3. Orlofs- og desemberuppbætur krónur 93.555
  4. 100 þúsund krónur í tekjur frá Lífeyrissjóði á mánuði  Greiðslur frá TR. Ellilífeyrir krónur 214.355
  5. Samtals tekjur á mánuði eftir skatt (frá TR + 100 þúsund frá Lífeyrisjsóði) 254.679
  6. Orlofs- og desemberuppbætur krónur 75.555

Sá sem hefur sparað í Lífeyrissjóð fær 21.283 krónum MINNA en sá sem er með atvinnutekjur.

Mismunur á orlofs og desemberuppbót er krónur 18.000, þeim sem fær tekjur sínar úr Lífeyrissjóði í óhag.

Hvers vegna er þetta svona?

Jú, eftir mikla baráttu Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis tókst þeim að fá ATVINNUTEKJUR minna skertar en tekjur frá Lífeyrissjóðum. Þórunn H, núverandi formaður LEB barðist fyrir þessu með kjafti og klóm og náði árangri. 25 þúsund króna frítekjumark fyrir tekjur frá Lífeyrissjóði en 100 þúsund króna frítekjumark vegna atvinnutekna.

Einstaklingur sem hefur krónur 153.751 á mánuði frá Lífeyrissjóði fær eftir skatt í tekjur frá TR + Lífeyrissjóði krónur 273.321

Hann hefur minna í tekjur á mánuði en sá sem fær einungis 100 þúsund frá Lífeyrissjóði og munar þar 2.641 krónu.

Svona virka skerðingarnar hjá Eldri borgurum.

Spurningin sem á fullan rétt á sér er hvort það borgi sig yfirleitt að vera að leggja fyrir í Lífeyrissjóð?

Lög gera ráð fyrir því að fólk spari í Lífeyrissjóði og margir gera það og borga skatta og skyldur til þjóðfélagsins eins og vera ber.

Það er mikið skrifað um kjör þeirra sem verst hafa það og eiga engan sparnað í Lífeyrissjóði. Það er hárrétt að kjör þess hóps eru fyrir neðan allar hellur og ríkisstjórn og Alþingi til háborinnar skammar. Að hafa hugmyndaflug til þess að láta dæmi ganga upp með 212.902 krónur á mánuði til framfærslu er auðvitað alveg gaga, en það eru tekjur þess sem hefur ekkert annað en ellilífeyri frá TR.

Það er hægt að fá einhverjar uppbætur sem eru félagslegir styrkir en í einu ríkasta landi heimsins ætti ekki að þurfa að leita eftir félagslegri aðstoð þegar fólk er komið á efri ár og búið að skila sínu til þjóðfélagsins, sem svo yngri kynslóðin nýtur góðs af.

Yngra fólkið þarf að gera sér grein fyrir því að velsæld, ef þau búa við slíka, varð ekki til bara með því að anda. Hún varð til með striti og harðir vinnu eldri kynslóðar sem nú er komin á eftirlaun. Það eru, sem betur fer, ekki allir eldri borgarar sem lepja dauðann úr skel en eins og ég sýni í dæmum hér á undan þá er ekki langt í dauðann hjá fleiri en við höldum.

Þeir eldri borgarar sem búa við súper fín eftirlaun eru ekki að kvarta. Þeir þegja þunnu hljóði og passa sig að blanda sér ALDREI í umræðu eins og þessa. Líklega býr einn þriðji eldri borgara við slæm eða mjög slæm kjör. Einn þriðji gæti verið sæmilega staddur og síðasti þriðji parturinn í góðum málum fjárhagslega.

Ég var kölluð “saddur sjálfselskupúki” í commenti við skrif Björgvins Guðmundssonar vegna spurningar minnar um “hvað með millihópinn”.

Spurning mín var: “En Björgvin hvað með millihópinn sem er t.d. með minna en 200 þúsund úr lífeyrissjóði? Á sá hópur að eta það sem úti frýs?”

Fyrra commentið frá lesanda Björgvins var: “alltaf skulu saddir sjálfselskupúkar troða sér inn í umræðuna um þá verst settu. Sé ekki betur en að þetta inlegg fjalli einungis um þá”

Annar höfðingi setti þetta inn: “Gott hjá þér Björgvin þar er alltaf til fólk, sem sér öfundaraugum yfir því að ellilífeyrisþegar verði hífaðir upp úr örbrigðinni”

Björgvin hefur ekki gert athugasemd við comment herranna!

Mér finnst vont að til skuli fólk sem er svo forpokað að það þekkir ekki mun sporði og hala. Þessir tveir eru hrokafullir kallar sýnist mér, sem lýsa sjálfum sér betur en mér. Auðvitað er það viss heiður að vera kölluð “SADDUR SJÁLFSELSKUPÚKI” ég verð að viðurkenna það. Athugasemdir mína hafa greinilega komið við kauninn á commenturunum og er það vel.

Staðreyndin er hins vegar sú að eftirlaunaþegi sem hefur 275 þúsund krónur rúmar á mánuði er ekki saddur sjálfselskupúki. Þessi eftirlaunaþegi er langt undir velferðarviðmiðum og þarf ekkert að rífast um það. Það er líka staðreynd að sá hinn sami hefur lagt fyrir til efri ára allan sinn starfsferil og bjóst líklega við því að hann væri að búa sér sæmilegt ævikvöld. Tryggingastofnun, með fulltingi ríkisstjórnar og Alþingis, notar sparnað þessa einstaklings til þess að greiða niður það sem viðkomandi ætti að fá greitt úr Almannatryggingakerfinu þar sem hann hefur borgað skatta og skyldur til þjóðfélagsins í 40 ár eða meira.

Þegar sparnaðurinn er tekinn til baka eins og nú er gert kemur í ljós að efri árin bjóða upp á sult og seyru og ekkert annað fyrir þá sem hafa verið í lægra launuðum hópum þjóðfélagsins og jafnvel fyrir þá sem hafa verið með miðlungslaun á starfsævinni.

Eldri borgarar flytja nú í stórum stíl til Spánar og geta þar lifað sæmilegu lífi. Líklega vildu flestir þeirra geta búið á Íslandi og verið með fjölskyldum sínum og vinum, þennan síðasta sprett vistarinnar hér á jörðinni. Það er ekki í boði stjórnvalda að lifa með reisn, ekki fyrir alla. Sumir geta það, en stór hópur ekki.

Eins og skrifað er um næstum daglega og stundum oft á dag, þarf að hækka lægsta lífeyrinn. Það er ekki spurning. Ég mótmæli því hins vegar að ekki megi tala um þá sem eru nokkrum krónum ofar. Það þarf að tala um millihópinn. Hann má ekki gleymast. Í dæmum mínum hér í byrjun ætti hver einasti maður að sjá að það er mikil skömm sem ríkisstjórnir undanfarinna ára mega eiga. Fyrir nýju Almannatryggingalögin var frítekjumarkið rúmar 109 þúsund á mánuði. Nú, eftir nýju lögin er frítekjumarkið fyrir stærstan hópinn 25 þúsund en potað var inn 100 þúsund króna frítekjumarki fyrir þá sem endilega vilja, eða geta, unnið fram í rauðann dauðann. Það fólk er ekki erfiðisvinnufólkið.

Það er með ólíkindum hvernig tekst aftur og aftur að hyggla þeim betur stæðu og skilja hina eftir við hungurmörk. Þórunn H. er nýbúin að skila af sér kaffinefndinni og hver er árangurinn? Það getur hver og einn séð fyrir sig. Ég nenni ekki að rekja afrek kökuhópsins sem frúin sat í og var skipaður til þess að taka út kjör eldri borgara. Ég verð svo reið þegar ég hugsa um afrek frúarinnar og ætla ekki að leggja það á mig, heilsulausa manneskjuna, en “SADDUR SJÁLFSELSKUPÚKI” get ég alveg verið ef mönnum finnst það við hæfi.

Hulda Björnsdóttir

ps:

hér er ég að skrifa um eldri borgara. Ég veit að þið virðið þá skoðun mina að ekki sé æskilegt að blanda saman skrifum um öryrkja og eldri borgara. Ég mun skrifa annann pistil þar sem ég fjalla um öryrkja, því þar er dæmið svo hrikalegt að mér verður illt að hugsa til mannvonskunnar sem þar býr að baki í lagasetningu. /HB

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: