4.janúar 2019
Góðan daginn.
Ég er að velta fyrir mér hvers vegna heimilisuppbót eldri borgara er hærri en öryrkja.
Fyrir eldri borgarann er þessi félagslega aðstoð krónur 62.695 á mánuði en fyrir öryrkjann ekki nema 50.312 krónur á mánuði.
Er samkvæmt löggjafanum ódýrara að vera öryrki?
Mér finnst þetta einkennilegt svo ekki sé meira sagt.
Þar sem ég er farin að ræða Heimilisuppbót ætla ég að bæta þessu við:
Margir sem skrifa um málefni eldri borgara og greiðslur þeirra frá TR setja heimilisuppbót inn í sem part af ellilífeyri.
Þetta er að mínu áliti mjög varasamt og hef ég oft bent á hættuna.
Ellilífeyrir er nú 1.janúar 2019 krónur 248.105 á mánuði og er það fyrir skatt.
Ég er þeirrar skoðunar að þeir sem eru að reyna að þoka stjórnvöldum í átt að skilningi á því hvernig búið er að öldruðum á einu ríkasta landi heimsins ættu alltaf að nota töluna sem er undir ellilífeyri og ekki að vera að blanda félagslegum uppbótum eins og til dæmis “Heimilisuppbót” eða annari aðstoð inn í málið.
Þórunn H. Ellert, Bjarni Ben og fleiri hafa talað um, í fyrra, að ellilífeyrir gæti verið 300 þúsund krónur á mánuði. Þetta er bara bull og ekkert annað en pólitískt plott til þess að upphefja þá sem þykjast vera að gea vel við eldri borgara.
Hvernig stendur á þvi að það er ekki talað um bílastyrk og fleiri styrki sem hægt er að fá ef fólk er komið á ellilaun frá TR, rétt eins og heimilisuppbót?
Heimilisuppbót er fyrir fámennann hóp eftirlaunafólks, hún er t.d. fyrir þá sem taka hálfan lífeyri af því að þeir hafa efni á því og hún skerðist ekki baun hjá þessum hópi. Svo ægilega mikilvægt að bæta kjör þeirra sem eru til dæmis með yfir milljón á mánuði og nota til þess peninga sem ríkisstjórnin ákveður að fara eigi í almannatryggingar.
Þessi uppbót skerðist ekki hjá hinum ríku en hún skerðist hjá venjulega Jóninum og Gunnunni ef þau hafa verið svo einföld að fylgja lögum og safna í lifeyrissjóð á starfsævinni sinni.
Það væri frábær hugmynd fyrir þá sem setja lög og reglur landsins að lesa grein Wilhelms Wessmann þar sem hann segir að skilji þau hjónin hækki eftirlaun þeirra um 60 þúsund á mánuði, eða 120 þúsund hjá þeim samanlagt. Fáránleikinn og heimskan í kerfinu kemur skýrt fram í skrifum Willa. Þetta birtist á Facebook og geta þingmenn flett skrifunum upp þar, þurfa bara að gúggla Wilhelm Wessmann og þá kemur þetta allt upp í hendurnar á hinum háttvirtu.
Hulda Björnsdóttir