Það er laugardagur og mér datt þetta í hug!

29. Desember 2018

Góðan daginn

Hér í Penela er kalt en skínandi sól svo ég ætla að láta það vera að kvarta undan kuldanum.

Rafmagnsreikningurinn er ekki nema rétt rúmlega 86 evrur, þrátt fyrir vetur og gasið líklega um það bil 300 evrur. 386 evrur gera á gengi dagsins 51.858 íslenskar krónur eða þar um bil. Svo er til viðbótar viður í arninum sem ég fékk í október og kostaði eitthvað smávegis, innan við 200 evrur. Viðurinn endist líklega fram á vor.

Húsin hérna eru óeinangruð, byggð úr holóttum múrsteinum. Enginn hiti er í íbúðinni fyrir neðan mig, kallinn er einhvers staðar og kyndir hvort sem er ekki þó hann sé heima. Á hæðinni fyrir ofan býr enginn, þau eru flutt í nýja húsið sitt og íbúðin til sölu. Semsagt ég er í miðjunni og hita upp bæði fyrir ofan og neðan. Ekki að undra að ég borgi slatta fyrir hitunina, það versta er þó að mér tekst ekki að koma hitastiginu inni upp fyrir 18 gráður! Auðvitað er hægt að fara út og láta sólina skína á sig og þar er eiginlega heitara en inni. Veggirnir verða svo ískaldir í svona tíð.

Veturinn tekur enda svo ég ætla ekkert að kvarta meira í bili.

Múslimarnir sem fluttu í húsin á móti eru held ég flestir farnir. Þeir koma með fjölskyldurnar, búa til fleiri börn og yfirgefa svo litla landið mitt og fara til betri landa í Evrópu. Ég er löngu hætt að æsa mig yfir þessu. Veit sem er að þeir eru ekki flóttamenn frá stríðshrjáðum löndum og veit líka að innan tíðar flytja þeir sig allir um set. Það er þó ergilegt að landar mínir sem eru bláfátækir skuli ekki fá sömu fyrirgreiðslu og “börnin skeggjuðu”.

Fínasta dæmið er þó þorpið sem margir voru fluttir til og þar áttu þeir að geta sett upp eigið samfélag og ræktað og gert það sem þeir gera í heimalandi sínu. Þetta var þorp sem hafði verið yfirgefið, eins og svo mörg önnur hér í landinu. Einn góðan veðurdag var svo farið í heimsókn til þess að sjá hvernig nýbúunum vegnaði og hvernig þeim hefði tekist að nýta það sem þau fengu til uppbyggingar.

Ekki sála inni í þorpinu. Hvergi! Allir flognir á burt og enginn veit hvert! Svona gengur þetta stundum fyrir sig hér í litla landinu mínu.

Á þessum tíma árs þarf ég að endurnýja umsókn mína um að greiða skatta í búsetulandinu mínu, samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Portúgal, og þá sendi ég fullt af gögnum til RSK og þau af algjörri snilld búa til eitthvað vottorð sem ég veit ekkert hvernig lítur út, en veit að virkar, og senda þau vottorðið til Líf VR og TR.

Þetta árið ákvað ég að hafa vaðið fyrir neðan mig og argast í TR áður en janúar 2019 skriði inn. Ég sendi mail til stofnunarinnar og bað vinsamlegast um að þau leiðréttu 70 þúsundin sem þau ætluðu, samkvæmt greiðsluáætlun fyrir árið 2019, að taka af mér. Ég bað um að tekið yrði til við að finna pappírinn sem ég vissi að RSK hafði sent þeim fyrir hálfum mánuði þar sem skýrt var tekið fram að ekki bæri að taka neitt af frúnni því hún greiddi skatta í búsetulandinu og það væri EKKI Íslandi. Svo bað ég auðvitað mjög kurteislega um að mér yrði send staðfesting á því að málið hefði siglt í höfn.

Á þriðja dag jóla var ekki komið svar. Ég vissi að stofnunin væri mönnuð og nú hringdi ég, svona sæmilega róleg eða þannig og ákveðin í því að vera kurteis fram í fingurgóma.

Þú ert númer 5 í röðinni, sagði maskínan.

Ég var sæl, stundum hafði ég verið númer 20 í röðinni svo númer 5 var flott.

Þú ert númer 4 í röðinni, kom fljótlega.

Nú þetta gengur hratt fyrir sig, hugsaði ég.

Góðan daginn, hvernig get ég aðstoðað , sagði rödd í apparatið. Það hafði greinilega verið hlaupið yfir 3 og nú var ég komin í samband.

Sagði ég gaurnum hver ég væri og hann fékk kennitölu og alles og ég sagðist vilja fá nýja greiðsluáætlun og hana vildi ég fá fyrir útborgun á janúar.

Gaurinn bað mig að senda bréf!

Ég er búin að senda bréf, sagði ég.

Hann fann ekkert. Geturðu sent það aftur? spurði hann

Já, bíddu, svaraði ég og hugsaði, andskotans hálfviti, en sagði það auðvitað ekki.

Eftir langa mæðu fann gaurinn skjalið sem ég sendi honum á adressuna sem hann gaf mér upp og þá gat ræfillinn ekki opnað það. Jesús minn, hugsaði ég, og var nú farið að þykkna í frúnni og ásetningur um kurteisi og svoleiðis alveg að renna út um gluggann.

Ég sagði honum hvernig hann ætti að fara að. Auðvitað vissi ég að það var ekkert mál að opna fyrirbærið.

Eftir nokkra stund bað hinn ágæti á línunni mig um að bíða augnablik og tók nú við tónlist sem spilaði eitthvað á meðan ég varð æstari með hverju augnablikinu sem leið og þau urðu ansi mörg en ég var jú að hringja frá útlöndum og ákvað að gefast ekki upp. Ég mundi ábyggilega ekki finna sama gaurinn aftur ef ég legði á og þá þyrfti ég byrja upp á nýtt. Nei, ég ætlaði að bíða.

Á endanum kom röddin aftur, Þakka þér fyrir að bíða, það er verið að vinna í því að leiðrétta skráninguna og ætti þetta að vera komið í lag fljótlega, sagði röddin.

Í dag? spurði ég.

Ja það held ég, sagði gaurinn

Kvaddi ég og þakkaði fyrir og var ennþá kurteis og lagði á.

Hálftíma síðar barst mér mail. Ekki víst að hægt verði að leiðrétta fyrir áramót en verður gert í janúar!

Ég varð óð.

Ég ætla ekkert að segja hér hvað ég sagði í mailinu sem ég sendi til baka en það var greinilega öskureið kona sem var að bölsótast úti í Portúgla.

Ákvað ég nú, heilsu minnar vegna, og lélegs hjarta, að hætta að hugsa um þetta í bili og rífast aftur í janúar og skipuleggja þá hvernig ég möndlaði þann mánuð. Ég vissi sem var að hjartað var ekki par hrifið af æsingi og ef ég ætlaði að komast inn í næsta ár yrði ég að vera róleg og passa að ég væri ekki dauð næst þegar ég hitti hjartalækninn minn, sem er flottasti gæi sem þið getið hugsað ykkur og frábær læknir í þokkabót, en stefnumótið er 1.febrúar. Það var ekki til umræðu að ég léti TR og einhvern gaur þar eyðileggja fyrir mér ánægjuna af því að heimsækja Dr. Pedro. Ekki aldeilis.

Í gær kom svo alveg óvænt mail.

Greiðsluáætlun þín hefur verið leiðrétt! stóð á skjánum.

Hah! Auðvitað sendi ég svar til baka með :Takk fyrir!

Auðvitað er TR ekkert verri stofnun en margar aðrar ríkisstofnanir á Íslandi en samt er alltaf jafn hlægilegt að tala við þá sem eru nýjir og vilja í raun gera allt fyrir mann en þegar þeir tala svo við gamla starfsfólkið kemur annar tónn í skrokkinn og þjónustulundin fýkur aðeins til.

Ég get hlegið að þessu núna, en því miður eru margir sem eru í verulegum vandræðum vegna þess hvernig stofnunin vinnur. Það er fólk sem hefur uppgötvað að það fær ekki krónu frá TR í janúar vegna þess að það vantar einhvern pappír. Stofnunin er ekki að hafa fyrir því að hringja í viðkomandi og vara við. Nei, það er of mikil fyrihöfn og samræmist ekki þjónustulundinni.

Ég heyrði um eitt svona dæmi og viðkomandi var sagt að lifa á konunni!

Kannski þarf að stokka upp í kerfi þjónustustofnana hjá íslenska ríkinu, allavega hjá þeim sem eiga að sjá um að fólk drepist ekki úr hungri ef það er svo óheppið að þurfa að reiða sig á greiðslur frá TR.

Ég ætlaði að skrifa um allt annað þennan daginn en svona gerist þetta stundum og puttarnir taka völdin og ég ræð ekkert við hvað situr eftir á pappírnum, hvað þá skjánum.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: