Eru jólin hátíð allra?

25.desember 2018

Góðan daginn gott fólk sem lesið þennan póst.

Í dag er kalt en sól hér í Penela og sem betur fer er ekki eftir nema dagurinn í dag af brjálæðinu í bili.

Mikið ofboðslega er mikið af fallegu fólki á Facebook núna sem geislar af hamingju og gleði og óskar öllum alls hins besta. Sumt af þessu broshýra fólki fer svo á Alþingi eftir LANGT jólafrí og tekur til við að plotta um eigin ágæti og fallegu brosin og góðu óskirnar roknar út í veður og vind hjá flestum.

Fátæka fólkið sem ekki fékk jólagjafir eða fínan mat er ekki að birta fallegar myndir og geislandi fjölskyldu. Nei, það fólk er ósýnilegt á hinni yfirmáta glöðu Facebook í dag.

Bréfið kemur hérna á eftir en mikilvægara fyrir mig er það sem ég skrifa á undan.

Það er Fátæka fólkið sem át ekki hamborgara eða rjúpur, hvað þá rækjur eða humar í alls konar sósum.

Fátæka fólkið hefur ábyggilega verið fegið hafi það haft eitthvað annað en hafragraut í jólamatinn, að ég tali nú ekki um skjól yfir höfuðið þar sem hlýtt er.

Nei, fátæka fólkið gengur ekki á sokkaleistunum á parketlögðum gólfunum og dáist að undurfögru jólatré, sem fjölskyldan hefur skreytt með öllu fína skrautinu sem safnast hefur saman í gegnum árin.

Fátæka fólkið er fegið að nú er þetta að verða búið og 1. janúar fá eldri borgarar borgað út og geta hugsanlega keypt sér mjólk og brauð.

Fátæka einstæða móðirin andar ábyggilega léttar og verður fegin þegar skólinn byrjar aftur og komið verður fram í janúar og þau vel stæðu hætt að tala um hvað þau fengu í jólagjöf. Það er ekki auðvelt að vera barn einstæðrar móður og þurfa að hlusta á allt talið um stóru fallegu dýru gjafirnar sem hin fengu.

Öryrkinn verður feginn þegar janúar kemur og það verður aftur til matur í nokkra daga. Hann fyllist þó þunglyndi og ótta þegar hann hugsar til þess að nú er hann enn og aftur fastur í gildru þar sem honum er gert ókleyft að afla nokkurra tekna að ekki sé talað um að fá smá félagsskap frá einmanakenndinni á vinnustað þar sem er fólk og það talar saman.

Nei það er ekki allt gull sem glóir og glansmyndirnar tala ekki máli allra. Þær eru fallegar og ekkert við þær að athuga sem slíkar, og ekki heldur sólarlandamyndirnar sem koma líka í stríðum straumum þessa dagana. Það er gott að fólk hafi efni á því að fara í golfferðir til útlanda um jólin. Það er gott að fólk hafi tekið sig upp og flutt alla fjölskylduna með til Kanarí eða eitthvað þar sem heitt er, til þess að njóta jólanna og ódýru vínanna og sólskinsins og hvað svo sem þetta ágæta fólk allt er að gera. Þetta er allt saman ágætt, en svona er lífið dásamlegt bara hjá sumum.

Í landinu þar sem gull drýpur af trjám er stór hópur barna, öryrkja, einstæðinga, einstæðra foreldra, láglaunafólks og sára fátækra eldir borgara sem eiga ekki fyrir jólamáltíðinni.

Hvað ætli Jesú hefði sagt yfir þessu öllu saman?

Ekki trúa allir á Jesúbarnið en allir trúa á eitthvað hvaða nafni svo sem mátturinn hefur.

Jól ættu að vera hátíð allra, hvort sem fólk er trúað eða trúlaust.

Jól eru ekki hátíð allra á Íslandi.

Jól er martröð einstæðu móðurinnar og eldri borgarans sem þarf að afþakka heimboð vegna þess að hann á ekki almennilega föt til að vera í og vill ekki láta sjá hvað hann er aumur. Jól eru líka martröðu öryrkjans sem getur ekki náð sér upp úr áhyggjum hversdagsins eða þunglyndinu sem umlykur hann í myrkrinu. Þessi öryrki bíður eftir því að dagurinn í dag líði og allt verði sæmilega venjulegt í örfáa daga, eða þar til áramótageðveikin hefst.

Þetta átti ekki að verða pistill um örvæntingu og ótta.

Þetta átti að vera pistill um bréf sem ég sendi TR til þess að reyna að koma þeim í skilning um að það er ekki í lagi að rífa af mér skatt í janúar og láta mig þurfa að borga 1800 krónur fyrir millifærslu í þeim mánuði, bara af því að kerfið er snargalið. Það er  mikilvægara fyrir mig að reyna að hugsa út leið til þess að allir geti haft það sæmilegt á Íslandi, ALLTAF.

Vonandi finnum við einhverja leið.

Vonandi leggjast nýju verkalýðsleiðtogarnir á árarnar fyrir alla og vonandi gleyma þeir ekki eldri borgurunum sem unnu við að byggja upp þetta þjóðfélag sem landið er í dag og eru nú látnir lepja dauðann úr skel og niðurgreiða lögbundinn eftirlaun með sparnaði sínum.

Vonandi er í lagi að vona.

Hulda Björnsdóttir

Hér á eftir kemur svo bréfið sem ég sendi TR í dag og ætti að bíða þeirra í fyrramálið þegar þau mæta til vinnu.

Á hverju ári þarf ég að sækja um undanþágu frá skattskyldu á Íslandi þar sem ég borgar skatta hér í Portúgal eins og lög gera ráð fyrir.

Góðan daginn

enn eina ferðina þarf ég að argast í því að stofnunin fari eftir því sem segir í bréfi RSK að ekki eigi að taka staðgreiðslu af mér á Íslandi þar sem ég bý í Portugal.

Nú er tími til þess að breyta þessu dæmalausa vitleysislega kerfi ykkar en auðvitað verður það ekki gert.

Ég ætlast til þess að þið leiðréttið, ÁÐUR EN GREITT VERÐUR ÚT ÞANN 1.JANÚAR 2019, og að þið takið EKKI af mér staðgreiðslu.

Vinsamlega ekki senda mér bréf með leiðbeiningum um hvernig kerfið er. Ég veit það upp á hár eftir að hafa strítt við stofnuna í fleiri ár.

Á hverju einasta ári er þessi barningur í janúar.

Á hverju einasta ári bið ég um að þetta verði leiðrétt.

Á hverju einasta ári sendir RSK bréf til ykkar og Lífeyrissjóðsins og

Á hverju einasta ári hef ég hringt en nú ætla ég að sjá hvort ekki dugar að senda ykkur e-mali.

Ég er orðin óskaplega þreytt á því að þurfa að standa í þessu strögli ár eftir ár.

Virðingarfyllst

Hulda Björnsdóttir

Kt.

 

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: