15.desember 2018
Góðan daginn
Hér er kalt og skýjað og ekkert sem bendir til þess að hlýni fyrr en einhvern tíman á næsta ári. Auðvitað er þetta Portúgal og ekki er ég að kvarta en samt væri gott að fá nokkra sólardaga innan um og saman við.
Nú er Alþingi komið í enn eitt fríið og formaður FEB líka. Hann rak tærnar inn í 5 daga og sumir héldu ekki vatni og halda ekki vatni yfir því hvað það var dásamlegt að gaurinn skildi nú vera kominn AFTUR inn á hina háæruverðugu stofnun.
Ég hef í raun ekkert á móti manneskjunni formanni FEB, ég hef hins vegar mikið á móti embættismanninum formanni FEB að ég tali nú ekki um fyrrverandi hörðum Sjálfstæðismanni sem söðlaði um og varð harður Samfylkingarmaður af því að einhver Sjalli þurfti að komast að. Sumum finnst þetta voða göfugt en mér finnst þetta valdagræðgi og ekkert annað.
Ég hef aldrei haft mikið álit á þeim sem kúppla sig eins og skopparakringlur frá einum stjórnmálaflokki til annars, eins og til dæmis nokkrir sem tróðu sér inn í Flokk fólksins á síðustu stundu og margir halda ekki vatni yfir hvað hafi verið dásamlegt fyrir flokkinn að fá sem liðsauka. Getur verið að sá liðsauki gangi að flokknum dauðum? Ég veit ekkert um það enda ekki spákona.
Þegar verið var að stofna flokkinn fólksins þá heyrði ég að einhver hafði farið á fjörurnar við stjórnarmann eða men í FEB og falast eftir liðsinni. Nei, viðkomandi í FEB vildi bara halda áfram í Samfylkingunni!
Mér fannst þetta half ótrúlegt á sínum tíma en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og nú sé ég þetta í ljósi sannleikans.
Þegar skoðað er hið ofboðslega gleðigaum sem reis upp þegar sparkarinn komst inn á Alþingi af því hinir 2 voru uppteknir, ekki af því að hann var svo ægilega vel til þess fallinn, nei, það var enginn annar sem gat stokkið inn í bili en auðvitað koma þeir sem ættu að vera á þingi inn eftir áramót þegar þingheimur kemur úr jólafríi, sem er reyndar ekki jólafrí heldur langt vetrarfrí, finnst mér, þá dettur mér ekki í hug að falla á kné og fagna himinsenglunum sem báru sparkara inn eins og gerst hefur nú hjá fylkingunni.
Ég verð nú að játa á mig alvarlegan glæp.
Í stjórnmálum hefur mér alltaf fundist bæjarmálapólitík vera allt annað en landsmálapólitík og þegar ég kaus bar atkvæði mitt þess merki.
Í bæjarmálum kaus ég í nokkur síðustu árin sem ég bjó á Íslandi, Samfylkinguna. Það var gott fólk í flokknum í bæjarmálunum og ég treysti þeim og þau reyndust mér vel í alla staði og er ég þakklát fyrir það.
Í landsmálum hef ég ALDREI kosið Samfylkinguna og þegar ég sá sparkarann fara þar inn fyrir áratugum, grjótharðan Sjálfstæðismanninn, var ég bólusett fyrir lífstíð.
Nú hef ég fylgst með pólitíkinni, þessari ógeðslegu tík, á Íslandi í rúm 2 ár.
Samfylkingin er í stjórnarandstöðu ásamt t.d. Viðreisn sem var í fyrri stjórn og átti þá hinn frábæra “fátæki fulltrúa” og annann sem fór með velferðarmál og var meira að segja ráðherra.
Nú bregður svo við að Viðreisn talar flott um hvað gera þurfi fyrir “fátæki” fólkið og hvernig bæta eigi hag þeirra.
Ég hef fylgst grannt með Loga formanni Samfylkingarinnar og reynt að finna út fyrir mig hvort hann mundi, ef hann væri í ríkisstjórn, í alvöru berjast fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja.
Ég verð að segja að óbragðið í munninum verður sterkara með hverju viðtalinu og ræðunni.
Ég er að segja hér og nú að ég mundi ekki treysta Samfylkingunni til þess að standa fyrir því að kjör eldri borgara og öryrkja yrðu leiðrétt og er ég þá að tala um eldri borgara sem tilheyra miðhópnum. Sá hópur á ENGANN málssvara neins staðar hjá FEB eða LEB, enginn af Samfylkingarfólkinu í fararbroddi fyrir eldri borgara kærir sig neitt um þessa miðhópa.
Það er ótrúlegt að ég skyldi ekki gera mér grein fyrir því fyrr en nú að FEB og LEB eru flokkspólitísk samtök en ekki allra.
Í 2 ár hafa formenn FEB og nú formaður LEB talað grimmt fyrir því að atvinnutekjur skulu vera óskertar hjá eldri borgurum. Þeim varð að ósk sinni að hluta og nú eru 100 þúsund króna tekjuskerðingar mark vegna atvinnu tekna en hjá hinum aumingjunum, þeim sem eru að fá tekjur frá Lífeyrissjóði, byrja skerðingarnar við 25 þúsund.
Það þýðir ekkert fyrir fólk að segja að stjórnmálamenn hlusti ekki. Þeir hlusta og Bjarni hefur heyrt í FEB og LEB. Hann sagðist hafa áhuga á því að bæta kjör eldri borgara. Hann hefur gert það og ætlar að gera betur vegna þess að hann hlustar á forystu félaganna. Hann ætlar bara ekki að bæta kjör millihópsins því fyrir hann berst félagsskrípið ekki.
Hann sagði að fólk á þingi hefði risið upp og mótmælt þegar hann vildi fella alla tekjutengingu atvinnutekna niður af því að það yrði svo dýrt. Sagði Bjarni þetta? Ég las þetta en hlustaði ekki á hann. Þetta stendur skrifað haft eftir honum. Getur verið að þetta sé rétt? Ég held það. Ég veit alla vega að hann hefur hlustað. Það stóð til að breyta fyrirkomulagi half and half með nýju frumvarpi sem átti að koma fram á liðnu þingi. Ég sá þetta frumvarp aldrei. Nei, auðvitað ekki. Bjarni hlustaði á FEB og LEB og sá að ekki væri gott að breyta half and half fyrirkomulaginu, það mundi koma sér illa fyrir hina betur stæðu í þjóðfélaginu sem hann og FEB og LEB eru með svo nálægt hjarta sínu.
Gallharður sjálfstæðismaður sem kemur á þing í eina viku og flytur nokkur örstutt ávörp hefur ekki mikið að segja. Hann hefur látið draga sig á asnaeyrunum í heilt ár og sagt okkur aumingjunum að vera róleg, þetta sé allt í nefnd og alveg að koma.
Í nefndinni situr sýnist mér í góðu kökuyfirlæti frú formaður LEB, allavega sýna myndir hana þar.
Sú ágæta frú sem hefur komið í hvert viðtalið á fætur öðru undanfarin 2 ár og hamast í því að fá launatekjur frítekjulausar, er ekki líkleg, að mínu mati til þess að bæta kjör aumingja miðhópsins.
Þeir sem verst hafa það að áliti þeirra sem tala um þessi mál á vegum FEB og LEB eru ekki að tala um þá sem niðurgreiða lífeyri sinn frá TR með sparnaði í Lífeyrissjóði. Nei talsmennirnir eru að tala um þá sem aldrei hafa sparað. Hinir skipta ekki máli, eða getur verið að fólkið sé svo illa að sér í málefnum þeirra sem þau eru að tala fyrir, að þau viti ekki að 310 þúsund eru ekki mikið meira virði en 234 þúsund? Mér er spurn.
Þegar ég horfi til næsta árs þar sem allt mun loga í verkföllum og ríkisstjórnin líklega falla þá verður mér ískalt við tilhugsunina um að fá Samfylkinguna í ríkisstjórn, en það gæti gerst þegar litið er til skoðanakannana núna.
Ég treysti Samfylkingunni jafn vel og Sjálfstæðisflokknum í landsmálum.
Nákvæmlega ekki neitt.
Skrípasker heldur áfram að skarta skrípum og loforðavellan verður skrautlegri með hverjum deginum sem rennur fram.
Föllum á kné og fögnum gömlum köllum. Rísum upp og andskotumst í þeim sem voga sér að vera í fallegum sokkum og ganga ekki á skítugum skónum upp á bak á okkur, jafnvel á hinu háæruverðuga …..
Gallabuxur eru kúl, krumpaðir jakkar eru hallærislegir en þeir krumpast auðvitað við mikla keyrslu í bifreiðum sé ekki farið úr þeim og þeir brotnir virðulega saman. Krumpurnar eru víðar en í jökkunum.
Ég er á því að sokkaleistar í öllum regnbogans litum séu það sem koma skal. Allavega kysi ég þá frekar en jakkana, ætti ég þess kost.
Hulda Björnsdóttir