- desember 2018
Hvað er helst í fréttum frá Skrípaskeri?
Jú, þingmaður fer í frí til þess að fá “bata” frá einhverju sem er frekar óskilgreint.
Formaður félags fólks sem er komið yfir 65 ára hefur labbað inn á þing af því að hinir varamennirnir voru uppteknir, þeir sem áttu að taka við fyrir þann sem er í “bataferlinu”
Ógnar gleði ríkir nú á hinu háttvirta þar sem gamalmenni hefur sest þar inn í fyrsta skipti
Sá gamli ætlar að lesa yfir hinu háttvirta og segja þeim hvernig gamalt fólk hefur það í þjóðfélaginu og ætlar að tala um “hina minnstu bræður”
Varamaðurinn situr líklega eina viku á virku þingi þar sem allir hinir eru að fara í jólafrí sem stendur held ég fram í janúar
Stöngin inn og mark
Við fáum jólahugvekju formanns félags með 11 þúsund félagsmenn úr ræðustól Alþingis, ég var búin að minnast á þetta áður
Við “hinir minnstu bræður” verðum líklega mærð líkt og kappinn sem settist inn aftur og nýtur gamals frægðarljóma í botn
Ég verð skömmuð fyrir vanþakklæti og ótuktarskap
Klausturssystkyni falla nú í skuggann og ekkert meira rætt um þau því glorian er gengin í garð
Mikið vildi ég að Albert Guðmundsson væri kominn til baka, þá væri nú fyrst gaman og gott að halla sér upp að bumbunni á honum og fá gott klapp á kollinn. Hann var maður að mínu skapi og frægur að eindæmum í þokkabót. Það er betra að hafa eitthvað til þess að halla sér upp að en auvitað er vinurinn löngu horfinn og aðrir komnir í hans stað.
Munaðarleysi okkar sem tilheyrum ekki hinum vel stæðu eldri borgururm og ekki heldur hinum “minnstu bræðrum” er algjört.
Við eigum engann sem berst fyrir okkur. Öllum er nákvæmlega sama um hvernig sparnaði okkar er stolið í hverjum einasta mánuði, löglega.
Sum okkar hafa tekið þann kost að flýja land og höfum við sest að í löndum sem gera okkur kleyft að standa á eigin fótum og eiga mat á diskinn okkar út mánuðinn jafnvel þó við fáum engar félagslegar uppbætur frá TR.
Við sem höfum flúið land erum eins og óhreinu börnin hennar EVU. Aldrei minnst á okkur í umræðunni um kjör eldri borgara.
Óhreinu börnin hennar EVU eru ekki til.
Nei, það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að við sem tilheyrum millihópnum í hópi eldri borgarar fáum talsmann. Ég veit ekki hver það gæti verið. Við erum ekki bara munaðarlaus. Við eru algjörir niðursetningar og eigum okkur ekki uppreisnar von.
Jú, láttu nú ekki svona, gæti einhver sagt.
Við eigum jú talsmann og talsmenn í FEB og LEB og nú er yfirvaldið komið í þingsal og getur messað yfir liðinu þar, gæti einhver sagt.
Ég er bara vanþakklát og svartsýn Skrípaskers flóttamaður.
Ég trúi ekki lengur orði sem flestir stjórnarandstöðumenn láta út úr sér.
Það er þó lítill hópur ungs fólks sem er á samkomunni og ég hef trú á því fólki, einfaldlega vegna þess að það fylgir sínum málum eftir og að ég tali nú ekki um að þau svara kjósendum þegar þeir bera upp spurningar. Þetta unga fólk er með sprotann í hendi sér og vonandi komast þau í aðstöðu til þess að fá mál samþykkt þegar ríkisstjórnin gefst upp eftir áramót og verkföll og skærur taka völdin.
Kannski þurfum við að segja þessu unga fólki meira frá því hvernig raunveruleiki miðhóps eldri borgara lítur út svo þau geri sér grein fyrir hvar skóinn kreppir. Munaðarleysingjarnir ættu að snúa sér að þeim sem svara þeim og eru tilbúnir að hlusta án hroka og yfirgangs.
Skrípasker er orðið enn skrípalegra þessa síðustu daga og var þó ekki úr háum stalli að detta.
Munaðarleysingjarnir þurfa að rísa upp og sýna lágkúrunni og höfðingjaslepjunni hvar Davíð keypti ölið.
Það er alveg ljóst að FEB og LEB mun aldrei gera neitt í málum okkar sem niðurgreiðum eftirlaun okkar með sparnaði okkar, semsagt það verður aldrei farið í mál á vegum þessara samtaka fyrir okkur. Í forystu þessara samkundna veljast menn og konur sem hafa ekki hugmynd um hvað það er að svelta eða hafa ekki húsaskjól yfir veturinn þegar kuldinn og rokið heldur þeim innan dyra.
Eldri borgarar í miðhópnum!
Við eigum ekki einn einasta málssvara. Við verðum að finna okkur farveg og hann verður ferskur og baráttuglaður laus við höfðingjasleikju og snobb.
Hvar er þessi farvegur?
Hulda Björnsdóttir