- nóvember 2018
Eldri borgarar – Ég er að pæla
Ég hef velt því fyrir mér lengi hvernig standi á því að eldri borgarar geta ekki komið sér saman um hvernig haga skuli baráttu fyrir hópinn.
Til þess að skoða þetta betur skipti ég hópnum niður í 6 flokka, allavega í bili og ætla að reyna að gera mér grein fyrir hvað einkennir þessa flokka og hvernig hægt væri að virkja þá til samstöðu. Hvort þetta tekst eða ekki er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að skoða málið frá fleiri en einum pól og sjá hvort eitthvað kemur út úr pælingunni.
Hér eru flokkarnir sem ég ætla að skoða:
- Fólk sem vill vinna eftir 67 ára
- Fólk sem getur ekki unnið eftir 67 ára
- Fólk sem vill ekki vinna eftir 67 ára
- Fólk sem á réttindi í lífeyrissjóði
- Fólk sem á ekki réttindi í lífeyrissjóði
- Er til vinna fyrir alla sem vilja vinna eftir 67 ára?
Flokkur 1 samanstendur af fólki sem vill vinna eftir 67 ára aldurinn og getur fengið vinnu.
Þessi hópur er væntanlega sá sem hefur lagt mesta áherslu á að frítekjumark vegna atvinnutekna verði hækkað því hópurinn vill fá eitthvað fyrir sinn snúð, sem er eðlilegt.
Hverjir eru í þessum hópi?
Til dæmis gætu það verið fyrirtækjaeigendur, það gætu verið ýmiskonar listamenn eða stjórnendur í þeim geira. Svo eru læknar, lögfræðingar, verkfræðingar og fleiri hálaunahópar líklega í þessum hópi. Alþingismenn eru auðvitað gulltryggðir og þurfa líklega ekki að berjast fyrir bættum kjörum þegar þeir eru komnir á eftirlaun, það hefur verið séð fyrir þeim.
Ég hef lesið skrif nokkurra sem starfa í listageiranum og eru þar við stjórnarstörf og finnst að hækka eigi frítekjumarkið og hafa einhverjir til dæmis nefnt 200 þúsund krónur sem algjört lágmark.
Ég er ekki að gagnrýna skoðanir þessa hóps, ég er einfaldlega að skoða hvernig fólk hugsar.
Flokkur 2 er fólk sem getur ekki unnið eftir 67 ára aldurinn.
Þetta fólk gæti verið fyrrverandi öryrkjar, til dæmis, en þegar öryrki verður 67 ára hættir hann að vera öryrki í kerfinu og verður eftirlaunaþegi.
Í þessum hópi er líklega fólk sem hefur unnið erfiðsvinnu allt sitt líf og heilsan er farin, til dæmis gæti þetta verið fiskvinnslufólk, fólk í ummönnunarstörfum, sjúkraliðar og fleiri hópa mætti setja hér inn.
Þessi hópur hefur hreinlega ekki líkamlega krafta til þess að vinna eftir 67 ára, jafnvel þó það gjarnan vildi til þess að haldast inni í samfélaginu.
Flokkur 3 gæti verið fólk sem vill ekki vinna eftir 67 ára
Þessi hópur er búinn að skila sínu hlutverki og hefur lagt til efri áranna og telur að nú sé kominn tími til þess að njóta ávaxta erfiðisins.
Þessi hópur er ekki endilega orðinn útsltinn af erfiðisvinnu. Þetta er einfaldlega fólk sem getur hugsað sér að sinna til dæmis áhugamálum sem ekki hefur verið tími til þess að sinna á meðan unnið var úti og hópurinn hefur hlakkað til efri áranna. Þessi hópur hefur hlakkað til að geta ferðast til annara landa og kannski notið betra veðurs og skoðað sögu framandi landa.
Þetta er hópurinn sem hefur ekki eingöngu lifað fyrir vinnuna, en hefur þurft að láta hana ganga fyrir öllu öðru.
Sumir geta ekki hugsað sér að hætta að vinna því vinnan hefur verið félagslegur grunnur þess fólks og hætti það einangrast það og lífið verður autt. Þessi hópur er hins vegar þannig að hann á sér fleiri áhugamál en vinnuna og lífsfyllingin er ekki bara vinna, hún er lífið sjálft.
Flokkur 4 gæti verið fólk sem á réttindi í lífeyrissjóði
Þessi hópur hefur borgað skatta og skyldur til þjóðfélgasins alla sína tíð, hann hefur unnið og fylgt lögum og reglum og sparað lögbundna prósentu af launum sínum í lífeyrissjóð í þeirri trú að þegar að efri árum kæmi þá væri framtíðin björt.
Þegar þessi hópur skoðar málið kemur í ljós að hann er ekki alveg eins vel staddur og hann hélt. Þessi hópur fær eftirlaun frá TR en þau eru skorin niður vegna tekna sem hópurinn fær frá Lífeyrissjóði.
Misvitrum stjórnmálamönnum hefur tekist að krukka í lög og reglur og breyta tilgangi sparnaðar í Lífeyrissjóði, og notar nú kerfið sparnaðinn til þess að spara ríkinu greiðslur lögbundinna eftirlauna frá TR, sem urðu til vegna greiðslu skatta til þjóðfélagsins.
Margir eru á þeirri skoðun að sú eignaupptaka sé ólögleg og mikið rætt um að fara þurfi í mál til þess að hnekkja gjörningnum. Mikið hefur verið talað en ekki bólar á málssókninni og er hún bæði dýr og tímafrek og ekki fyrir einstaka eftirlaunaþega að fara út í slíkt ævintýri. Til þess að málssókn sé möguleg þarf að hafa stuðning frá mörgum.
Það er ekki hægt að senda málið til Mannréttindadómstóls. Fyrst þarf málið að fara fyrir öll dómsstig á Íslandi og tekur það óratíma, ekki síst þar sem líkur væru á að farið yrði fram á gjafsókn sem mundi draga málið. Undirbúningsvinna er líka gríðarleg og söfnun gagna og vitnisburður þeirra sem stóðu að málinu í upphafi og þeirra sem hafa síðan séð um framhaldið. Smátt og smátt fellur það fólk frá sem var við í upphafi og kannski glatast þekking þar.
Flokkur 5 gæti verið samsettur af fólki sem á ekki réttindi í lífeyrissjóði
Það geta verið ýmsar ástæður fyrir skorti á réttindum í lífeyrissjóði
Til dæmis gæti verið um öryrkja að ræða sem hefur verið öryrki allt sitt líf. Hann hefur ekki haft tök á því að spara í sjóð.
Það getur verið um að ræða fólk sem hefur einhverra hluta vegna ekki greitt skatta og skyldur til þjóðfélagsins og þar af leiðandi ekki heldur greitt í lífeyrissjóði. Ég veit ekkert hvort þetta fólk er til eða ekki, held þó að það geti verið og að minnsta kosti gætu réttindi verið af skornum skammti í lífeyrissjóði. Það eru til stéttir sem á árum áður áttu enga lífeyrissjóði til þess að greiða í.
Þessi hópur á rétt á greiðslum frá TR og fær þær. Þeir sem eru giftir fá strípaðan lífeyri en þeir sem búa einir fá félagslega aðstoð sem heitir “heimilisuppbót” og var sett á til þess að létta undir með þeim sem halda einir heimili því það er talið dýrara en þegar 2 eða fleiri búa saman.
Hvernig er svo ellilífeyrir frá TR reiknaður út?
“Heimilisuppbót” hefur hækkað mun meira en almennur ellilífeyrir í prósentu tölum.
Núna þegar þetta er skrifað er uppbótin 60.516 krónur á mánuði fyrir skerðingar.
Ellilífeyrir er krónur 239.484 á mánuði fyrir skerðingar
Frítekjumark vegna almennra tekna annarra en atvinnutekna er 25.000 á mánuði
Frítekjumark vegna atvinnutekna er 100.000 krónur á mánuði
Greiðslur frá TR falla niður ef tekjur fara yfir 557.187 krónur á mánuði
Áhrif tekna yfir frítekjumörkum ellilífeyris eru 45% skerðing en hins vegar eru áhrif tekna yfir frítekjumörkum á heimilisuppbót mun minni, eða 11,90% skerðing.
Uppbætur er hægt að fá búi einstaklingurinn á Íslandi. Til dæmis er hægt að fá uppbót vegna reksturs bifreiðar og nemur sú uppbót krónum 16.583. Uppbætur falla niður ef eignir í peningum og/eða verðbréfum fara yfir 4 milljónir hjá einstaklingi og 8 milljónum hjá hjónum.
Einhverjar niðurgreiðslur er hægt að fá þegar búið er á Íslandi og ýmsa afslætti hjá fyrirtækjum. Þar sem ég þekki ekki það mál læt ég öðrum eftir að telja þá þætti upp.
Einstaklingur sem fær 152 þúsund krónur frá Lífeyrissjóði stendur ekki mikið betur en sá sem aldrei hefur sparað í sjóð. Mismunurinn á útgreiddum launum mánaðarlega eftir að skattar hafa verið dregnir af er :
264.726 krónur sem fást eftir skatta fyrir þann sem fær 152 þúsund frá lífeyrissjóði
204.914 krónur sem fást eftir skatta fyrir þann sem ekki hefur neitt frá lífeyrissjóði
59.812 krónur er það sem sparnaðurinn færir þeim sem hefur greitt í Lífeyrissjóð framyfir þann sem eingöngu nýtur greiðslna frá TR.
Er þetta ekki eitthvað kengbogið kerfi?
Flokkur 6 gæti verið um þetta: Er til vinna fyrir alla sem vilja vinna eftir 67 ára?
Það eru rök sem hamrað er á þegar verið er að tala um frítekjumark vegna atvinnutekna að það sé svo dásamlegt fyrir fólk á efri árum að geta haldið áfram að taka þátt í atvinnulífinu og þar með þjóðfélaginu! Og að þess vegna þurfi að vera hærra frítekjumark fyrir þá sem vinna en þá sem hafa sparað í Lífeyrissjóði.
Þegar ég husta á þessi rök spyr ég alltaf hvort til sé vinna fyrir fólk sem er komið yfir 67 ára aldurinn?
Ég velti fyrir mér hvort allt í einu sé allt vaðandi í vinnu fyrir alla á Íslandi?
Ég velti líka fyrir mér hvers konar vinna er í boði fyrir þennan aldursflokk?
Er það vinna á kassa í bónus eða öðrum súpermörkuðum?
Er það vinna á sjúkrahúsum við þrif?
Er það vinna við ummönnun eldri borgara og sjúklinga?
Er það vinna við fiskvinnslu?
Er það vinna á sjó fyrir sjómennina?
Hvaða vinna er í boði fyrir þá sem eru orðnir slitnir af erfiðisvinnu í gegnum ævina og þrotnir af líkamlegum kröftum?
Eitthvað mikið hefur breyst á Íslandi ef allt í einu er til vinna fyrir alla sem vinna vilja sama á hvaða aldri þeir eru. Sú var tíðin að væri kona komin yfir 50 var ekki mikil von til þess að hún gæti skipt um vinnustað. Kannski er þetta bara allt svo gott í lala landi núna og nýja staðreyndin sú að allir geti fengið vinnu við sitt fag, sama hvað er.
Ég verð þó að leyfa mér að efast um að breyting í lala landi sé almennum eldri borgurum í hag varðandi vinnumarkaðinn.
Ég gæti best trúað að þeir sem berjast hvað harðast fyrir “allir út að vinna “ tilheyri flokki númer eitt ásamt formanni Landssambands eldri borgara og einhverra þingmanna sem hugsa sér að slá sér upp á gjörningnum.
Geðveikin í þessu öllu saman finnst mér líklega vera hálf eftirlaun fyrir þá sem hafa efni á því að taka hálf eftirlaun. Það er ekki fátæka fólkið sem þarf að velta fyrir sér hverri krónu alla daga mánaðarins. Nei það er enn ein gjörðin til þess að sjá um hina vel stæðu í þjóðfélaginu og gæta þess að þeir missi nú ekki af aurunum sem hinir vesælu almennu borgarar þurfa að sætta sig við.
Hafir þú efni á því að taka hálf eftirlaun frá TR og hálf frá Lífeyrissjóði eru engar skerðingar, ekki ein króna. Til þess að geta lifað af þessu þarftu auðvitað að vera nokkuð sæmilega stæður einstaklingur en hver spáir í það? Allt fyrir auðvaldið, rétt eins og sannast svo dásamlega á fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár þar sem venjulegt fólk, öryrkjar og eftirlaunafólk er skilið eftir en veiðigjöldin blessuð lækkuð svo ekki þurfi að koma til sveltis hjá þeim sem þau borga.
Réttlætið í lala landi er ekkert slor.
Niðurstaða mín er líklega sú að ekki sé hægt að samræma hópa eldri borgara og fá þá til þess að vinna saman að bættum kjörum fyrir ALLA. Auðvaldið verður líklega alltaf ofan á og hinir sitja eftir með sárt ennið. Misréttið eykst og hinir fátæku verða fátækari.
Hulda Björnsdóttir