Eru geðsjúklingar minna virði en aðrir sjúklingar?

  1. nóvember 2018

Fyrir nokkrum dögum lét ég inn á Facebook síðu mína færslu þar sem ég sagðist hafa eytt geðsjúklingi af vinalista mínum.

Ég gæti hugsanlega hafa sært einhvern vina minna og ætla því að útskýra hvers vegna og einnig að skoða viðhorf mitt til geðrænna vandamála því einn spurði hvort geðsjúkdómar væru eitthvað öðruvísi en aðrir sjúkdómar.

Gerðræn vandamál eru margvísleg, rétt eins og líkamlegir sjúkdómar eru ekki allir eins. Það er ekki það sama að vera með krabbamein og beinþynningu, svo dæmi sé tekið. Það er heldur ekki það sama að brjóta á sér fótinn og það að vera með kvef.

Auðvitað eru þetta öfgar en mér finnst þetta vera svona.

Geðræn vandamál til dæmis hjá alkóhólistum og eiturlyfjaneitendum eru staðreynd. Það gerir hins vegar þetta fólk ekki að verri manneskjum.

Margir öryrkjar stríða við depurð og vonleysi sem byrja oftar en ekki vegna hinna skelfilegu kjara sem þeim eru búin og hvernig komið er í veg fyrir að þeir, ef þeir hafa einangrast, komist aftur út í samfélagið. Margir öryrkjar sjá ekki dagsbirtu næsta dags og svartnættið er algjört og eina leiðin sem þeir sjá út úr þjáningunni er að svifta sig lífi.

Eldri borgarar sem eiga aldrei fyrir mat síðustu daga mánaðarins og geta oftar en ekki leyst út lyf sem þeir þurfa nauðsynlega til þess að geta haldið áfram að tikka í tilverunni eru líka oft það örvæntingarfullir að þeir sjá þann kost einan að taka lífið sitt, kannski það eina sem þeir eiga eftir og hafa yfirráð yfir.

Sálfræðingar eru til þess að hjálpa þeim sem eiga við geðræna kvilla að stríða.

Geðlæknar eru einnig til þess að hjálpa þessum sjúklingum og þegar ég var að læra sálfræði fyrir mörgum árum var mér sagt að munurinn á sálfræðingi og geðlækni væri að læknirinn gæti gefið lyf en fræðingurinn ekki.

Líklega eru fáir sem komast í gegnum lífið án þess að verða fyrir geðrænum áföllum einhvern tíman á ævinni. Sumir eru heppnir og fá hjálp til þess að vinna úr málunum og aðrir eru óheppnir og fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa og sjúkdómurinn grasserar þar til hann verður meira og minna óviðráðanlegur.

Einstaklingurinn sem ég eyddi af Facebook lista mínum er í hópi þeirra sem líklega er löngu hættur að ráða við sjúkdóminn og kannski veigrar fólk sér við að grípa inn í og aðstoða viðkomandi. Þegar ég fékk vinabeiðnina hugsaði ég mig vel um áður en ég samþykkti viðkomandi. Mér þykir vænt um þennan einstakling og þekki hann nokkuð vel persónulega.

Það sem gerði útslagið og ég blokkaði þennan sjúka einstaking var þegar farið var að ráðast á mig persónulega með lygum. Sjúkdómurinn var greinilega komin á það stig að ég þurfti að forða mér því hver getur tekið ábyrgð á minni geðheilsu annar en ég sjálf?

Ég dáist að fólki sem hefur kjark og dug til þess að leita sér hjálpar og hefur tækifæri til þess að fá hjálp. Það eru því miður ekki allir. Margir sem eru orðnir öryrkjar hafa ekki efni á því að sækja sér dýra hjálp. Þannig býr þjóðfélag einnar ríkustu þjóðar heimsins að þeim sem eru veikir. Það er ekki sama að vera Jón og séra Jón á þessu ágæta forríka landi.

Ég finn til með þeim sem ekki geta einhverra hluta vegna fengið hjálp.

Geðræn vandamál eru ekkert annað en sjúkdómar rétt eins og krabbamein og aðrir áþreifanlegir kvillar. Þeir sem eiga við geðræn vandamál að stríða eru ekkert minna virði í huga mínum. Þjóðfélagið þarf að hjálpa því fólki rétt eins og sett er gifs á brot eða gefin lyf við háum blóðþrýstingi, svo dæmi séu nefnd.

Þegar ég samþykki fólk á vinalista minn á Facebook skoða ég upplýsingarnar sem fólkið gefur áður en ég samþykki það. Stundum eyði ég vinum af Facebook og stundum held ég í þá. Það fer allt eftir því hvort mér finnst eitthvað sameina okkur og ef ekki þá eyði ég þeim út. Það hefur ekkert að gera með hvort fólk er með einhverja líkamlega eða andlega kvilla í farteskinu. Það fer eftir því hvort vinirnir eru til þess að byggja mig upp eða draga mig niður.

Ég eyddi þessum einstaklingi sem ég talaði um í byrjun vegna þess að ég hef reynt að hjálpa en ekki tekist og aðrir þurfa að taka við. Ég óska þessum einstaklingi alls hins besta og vona svo sannarlega að hann fái hjálp.

Við erum öll með einhvers konar vandamál á bakinu sem tengjast andlegri líðan okkar. Ég þekki ekki eina manneskjum sem hefur ekki orðið fyrir einhverju í lífinu. Fólk er bara ekkert að bera þau vandamál á torg og persónugera á aðra. Þegar það ferli hefst forða ég mér.

Ég óska öllum bata, hvaða sjúkleika sem þeir eru að fást við, hvort sem það er andleg heilsa eða líkamleg. Ég vildi óska að stjórnvöld á Íslandi sæu að sér og settu fjármagn til þess að aðstoða þá sem þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda, hvaða sjúkdóma sem um er að ræða. Hvort sú von rætist er svo allt annað mál.

Hafi ég sært einhvern vina minna með því að segja frá að ég eyddi sjúklingi af lista mínum þá bið ég innilega fyrirgefningar og það var ekki meiningin. Meiningin var að sýna fram á að við höfum val um hverja við viljum hafa í kringum okkur hvort sem það er í netheimum eða hinu raunverulega daglega lífi.

Hulda Björnsdóttir

 

 

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: