21.nóvember 2018
Góðan daginn
Hér í Penela eru sýnishorn af veðri á 10 mínútna fresti. Það rigndi eins og allt væri að fara til fjandans í nótt og ég vaknaði upp klukkan 3 og hélt að nú færi allt á flot hjá mér, sem það gerði auðvitað.
Eftir svefnlitla nótt þá er eitt og annað sem mér liggur á hjarta en ég ætla nú einu sinni að reyna að einbeita mér að einu!
Í marga mánuði, og jafnvel ár, hef ég andskotast yfir bulli í ýmsum framámönnum þegar þeir hafa verið að tala um heimilisuppbót sem part af eftirlaunum frá TR.
Árangur hefur ekki verið mikill. 60 þúsund rúmlega sem heita heimilisuppbót skjóta upp kollinum hér og þar á tyllidögum.
Hvernig er hægt að fá fólk til þess að hætta þessu bulli og hætta að tala um félagslega aðstoð sem part af eftirlaunum? hef ég spurt aftur og aftur.
Svo gerist þetta:
Wilhelm Wessman skrifar og segir frá því að hann sé að hugsa um að skilja við konuna sína því þá fái þau hvort um sig rúmlega 60 þúsund krónum meira á mánuði frá TR.
Hann þyrfti reyndar að flytja frá henni og mætti alls ekki heldur búa hjá börnum sínum. Þau yrðu bæði að holast einhvers staðar alein til þess að fá þessar rétt rúmu 60 þúsund, sem svo auðvitað mundu skerðast hjá Willa þar sem hann fær greiðslur frá Lífeyrissjóði og eins og við vitum erum þær greiðslur notaðar til þess að niðurgreiða TR.
Ég hef ekki mikla trú á því að Willi og konan hans séu í alvöru að fara að skilja vegna þessara smáaura.
Hins vegar hefur honum tekist að vekja athygli á hversu fáránleg þessi heimilisuppbót er og það helgar svo sannarlega meðalið. Grein hans hefur verið deilt um allar trissur.
Frábært, nú eru margir að tala um fyrirbærið og hve rangt þetta fyrirkomulag er.
Ég vona svo sannarlega að Wilhelm fylgi þessu eftir og komi með tillögu um að eftirlaun verði þau sömu fyrir alla hvort sem þeir eru giftir eða ekki. Félagslegir pakkar eru fínir og eiga fullan rétt á sér en ekki til þess að mismuna fólki eftir hjúskaparstöðu eða búsetu.
Já, já, ég veit vel að þessi bót var sett til þess að hjálpa þeim sem búa einir af því það er dýrara en að búa fleiri saman. Það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta er félagsleg aðstoð en ekki eftirlaun.
Hverjum dytti til dæmis í hug að tala um bílastyrk sem part af eftirlaunum frá TR?
Eins og þið sjáið hefur mér tekist þó nokkuð vel að einbeita mér að einu atriði og til þess að detta ekki í fleira hætti ég núna. Ég verð þó að segja að í allri umræðunni um þessar bévaðans heimilisuppbót er ALDREI talað um okkur ræflana sem búum ein í útlöndum og höfum samt greitt skatta og skyldur í 40 ár eða meira til íslenska ríkisins. Við fáum ekki heimilisuppbót. Við vorum svo ósvífin að taka þann kost að búa ekki við sult og seyru á Íslandi síðasta sprett ævinnar og auðvitað er sjálfsagt að taka upp vöndinn og refsa svoleiðis fólki. Skárra væri það nú.
Hulda Björnsdóttir