Opið bréf til frú Ingu Sæland

19.nóvember 2018

Opið bréf til Ingu Sælands formannsFlokks fólksins sem nú er komin með í launaumslagið sitt samkvæmt vef Alþingis í September 2018 eftirfarandi:

1.651.791 kr. fastar mánaðarlegar launagreiðslur

70.000 kr. fastar mánaðarlegar kostnaðargreiðslur

93.857 kr annar kostnaður

Þar sem þú ekki svarar bréfum sem ég hef sent til þín hef ég þetta opið bréf mér til þægindaauka.

Eftir að hafa horft á þig frú Inga Sæland tala á kaffifundi í flokki þínum á sunnudaginn var verð ég að segja eftirfarandi:

Á meðan ég hlustaði leið mér eins og ég væri komin á fund í Betel og væri að hlusta á predikara þar, ég hlustaði ekki alveg til enda, hreinlega gat það ekki sálarheillar minnar vegna.

Þú talar um græðgispunga og ert þá að tala um alþingismenn sem eru ekki í Flokki fólksins, hlýtur að vera. Eruð þið í Flokki fólksins sem eruð á þingi þá græðigispíkur?

Mér finnast laun ykkar bara nokkuð rífleg svo ekki sé meira sagt.

Þú segist tala tungu þjóðarinnar. Ég ætla að frábiðja mér að málflutningur þinn sé tunga mín eða samstíga mínum hugsunum og málfari.

Þú heldur því fram að þú ein og þinn flokkur séuð að berjast fyrir bættum kjörum fólksins í landinu.

Ég bendi þér á að hlusta á nokkra þingmenn sem hafa tekið til máls bæði á Alþingi og í fjölmiðlum undanfarna daga og eru virkilega að tala máli þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu og þurfa ekki að beita lýðskrumi sem virðist vera uppi á borði hjá þér háttvirt þingpersóna.

Þú fórst enn eina ferðina með langa rullu um hvernig lífeyrissjóðirnir steli staðgreiðslunni af lífeyrissjóðsgreiðslum okkar og skrifar um sama mál í Morgunblaðinu.

Þú segir að lífeyrissjóðirnir haldi eftir staðgreiðslunni af framlagi okkar í lífeyrissjóði þar til þeir fara að greiða okkur eftirlaunin (lífeyrissjóðsréttindin).

Ég hreinlega skil ekki hvað þú ert að tala um en ætla að reyna að útskýra fyrir þér hvernig þetta gengur fyrir sig hjá vinnandi fólki þegar það fær greidd launin sín og hvernig staðgreiðsla er reiknuð.

Ég gef mér að einstaklingur sé með 300 þúsund króna mánaðarlaun.

Hann borgar 4% í lífeyrissjóð á mánuði sem gerir krónur 12.000 á mánuði

Þessar 12 þúsund krónur dragast frá launum og út kemur 288.000 sem er stofn til útreiknings staðgreiðslu sem er 36,94%, samasem 106.387 krónur mínus persónuafsláttur kr.53.895 semsagt staðgreiðsla krónur 52.492

Launaseðillinn er þá svona

300.000 kr. heildarlaun

Mínus 4% gr í lífeyrissjóð kr. 12.000

(Stofn til stgr.skatta krónur 288.000)

Mínus 52.492 krónur greiddar í stgr.skatta

Útgreidd laun samtals: 235.508 (bendi ég á að launþeginn borgar félagsgjald líka sem ég tek ekki hér því það er ekki til frádrattar við útreikning skattsins.)

Auðvitað er þetta dæmi kannski of flókið fyrir þig frú Inga en þú ættir að geta séð að þessi launþegi hefur EKKI greitt staðgreiðslu af framlagi sínu til Lífeyrissjóðsins. Launþeginn greiðir staðgreiðslu þegar hann fer að fá greidd eftirlaun og þá greiðir hann stgr. af þeirri upphæð sem hann fær sem lífeyri.

Ég sé ekki að sjóðurinn sé að halda eftir staðgreiðslu sem aldrei hefur verið greidd, eins og þú heldur fram. Hvaða staðgreiðslu ertu að tala um sem sjóðirnir eru að halda eftir? Eins og sést á launaseðlinum greiddi launþeginn ekki staðgreiðslu af framlagi sínu til lífeyrissjóðsins.

Hvaða staðgreiðslu ertu að tala um?

Þú hefur verið spurð að þessu áður og fátt orðið um svör. Kannski hefur þingmaðurinn lært eitthvað á þessum 2 árum.

Eftirfarandi er tekið af síðu Lífeyrissjóðs VR og skýrir hvernig skattar eru reiknaðir út og skilaskildu sjóðsins

Lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar eins og aðrar launatekjur.

Frá 1.1.2018 verður tekjuskattur einstaklinga eftirfarandi:

–           Af fyrstu 893.713 kr.            36,94%

–           Af fjárhæð umfram 893.714 kr.     46,24%

Það er á ábyrgð hvers lífeyrisþega að tilkynna í hvaða skattþrepi tekjuskattsgreiðslur eiga að vera. Nauðsynlegt er að upplýsa sjóðinn um tekjur frá öðrum aðilum en lífeyrissjóðnum, svo greiðslur frá honum skattleggist í réttu skattþrepi. Ekki þarf að hafa samband við sjóðinn ef greiðslur frá öðrum að viðbættum greiðslum frá lífeyrissjóðnum eru lægri en 893.713 kr. á mánuði.

Sjóðurinn sér um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Persónuafsláttur

Persónuafsláttur árið 2018 er 53.895 kr. á mánuði

Skattkort lækkar skattinn því það veitir rétt til persónuafsláttar á staðgreiðsluári. Eigi lífeyrisþegi ónýttan persónuafslátt er mikilvægt að afhenda sjóðnum skattkort.

Lífeyrisþegar geta nýtt allt að 100% af ónýttu skattkorti maka til skattalækkunar.

Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Skattleysismörk miðað við lægsta skattþrep

Skattleysismörk lífeyrisþega eru 145.899 kr. á mánuði og eru fundin með því að deila persónuafslættinum 53.895 kr. með skattprósentunni 36,94%.

Dæmi um skattkort

Lífeyrisþegi sem er með 50.000 kr. á mánuði í lífeyri þarf að afhenda sjóðnum 35% skattkort til að þurfa ekki að greiða staðgreiðslu. (50.000 kr. x 0,3694 / 53.895 = 0,343)

Nánari upplýsingar um skatta má finna á heimasíðu RSK

Lýðskrum er ágætt fyrir þá sem gleypa það. Það er líka flott að gráta sig inn á þing en þegar kjörinn fulltrúi talar um samþingmenn sem ÞETTA eins og þú gerðir á kaffifundinum sem ég hlustaði á er eitthvað meira en lítið að málflutningi og virðingu þess sem er að tala.

Líklega hefur þú flutt samskonar ræðu á hinu háa Alþingi í dag og líklega á ég eftir að hlusta á þá ræðu með æluna upp í kok rétt eins og þegar ég les hástemmd skrif í blöðum eða hlusta á útvarpsviðtöl.

Ég held að það sé ráð að linni.

Mál fólksins í landinu eru í höndum þeirra sem sýna kurteisi en eru ákveðnir og hlustaði ég á nokkur slík undanfarna daga bæði á þingi og í sjónvarpi en því miður var það ekki frá þínum flokki.

Laun þín eru ábyggilega verðskulduð en þú skalt ekki tala um þig sem eina of okkur sem hálf sveltum á meðan þú nýtur frábærra kjara sem þingmaður og flokksformaður.

Það getur vel verið að þú verðir aftur ein af okkur við næstu kosningar, ég veit ekkert um það, en legg til að þú kynnir þér enn eina ferðina málefni lífeyrissjóðanna áður en þú heldur aðra BETEL ræðu.

Virðingarfyllst

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: