13.nóvember 2018
Góðan daginn
Þann 8. þessa mánaðar sendi ég bréf til allra þingmanna á e-mail adressur þeirra.
Við erum núna að ljúka árinu 2018 og nútíma samskiptatækni ætti að vera í lagi.
Fljótlega fékk ég svar frá einum þingmanni, kurteist og sýndi mér að hann hafði lesið það sem ég skrifaði.
Þetta var eina svarið sem ég hef fengið og er ég frekar fúl.
Hvaða þingmenn hafa svo svarað mér í dag þann 13.nóvember?
Flokkur fólksins – Ekki einn einasti
Miðflokkurinn – Ekki einn einasti
Framsóknarflokkur – Ekki einn einasti
Píratar – Ekki einn einasti
Viðreisn – Ekki einn einasti
Vinstri græn – Ekki einn einasti
Samfylkingin – Ekki einn einasti
Sjálfstæðisflokkurinn – Einn þingmaður hefur svarað
Það kom mér á óvart að fá svar frá einum sjálfstæðismanni. Einn af þeim svaraði mjög kurteislega og ég varð mjög hissa svo ekki sé meira sagt.
Það kemur mér á óvart að Flokkur fólksins skuli ekki hafa látið svo lítið að segja mér að minnsta kosti að éta það sem úti frýs. Nei þessi flokkur sem gaf sig út fyrir að vera flokkur litla mannsins er líklega flokkur stóra mannsins þegar öll kurl koma til grafar.
Það kemur mér á óvart að þingmenn sem þiggja laun sín frá okkur skattgreiðendum skuli ekki láta svo lítið að svara bréfum sem þeim eru send með nútímatækni.
Nú ætla þessir sömu þingmenn að fá sér 17 aðstoðarmenn ofan á alla sem fyrir eru, þessir kjörnu fulltrúar sem láta ekki svo lítið að svara bréfi frá venjulegri íslenskri konu sem býr erlendis og hefur þess vegna ekki tök á að standa fyrir framan þinghúsið og afhenda hinum háæruverðugu kjörnu fulltrúum bréfið í eigin persónu.
17 nýjir aðstoðarmenn kosta offjár.
Eru þessir nýju aðstoðarmenn nauðsynlegir?
Getur verið að þeir fari að svara bréfum fyrir þingmennina?
Hvað er að gerast í þinghúsinu?
Jú, nú er búið að leggja niður Kjararáð sem bjó til launataxta fyrir þingheim. Hverjir taka nú við hjólinu og skammta þessum yfirhlöðnu þingmönnum laun í framtíðinni?
Getur það verið að það verði þingheimur sjálfur?
Hafið þið hugleitt hvernig launakjörin þeirra verða þegar þeir sjálfir setjast niður og meta hið ógurlega álag sem fylgir því að vera þingmaður?
Hafið þið hugleitt allar aukagreiðslurnar sem þeir fá og hafið þið opnað augun fyrir því hverjir það eru sem ákveða aukasporslurnar? Þingheimur sjálfur ákveður þær og skammtar ríflega þar sem þau sem sitja í forsætisnefnd þingsins vita svo vel hvað það er erfitt að vera þingmaður og sinna starfi sínu vel og hvað það er til dæmis mikilvægt að geta gefið rósir og haft frían síma og internet og skrifstofu ásamt dagpeningunum og ferðastyrkjunum og húsnæðisbótunum og öllum fríunum. Ég gæti haldið áfram en læt þetta nægja.
ÉG ER ÖSKUREIÐ Í DAG OG TILFINNINGIN SEM ER EFST HJÁ MÉR ÞEGAR ÉG HUGSA UM ÞINGHEIM ER FYRIRLITNING.
Kjörnir fulltrúar sem skyrrast ekki við að ljúga að kjósendum og lofa öllu fögru sem þeir vita svo sannarlega að þeir ætla ekki að standa við þegar komið er inn á þingið eru í huga mínum í dag ekki hátt skrifaðir.
Kjósendur eru auðvitað fífl að láta blekkjast aftur og aftur af fagurgalanum en ábyrgðin er þeirra sem bjóða sig fram til Alþingis.
Ég hlustaði á viðtal við formann landssambands eldri borgara þar sem hún var að útskýra hvað starfshópur sem hún er í hefur fundið út varðandi kjör sumra eldri borgara. Verið er að greina ástandið eina ferðina enn.
Hvað verður svo gert í framhaldi af þessu dæmalausa nefndarstarfi?
Jú, það verður að sjá til þess samkvæmt frú Þórunni að fólk geti verið með í þjóðfélaginu og í því felst helst að geta gefið gjafir og farið í leikhús. Hvernig verður séð til þess að þetta gangi upp?
Ég þori að hengja mig upp á að eitthvað svipað og “heimilisuppbót” fyrir suma verður sett á laggirnar. Félagsmála pakki fyrir útvalda. Eins og allir vita sem vilja vita hefur heimilisuppbót verið notuð á tyllidögum til þess að sýna hve há eftirlaun eru frá TR. Heimilisuppbót hefur verið hækkuð mun meira en eftirlaun frá TR, að sjálfsögðu, það er hægt án þess að koma mjög við kaunina á BB og co þar sem fáir hafa þessa félagslegu aðstoð. Auðvitað verður að gæta þess að auðmennirnir gjaldi ekki fyrir einhverja vitleysinga sem hafa vogað sér að verða 65 ára eða eldri.
Ég hef ekki mikla trú á formanni LEB og hef aldrei haft. Hún hefur sýnt það í störfum sínum fyrir láglaunafólk að skilningur hennar er takmarkaður í þjóðfélaginu í heild og þegar hún heldur áfram að tugga um gjafir og leikhús á meðan fólk á ekki fyrir mat er ekki von á góðu enda konan komin vel við aldur og ætti líklega að fara að setjast í helgan stein og hætta að gjamma.
Ég er hundfúl í dag.
Ég er reið við þingheim fyrir dónaskap sem 62 þingmenn hafa sýnt mér svart á hvítu með þögn.
Ég er auðvitað ósvífin að láta skoðun mína í ljós en þar sem ég á ekki eftir að lifa í 50 ár þá er mér eiginlega sama hvað öðrum finnst.
Ég er smátt og smátt að fyllast af fyrirlitningu þegar ég hugsa um þá sem stjórna landinu og skara endalaust að eigin köku, líklega allir sem einn.
Hulda Björnsdóttir