Stormurinn heltók landið

14.október 2018

Góðan daginn gott fólk.

Ég veit að margir íslenskir vinir mínir voru áhyggjufullir vegna ofsaveðursins sem gekk yfir litla landið mitt í nótt.

Klukkan rúmlega 10 í gærkvöld fór rafmagnið af í litla bænum mínum og enginn sími og internet.

Nú er kominn sunnudagur og veðrið gengið niður að mestu.

Ég viðurkenni fúslega að í gær var ég kvíðin. Ég kveið fyrir ofsarokinu sem hefur komið hér stundum á þessum tæpum 8 árum sem ég hef búið hérna en nú vissi ég að það sem hafði dunið yfir áður gæti verið smámunir miðað við það sem í vændum var.

Reyndin varð líka sú. Rokið sem dundi á í nótt og gærkvöld var eins og það versta sem ég upplifði í Kína.

Upp úr klukkan 9 í gærkvöld var farið að hvessa verulega og vandræðin byrjuð í Porto. Portó er þó nokkuð fyrir norðan mig, um það bil 200 km í norður. Ég sá í fréttunum að tré væru tekin að falla í borginni og rigning og rok vaxandi.

Það færðist yfir mig einhver undarleg ró og ég vissi að ég hafði gert allt sem ég gat til þess að verjast ófreskjunni og nú var bara að vona hið besta og sitja veðrið af sér.

Einhver spurði mig hvort ekki væri hægt að fara eitthvað í skjól, til dæmis í shelters eða bara eitthvað? Nei það er ekkert svoleiðis hér. Við björgum okkur bara sem best við getum þar sem við erum niðurkomin.

Upp úr klukkan 10 skall rokið á með ofsaþunga í bænum mínum og rafmagnið fór, ég vissi að nú væri líklega vonin það eina sem eftir væri í bili.

Það hristist allt og skalf, rigningin lamdi glugga og veggi og ef eitthvað lauslegt var einhvers staðar þaut það af stað með ofsahraða. Sem betur fór virtust íbúar götunnar minnar hafa búið sig undir ófreskjuna og flestir tekið allt lauslegt inn en bílarnir stóðu úti og svo auðvitað gróðurinn. Það var ekki hægt að færa trén. Nú reyndi á hversu sveigjanleg þau yrðu.

Eins og ég hef stundum sagt frá þá eru allar rafmagnslínur á lofti og strengdar inn á milli trjánna og staurarnir trjábolir. Það örlar aðeins á því að farið sé að leggja nýja staura sem eru steyptir en það er algjör undantekning. Í stormi og skógareldum vitum við að rafmagnið muni fara og síminn detta dauður líka. Þetta er bara svona hérna í litla landinu mínu.

Með morgninum, um sexleitið, fór að lægja og þá var loksins kominn tími til þess að geta sofnað. Vökunótt er ekkert til þess að tala um í svona ástandi. Það er hægt að bæta sér svefninn, hitt er verra að tjónið sem orðið er verður í sumum tilfellum ekki bætt og er undarlegt að minnast þess að 15. Október í fyrra geysuðu hrikalegir skógareldar fyrir norðan og tugir manna létu lífið og ótal hús eyðilögðust.

Að þessu sinni voru það ekki eldar sem lögðu heimili í rúst og slösuðu fólk, það var stormurinn og rigningin.

Þau svæði sem verst urðu úti í nótt voru Coimbra, svæðið sem ég tilheyri, Aveiro, Viseo og Leiria.

Þjóðvegir hafa lokast vegna trjáa sem liggja þvert yfir. Vegirnir verða auðvitað opnaðir fljótlega en vatnsskemmdir á húsum til dæmis í Coimbra eru miklar og heilu trén féllu á húsin og eyðilögðu hús og bíla, vítt og breitt um landið.

Figueira da Foz varð mjög illa úti. Þar æddi sjórinn upp á landið og eyrði engu.

Ég gæti haldi áfram að telja upp allt það sem gerðist en læt þetta duga.

Vinkona mín hringdi í mig í morgun og grét í símann, hún sagðist aldrei á ævinni hafa upplifað annað eins og var skelfingu lostin. Hún og fjölskylda hennar eru heil á húfi og það er einhvern vegin það sem mestu máli skiptir. Það liggja niðri rafmagnslínur um allt hjá þeim en EDP vinnur hörðum höndum nótt og dag til þess að koma fólki í samband aftur.

Einhverjar skemmdir eru á blokkinni minni. Veggurinn á næstu hæð fyrir ofan mig hefur sprungið á þtemur stöðum í látunum og gætu verið fleiri skemmdir en mér fannst nóg að skoða þessa hæð í morgun. Það flæddi ekki inn í bílageymsluna sem var gott mál en við íbúarnir bjuggumst hálft í hvoru við því.

Í morgun fór ég í göngutúr um þorpið, rétt um 10 leytið. Ég lagði af stað í nokkuð fallegu veðri en á miðri göngunni skall á hellirigning og rok. Ég kom heim holdvot og veðurbarin en sólin var farin að skína þegar ég gekk síðasta spölinn niður götuna mína. Ótrúlegar sviftingar og hafa þær haldið áfram í dag.

Kirkjugarðurinn fallegi er í rúst. Þar hafa legsteinar og blóm fokið út í veður og vind og verður sárt fyrir aðstandendur sem sjá vel um fólkið sem er farið að horfa upp á skemmdirnar. Auðvitað verður þetta allt lagfært en sorgin er ábyggilega mikil.

Ég gekk fram hjá húsi nágranna minna, þau búa í blokkinni, en eiga stórt fallegt hús á öðrum stað í bænum. Í kringum húsið var allt í rúst. Tré og runner, blómapottar og hengirunnar, allt brotið og bramlað.

Það er mikið af skiltum sem segja að íbúðir og hús séu til sölu hangandi utan á húsum. Þessi skilti eru ekki lengur heil, vindurinn hefur svift þeim í marga parta.

Út um op á húsi sem verið er byggja ekki langt frá mér héngu einangrunarplöst og alls konar plöst. Þetta voru eins og saur pokar utan á manneskju. Ótrúlegt en satt. Grindur sem voru fyrir öðru húsi sem er í byggingu lágu á miðri götunni. Byggingaverktakinn var að renna í hlað til þess að fjarlægja grindurnar þegar ég kom labbandi.

Íbúar voru í óða önn að sópa upp laufum og greinum af stéttunum sem liggja að húsunum. Sumir höfðu orðið fyrir vatnstjóni og aðrir virtust vera með brotna glugga.

Fallegu stóru appelsínurnar sem ég hef verið að gefa auga undanfarnar vikur fyrir utan elliheimilið lágu út um alla gangstéttina. Stóra fallega tréð á hringtorginu sem liggur við götuna sem ég geng venjulega var í rúst. Greinarnar lágu út um allt.

Núna, þegar ég skrifa þetta er himininn grár og ylgdur og sést varla í fjöllin fyrir framan mig.

Svona dagar líða líklega ekki úr minni. Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ofsarokin skullu á húsinu mínu í Kína og pálmatrén og eiginlega öll tré voru rifin upp með rótum og lágu eins og hráviður út um alla eyjuna.

Nóttin í nótt verður vonandi sú síðasta á þessu ári þar sem veðurguðirnir steyta hnefann framan í okkur mannfólkið sem hlustum ekki á hljóðin sem biðja okkur um að hlífa jörðinni og hætta að spúa eitri út í loftið og eyðileggja heiminn.

Kæru íslensku vinir, sem höfðu áhyggjur af mér og senduð mér hlýja strauma, ég þakka ykkur fyrir og veit að góðar hugsanir á erfiðum stundum eru gulli betri.

Nú heldur lífið áfram og ný vika framundan með fallegum haustdögum og viðurinn kemur í hús í vikunni svo hægt verður að kveikja upp í arninum og hlýja íbúðina þegar kuldinn læsir klónum í gegnum hola veggina. Það er góð líkamsrækt að bera viðinn upp á aðra hæð og ætti að styrkja heilsuna. Standi ég á öndinni á miðri leið eru góðir nágrannar á næsta strái sem draga mig að landi eins og svo oft áður.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: