- október 2018
Á Alþingi er nú frumvarp um afnám skerðinga krónu á móti krónu hjá örykjum.
Því miður eru ekki miklar líkur á því að frumvarpið verði samþykkt þar sem það er flutt af stjórnarandstöðunni.
Ég hef aldrei skilið þetta fyrirkomulag að frumvörp flutt af stjórnarandstöðu nái svo til aldrei fram að ganga.
Góð mál ættu að fá brautargengi hvaðan sem þau koma.
Stundum er það bara venjulegt fólk sem kemur með tillögur að frumvörpum og skrifar jafnvel góða greinargerð með þeim en ef það er ekki borið upp af stjórnarliðum og samþykkt í þingflokkum stjórnarflokka þá er málið dautt.
Þetta er voðalega einkennilegt finnst mér.
Þegar nýju lögin um Almannatryggingar voru lögð fram var í þeim ákvæði um krónu á móti krónu skerðingu bæði hjá öryrkjum og eldri borgurum.
Fyrir nýju lögin hafði frítekjumark hjá eldri borgurum verið 109 þúsund.
Rétt fyrir samþykkt laganna vatt ríkisstjórnin sér í að breyta krónu á móti krónu skerðingunni hjá eldri borgurum í 25 þúsund krónu frítekjumark. Frá 109 þúsund niður í 25 þúsund. Vel af sér vikið hjá Bjarna Ben og Co.
Samskonar leiðrétting, ef leiðréttingu skyldi kalla, var ekki gerð hjá öryrkjum.
Þeir áttu að fara í starfsgetumat.
Starfsgetumat var eitthvað fínt sem stjórnin hafði fundið og nú var komin leið til þess að henda út öryrkjum sem “nenntu ekki að vinna”, að áliti stjórnvalda.
Öryrkjar samþykktu ekki þetta mat.
Þeir reyndu að sýna fram á að þetta væri ekki raunhæf leið.
Jú, í starfsgetumat skuluð þið fara, hvað sem tautar og raular, sagði BB og co og króna á móti krónu skerðing var ekki felld niður hjá öryrkjum þegar nýju lögin um Almannatryggingar voru samþykkt.
Þessi nýju lög voru 10 ár í smíðum.
10 ár!
Mér hefði fundist að 10 ár hefðu átt að nægja til þess að opna augu þeirra sem að bákninu stóðu og leiða þeim fyrir sjónir að íslenskt atvinnulíf er ekki tilbúið til þess að taka við öryrkjum út á vinnumarkaðinn hvort heldur er í fullt starf eða hálft starf.
Ég minnist þess þegar rætt var við einn þingmann sem nú situr á Alþingi og hann spurður hvernig hann færi að ef hann þyrfti vegna örorku sinnar að vera frá þingstörfum, þá sagðist hann fá inn varaþingmann á meðan hann væri í veikindaleyfi.
Ekki eru venjulegir öryrkjar með varamenn sem geta tekið við og líklega yrðu þeir sendir heim ef þeir gætu ekki sinnt vinnunni eins og fullfrískt fólk og mundu auk þess missa vinnuna.
Ástandið á Íslandi hefur ekkert breyst. Það eru ekki til störf fyrir fólk með skerta starfsgetu að ég tali nú ekki um fólk sem komið er á eftirlauna aldur og er bara venjulegt verkafólk eða annað erfiðisvinnu fólk.
Íslenskt atvinnulíf vill ekki fólk yfir 50 ára gamalt í vinnu. Það vill yngra fólk og þeir sem eru komnir yfir 50 ár og láta sig dreyma um að skipta um starf eru í miklum vanda.
Í þessu þjóðfélagi er ætlast til þess að öryrkjar fari í starfsgetumat og út á vinnumarkaðinn í vinnu sem er EKKI TIL.
Á meðan örorkubætur eru skertar um krónu á móti krónu er ekki von til þess að öryrkjarnir fari út á vinnumarkaðinn, allavega ekki til þess að vinna löglega. Þetta er grafalvarlegt ástand og hefur í för með sér að öryrkjar eru fastir í gildru sem þeir komast engan vegin út úr.
Á meðan stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf í sameiningu sjá ekki til þess að öryrkjar geti farið út á vinnumarkaðinn og unnið eins mikið og þeir treysta sér til án þess að þurfa að borga til baka allan ágóðann, fjölgar öryrkjum.
Til þess að komast út úr öryrkja gildrunni verður fólk að geta bjargað sér án þess að vera refsað fyrir eins og nú er gert.
Ég hef ekki verið öryrki sjálf en ólst upp hjá móður sem var öryrki. Við bjuggum við sára fátækt og oft var ekki til matur fyrir okkur en móðir mín fór með mig sem ráðskona út í sveit á sumrin og þá fengum við nóg að borða. Ég þekki vel hvernig það er að fara til Félagsmálastofnunar yfir veturinn til þess að betla fyrir mat. Það voru erfið spor fyrir barnið þegar móðirin treysti sér ekki út fyrir dyr.
Ég hef séð örvæntinguna hjá öryrkjanum sem á sér enga viðreisnar von.
Ég veit ekki hvernig á að koma stjórnvöldum í skilning um að á meðan öryrkjanum er refsað fyrir að reyna að bjarga sér þá fjölgar þeim og sjálfsbjargarviðleitnin hverfur.
Starfsgetumat er ekki lausnin.
Þjóðfélagið er ekki tilbúið til þess að sjá þessum hópi fyrir vinnu í stórum stíl.
Nú eru skorin niður úrræði fyrir þennan hóp í stórum stíl. Úrræði sem gætu komið fólki aftur til lífsins og hjálpað því að komast upp úr örvæntingu þunglyndis sem stafar oft og tíðum af því að áhyggjur vegna sjálfsagðra mannréttinda eins og húsaskjóls og fæðis og klæða eru að gera út af við einstaklingana.
Andleg úrræði fyrir öryrkja og hjálp til þess að byggja upp sjálfið eru skorin niður eða hreinlega hætt.
Hjálparstofnunum er lokað í stórum stíl, þeim stofnunum sem geta byggt fólkið upp andlega og líkamleg uppbygging er eitthvað sem íslensk stjórnvöld virðast ekki skilja og heimska þeirra er svo dæmalaus að ég velti því fyrir mér hvort ekki væri gott fyrir þá sem setjast í stjórnarstólana að fara á násmkeið um endurhæfingu og andlega uppbyggingu. Á slíku námskeiði gætu hugsanlega opnast augu einhverra sem hafa vald til þess að breyta því sem breyta þarf.
Ég þekki þó nokkuð af öryrkjum sem hafa af ýmsum ástæðum misst þrek til þess að vinna við fyrri störf. Sumir eru útslitnir af því að lyfta sjúklingum. Aðrir hafa orðið fyrir slysum og enn aðrir þjást af ýmsum ástæðum af þunglyndi og tengdum sjúkdómum.
Ég þekki engan öryrkja sem vill vera öryrki.
Ég þekki ekki heldur allar gerðir öryrkja en ég er sannfærð um að íslensk stjórnvöld eru ekki að reyna að leysa vanda þessa hóps með því að refsa þeim fyrir að vilja ekki fara í starfsgetumat, sem er ekki alls staðar viðurkennt sem góð lausn, og láta þá greiða til baka krónu á móti krónu uppbætur, aðstoð og að ég tali nú ekki um ef þeir eru svo ósvífnir að reyna að komast inn í þjóðfélagið með því að vinna svolítið. Nei, allt skal rifið af þeim aftur.
Nú var flutt frumvarp um að þeir eldri borgarar sem vildu vinna eftir eftirlauna aldur ættu ekki að verða fyrir skerðingum. Þetta frumvarp er flutt af öllum stjórnarandstöðu flokkum.
Fyrir hverja er það? Jú, enn eina ferðina fyrir þá vel stæðu. Þetta frumvarp er ekki fyrir öryrkja sem verður eldri borgari þegar hann kemst á ákveðinn aldur.
Á sama tíma og krónu á móti krónu skerðing er í gildi fyrir öryrkja og 25 þúsund krónu frítekjumark er hjá venulegum eldri borgurum er flutt frumvarp um að þeir sem vilja og geta unnið löngu eftir eftirlaunaaldur eigi að sleppa við allar skerðingar, jafnvel þó þeir séu með 700 þúsund eða 2 milljónir á mánuði og fá fullar greiðslur frá TR í ofanálag.
Er eitthvað vit í svona þjóðfélagi?
Hvað eru þingmenn sem flytja frumvarp um frítekjur eldri borgara vegna atvinnu að hugsa? Hvað eru þessir þingmenn að hugsa varðandi skyldu greiðslur í lífeyrissjóði sem niðurgreiða það sem greitt er frá TR?
Hvað er eiginlega að þeim sem halda að öryrki sem situr uppi með launaumslag eftir vinnu sína, tómt, af því að TR skerðir hverja einustu krónu og tekur allt til baka?
Hvað er eiginlega að í íslensku þóðfélagi sem kýs aftur og aftur sama sukkið og heldur að eitthvað breytist?
Hvað er að í þjóðfélagi sem fór á höfuðið fyrir 10 árum og stefnir nú glaðbeitt að öðru hruni?
Lærir íslensk þjóð aldrei af mistökum sínum?
Þjóðflutningar til Spánar standa nú yfir, eldri borgarar og öryrkjar flykkjast þangað til þess að deyja ekki á Íslandi á sama tíma og þeir ríku maka krókinn endalaust með samþykki 63 þingmanna.
Hvað varð um baráttu fyrir bættum kjörum og viðsnúning frá fátækt og örbyrgð? Eru Íslendingar á leið í torfkofana aftur?
Ríkisstjórn Íslendinga!
Skammist þið ykkar ekki þegar þið leggist á koddann á kvöldin og vitið af fólki sem getur enga björg sér veitt og á engann kodda til þess að leggjast á?
Vitið þið ekki af fólkinu, venjulega fólkinu, í landinu þar sem þið hælið ykkur af hagvexti og gróða þegar þið farið til útlanda?
Líklega vitið þið ekkert um öryrkja annað en að þeir SKULU Í STARFSGETUMAT ellegar geti þeir étið það sem úti frýs sem er helkaldur klakinn nú þegar vetur gengur í garð í Fróni.
Hulda Björnsdóttir