- október 2018
Ég er argandi reið og ekki síður vonsvikin.
Frumvarp endurflutt frá því í fyrra.
Ég á varla orð yfir heimsku sumra. Að fólk skuli virkilega láta hafa sig út í að styðja svona bull er fyrir ofan minn skilning.
Flutningsmaður þessa frumvarps er Inga Sæland, sem hefur nú blokkað mig frá athugasemdum á Facebook.
Hvort henni tekst að blokka mig hér er áhugavert svo ekki sé meira sagt.
Þetta frumvarp er endurflutt frá fyrra þingi.
Fyrir hverja er þetta frumvarp?
Ekki er það fyrir fiskvinnslukonuna, eða verkakonuna eða sjúkraliðann. Allar þessar stéttir eru útslitnar og líklega ekki tilbúnar til þess að vinna fram í rauðann dauðann.
Ekki er það fyrir verkamanninn sem er slitinn af erfiðsstörfum og getur sig vart hrært á morgnana eftir svefnlitla nótt.
Ekki er það fyrir konur komnar yfir 70 sem hafa starfað hjá leikskólum sem leikskólastjórar. Þær fá ekki vinnu sem leikskólastjórar eftir 70.
Er allt í einu orðið takmarkalaust framboð af atvinnu fyrir fólk yfir 50 á Íslandi?
Hverjir eru það sem geta unnið eftir 65 ára aldurinn?
Jú, það eru til dæmis þeir sem reka eigin fyrirtæki.
Það eru þeir sem eru í forsvari fyrir félög eldri borgara.
Það eru semsagt þeir sem eru í fínum stöðum og hafa líklega nægilegt fjármagn fyrir sig til þess að lifa af eftir að þeir eru orðnir 65 ára.
Þetta frumvarp er enn eitt dæmið um hugsunarhátt alþingismanna.
Þeir virðast vinna fyrir hina betur stæðu í þjóðfélaginu og er alveg hjartanlega sama um hina.
Er eitthvað réttlæti í því að enn einu sinni eigi að hygla þeim sem hafa það fínt á kostnað þeirra sem eru bara rétt og slétt venjulegt fólk, venjulegt verkafólk til dæmis?
Til þess að kóróna skömmina á þessu frumvarpi er ekki einu sinni þak, nei allir sem vinna skulu njóta óskerts ellilífeyris frá TR, sama hvort tekjurnar eru 200 þúsund eða 2 milljónir.
Ég segi hingað og ekki lengra.
Ég mótmæli svona gjörningi
- löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 24 — 24. mál.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna).
Flm.: Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigurður Páll Jónsson, Birgir Þórarinsson.
- gr.
Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skulu atvinnutekjur ellilífeyrisþega ekki skerða ellilífeyri.
- gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2019 og koma til framkvæmda 1. febrúar 2019.
Greinargerð.
Málið var áður flutt á 148. löggjafarþingi (51. mál) en hlaut ekki brautargengi og er nú endurflutt óbreytt.
Í 31. gr. laga nr. 96/2017 er kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna skv. 23. gr. laga um almannatryggingar. Um er að ræða sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara sem kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 25.000 kr. á mánuði. 1 Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var m.a. gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Var þess í stað lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra. Þar áður hafði frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga gagnvart atvinnutekjum verið 109.000 kr. Eftir samþykkt laganna kom fram gagnrýni á þessa breytingu að því er atvinnutekjur varðar og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema skerðingar á atvinnutekjur eldri borgara.
Dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðið 23. nóvember 2017. Þar kemur fram að afnám skerðingar á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það sé vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.
Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Því er lagt til að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna sbr. 23. gr. laga um almannatryggingar.
Hér að ofan er hið dæmalausa frumvarp feitletrað fyrir ykkur.
Enn eina ferðina er gerð tilraun til þess að stagbæta meingölluð lög Almannatrygginga og er það gert með þá betur stæðu í þjóðfélaginu í huga. Ég hvet fólk til þess að lesa og íhuga alvarlega það sem sagt er um áframhaldandi vinnu eftir að ellilífeyrisaldri er náð í þessu dæmalausa frumvarpi.
Það er nýtt fyrir mér að allt sé vaðandi í vinnu fyrir fólk sem komið er yfir 65 ára á Íslandi. í öðrum löndum, siðmenntuðum löndum er lögð áhersla á að þeir eldri víki fyrir þeim yngri. Það er augljóst í huga mínum að fólk sem orðið er þreytt eftir áratuga strit hreinlega GETUR EKKI jafnvel þó það vildi farið út á vinnumarkaðinn.
Vinkona mín sem var leikskólastjóri, mjög vinsæl og góður stjórnandi, vogaði sér að verða 70 ára og henni var kastað út úr stjórastöðunni. Hún gat fengið vinnu sem starfsmaður á leikskólanum, henni var treyst til þess en henni var ekki treyst fyrir starfi sem hún hafði sinnt af alúð og verið vinsæl í.
Inga Sæland getur spjallað hátt og verið eins og helgibóla en mark er ekki takandi á orðum hennar um að hún sé fyrir “fólkið okkar”. Hennar fólk er ekki verkamenn og verkakonur. Hennar fólk er allt annað.
Ég er æfareið.
Hulda Björnsdóttir