5.október 2018
Þessa dagana er mikið í umræðunni hér á Facebook hjá sumum vina minna, undirskriftasöfnun sem 2 eldri borgarar ákváðu í snarhasti að skvera af stað!
Ég hef verið skömmuð fyrir að hunskast ekki til þess að skrifa undir og borið á brýn að vera ómerkileg og vilja ekki hag eldri borgara og öryrkja betri en hann er núna.
Það er ágætt að dæma fólk og skamma það en stundum er ágætt að skoða málið aðeins áður en svívirðingarnar falla.
Ég sagði strax að ég mundi ekki skrifa undir þennan lista og ekki dreifa honum. Ég rökstuddi mitt mál en sagði jafnframt að aðrir tækju sínar ákvarðanir.
Í 2 ár eða kannski meira hef ég skrifað grimmt um málefni eldri borgara og öryrkja, meira um málefni eldri borgara þar sem mér hefur fundist barátta öryrkja vera í nokkuð ákveðnum farvegi og forysta þar sinna málinu af alúð.
Forysta eldri borgara hefur brugðis, ekki bara þessi 2 ár, hún hefur brugðist í áratugi. Það er hálf hjákátlegt að sjá hvernig sumir hæla sér af því að hafa verið í baráttunni áratug eða meira og láta líta svo út að eitthvað mikið hafi unnist en skyndilega þegar viðkomandi hættir fari allt til fjandans.
Pólitík er andstyggileg. Ég fullyrði það fyrir mína parta. Kannski finnst einhverjum þessi tík dásamleg og mér er svo sem sama um það.
Pólitík er oftar en ekki svikin loforð sem gefin eru fyrir kosningar og svo gleymast þau eins og drukkið sé vatn þegar búið er að telja upp úr kössunum. Viðbjóðslegt og ekkert annað.
Svo ég komi aftur að því sem ég ætlaði að einbeita mér að í dag, það er undirskriftasöfnunin sem rúmlega áttræð kona setti af stað eiginlega bara alein eða þannig!
Alein var hún nú ekki, þó hún sé skráður ábyrgðarmaður. Björgvin og hún ákváðu allt í einu að nú skyldi þrammað af stað og undirskriftasöfnun sett á laggirnar. Einhver Jón var þeim innan handar, held ég.
Frúin er held ég einhvers konar listamaður og spákona. Mér sýndist þetta koma fram þegar ég gúgglaði frúnna.
Ég fann ekki mikið af skrifum um málefni eldri borgara frá henni en eitthvað smávegis þó.
Einhverjum datt í hug í upphafi að stinga upp á því að söfnunin væri kannski ekki alveg nógu vel orðuð og það mætti hugsanlega gera hana skýrari og þar með áhrifaríkari.
Jú, frúin athugaði máli, þá voru 900 manns um það bil búin að skrifa undir. Ekki hægt að breyta textanum sagði frúin því þá mundu þessir 900 detta út.
So what!
Sá sem var að skrifa frúnni kom meira að segja með tillögu að texta sem gæti verið áhrifaríkur.
Nei, þetta var komið á koppinn og ef viðkomandi vildi eitthvað segja um þetta frekar þá skyldi hann hafa samband við Björgvin, jafnvel þó frúin væri ábyrgðarmaður framtaksins.
Þetta er eiginlega hálf ömurlegt allt saman, finnst mér.
Nú eru nokkrir dagar eftir af fyrirbærinu og þá er allt í einu farið að senda út úm allar Trissur tilkynningar um málið og andskotast yfir því að ÞÖGGUN sé í gangi.
ÞÖGGUN!
Er það?
Mér fannst fyndið þegar ég sá að Herinn, þessi sem ég elska út af lífinu, eða þannig, hljóp til og setti málið á síðuna sína. Auðvitað gat herinn ekki setið undir því að hafa þagað málið í hel, eða hvað?
Einhver sagði að svona könnun þyrfti að vera vel undirbúin, vel kynnt, að baki henni þyrfti að vera fagmennska og kynningarapparat.
Ég er hjartanlega sammála þessu. Auðvitað er nauðsynlegt að gera eitthvað til þess að reyna að troða inn í haus þingmanna að bæta þurfi kjör eldri borgara og öryrkja. Þetta EITTHVAÐ þarf hins vegar að vera vel ígrundað, vel undirbúið og “meika sens” á góðri íslensku.
Það er ekki nóg að þjóta af stað eins og krakki og gera eitthvað.
Á tímum þar sem formaður félags eldri borgara, sem telur yfir 12 þúsund manns, rausar um að eldri borgarar hafi það bara fínt en það séu nokkrir sem hafi það kannski ekki alveg eins fint, og sami formaður er alsæll með væntanlegt samtal einhverntíman við forsætisráðherra, þá eru skyndi framkvæmdi EKKI LAUSNIN.
Sem betur fer er þessi blessuð könnun á enda innan fárra daga. Auðvitað verð ég áfram skömmuð fyrir að vera félagsskítur eða eitthvað enn verra.
Mér nokk sama.
Endalaus skrif um það sama: Það verður að leiðrétta kjörin strax! Eru svo grútmáttlaus að mér verður bumbult þegar ég hugsa um þau skrif.
Nú er búið að bæta inn í skrifin upplýsingum sem teknar voru úr mínum skrifum og ekki einu sinni haft fyrir því að setja ummælin innan gæsalappa.
Það er auðvitað fínt að ég leggi lið þeim sem eru kannski orðnir uppiskroppa með fjölbreytileika og ég á ekkert að vera að kvarta. Mér finnst þetta þó hallærislegt, en auðvitað er þetta ekkert annað en ómerkileg pólitík.
Fyrir liggur að í þessum mánuði verði lagt frumvarp á Alþingi á vegum ráðherra þar sem hann ætlar að halda áfram að stagbæta handónýt lög um Almannatryggingar.
Ég hef ekki séð múkk frá frú undirskriftaupphafsmanni eða aðstoðarmanni hennar, um það mál. Ekki múkk.
Kannski vita þau ekki af frumvarpinu.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig baráttu undirskriftar frúin setur af stað um þetta nýja frumvarp og ætla ég að fylgjast grannt með því.
Hulda Björnsdóttir