Sit ég hér enn hokin af reynslu – hoknari með hverjum deginum og berst á móti ranglæti sem eldri borgarar búa við

20.september 2018

Björn Leví bað um tillögur til leiðréttinga á lögum um almannatryggingar.

Erfitt getur verið að flíkka upp á bútasaumsteppi sem tekið hefur áratugu að lappa upp á en sumt er bara svo augljóst að saumnálin getur ekki annað en ratað í rétta átt og fyrir vikið verður teppið SKÁRRA.

Hér er einfalt dæmi:

Í 17. Greininni er talað um hálfan ellilífeyri og er það sem um hann er sagt feitletrað í tilvitnuninni hér að neðan.

Til þess að leiðrétta þetta hróplega misrétti og andstyggilegu gjöf til hinna vel stæðu á kostnað hinna er einfalt að flytja frumvarp um að það sem er feitletrað verði fellt niður úr lögunum.

Það ætti að vera auðvelt fyrir þingheim að skvera því í gegn því auðvitað sjá allir hversu alvarlega er verið að mismuna fólki með þessum gjörningi.

Auðvitað geri ég mér grein fyrir að formaður LEB hefur kvartað sáran yfir því að fyrirbærið væri ekki komið til framkvæmda og segir mér svo hugur að kannski hafi frúin einhverra hagsmuna að gæta þarna, annað hvort eigin eða skyldmenna.

Ég geri mér líka grein fyrir því að þingmenn ýmissa flokka eru uppteknir við Shengen og fleira því um líkt en kannski gætu þeir stigið eitt hliðarspor og opnað frá mér póst og gert það sem réttlátt er og mundi líklega spara ríkiskassanum nokkrar krónur.

Þetta ákvæði, sem er sannarlega gert til þess eins að auka misrétti í þjóðfélaginu, var sett inn í einhverjum fljótheitum á síðasta ári.

Áður en ég bugast algjörlega af réttlætiskennd til handa eftirlaunaþegum þá vona ég að þingheimur sjái sér fært að setja nú sparnaðarklukkuna í gang og skella svona frumvarpi til leiðréttingar á lögum um almannatryggingar inn í hítina og skvera þessu í gegn á mettíma.

Það eru væntanlega að koma kosningar bráðum og þá væri nú gott fyrir suma flokka að geta veifað slíkri leiðréttingu framan í sauðsvartan almúgann. Auðvitað mundi 30 prósentið, það bláa, ekki skipta um skoðun en það eru nokkrir aðrir litir í rófinu sem gætu notið góðs af.

Ég er eins og allir vita hokin af baráttu fyrir bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín. Með hverjum deginu verð ég hoknari og því miður hefur enginn talið mér það til tekna. Hoknir þingmenn, hoknir af reynslu, eru verðmeiri en ég og sætti ég mig alveg við það en finnst þó að þingheimur ætti að sjá sóma sinn í því að svara bréfum sem ég sendi þeim. Þeir sem láta sér detta í hug að kalla mig “MÍN KÆRA” ættu að hugsa sig tvisvar um. Ég læt ekki tala niður til mín oftar en einu sinni án þess að snúa mér við.

Þá er ekkert eftir í dag annað en skella lausninni inn og vellur hún hér á eftir og er til þess að auðvelda aðlinum að lesa, feitletruð.

Brettið upp ermarnar og sýnið að þið séuð ekki bara ómerkilegir froðusnakkar sem við höldum uppi á háum launum og flottum utanlandsferðum og blómahafi og símum og aksturspeningum og öllu hinu sem ég nenni ekki að telja upp í bili.

Tilvitnun:

Úr lögum um Almannatryggingar tekið af vef Alþingis í dag 20.september 2018

“17. gr. Ellilífeyrir.

[Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

Heimilt er að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins, sbr. 2. mgr. 23. gr. Heimildin er bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, sbr. þó 4. mgr. Umsækjanda skal þó vera heimilt að draga umsókn sína til baka innan 30 daga frá afgreiðslu umsóknar án þess að það hafi áhrif á rétt til hækkunar lífeyris. Hafi greiðsla lífeyris átt sér stað er full endurgreiðsla forsenda afturköllunar.

Heimilt er að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins, sbr. 3. mgr. 23. gr.

Heimilt er að greiða hálfan áunninn ellilífeyri samkvæmt lögum þessum frá 65 ára aldri til þeirra sem eiga rétt á ellilífeyri frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafa fengið samþykki viðkomandi sjóða til að taka hálfan lífeyri hjá þeim og fresta töku lífeyris að hálfu.

Heimildir skv. 3. og 4. mgr. eru bundnar því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um áunnin réttindi hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum, sbr. einnig 2. mgr. 52. gr., að teknu tilliti til hinnar varanlegu lækkunar skv. 3. mgr. 23. gr., verði að lágmarki jafnhár fullum ellilífeyri skv. 1. mgr. 23. gr.

Ákvæði 1.–5. mgr. eiga einnig við um heimilisuppbót samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Ráðherra skal setja reglugerð 1) um einstök atriði er varða framkvæmd þessarar greinar, m.a. um réttindaávinnslu og búsetutíma og sveigjanlega töku ellilífeyris.] 2)”

Tilvitnun lýkur.

Fróðlegt verður að sjá hve brátt menn bregðast við.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: