- September 2018
Gott kvöld
Nú gengur undirskriftalisti um facebook og fólk hvatt til þess að skrifa undir.
Upphafsmenn eru Björgvin Guðmundsson og Erla Magna Alexandersdóttir.
Eftir því sem fram hefur komið hjá Björgvin var Erla upphafsmaður og Björgvin aðstoðaði.
Erla er ábyrgðarmaður.
Ég hef áður lýst því yfir að ég muni ekki skrifa undir þennan lista og hef útskýrt hvers vegna og ætla ekki að gera það aftur.
Hins vegar sé ég ástæðu til þess að vekja athygli á því að hér er verið að blanda saman tveimur gjörólíkum málum.
Málefni eldri borgara og öryrkja eru gjörólík.
Ég er ekki með þessu að segja að eldri borgarar eigi ekki að styðja málefni öryrkja, þvert á móti.
Ég er að benda á að þessi mál eiga ekki samleið í baráttu. Öryrkjabandalagið er með góða baráttukonu í forsæti sýnist mér og er það vel.
Við í hópi eldri borgara eigum hins vegar handónýta baráttusveit í forsvari og þess vegna er hlaupið til í svona vanhugsaða framkvæmd eins og nýjasta undirskriftasöfnunin er að mínu mati.
Samkvæmt því sem Björgvin segir er Erla komin yfir áttrætt og hann er sjálfur hátt á níræðisaldri.
Ekki geri ég lítið úr eldra fólki, alls ekki, og tilheyri þeim hópi sjálf. Hins vegar þarf, þegar farið er í svona verkefni eins og undirskriftalisti er að hugsa málið vel og ganga úr skugga um að allt sé vel aðgengilegt fyrir alla sem tilheyra hópnum sem verið er að höfða til. Það hefur ekki verið gert í þessu tilfelli.
Nú hefur komið í ljós hvað eftir annað að fólk, eldra fólk, á erfitt með að setja nafn sitt undir listann jafnvel þó það vildi gjarnan gera það.
Agnúarnir eru of margir og fyrir suma óyfirstíganlegir.
Hitt sem er enn alvarlegra að mínu mati er að hér er verið að blanda saman tveimur hópum, öryrkjum og eldri borgurum og kjör þeirra eru á engann hátt sambærileg enda aðstæður ólíkar.
Eldri borgarar eru þeir sem komnir eru yfir ákveðinn aldur en öryrkjar eru á ýmsum aldri, upp að eftirlaunaladri. Öryrkjar eru í alls konar aðstæðum og eru þeir metnir eftir ákveðnum reglum og greiðslur fara eftir viðkomandi mati.
Eldri borgarar eru með einfaldar skilgreiningar og eru ekki metnir til tekna á sama hátt og öryrkjar. Þeir eru metnir eftir aldri og búsetu.
Ég vona að hin handónýtu samtök eldri borgara á Íslandi vakni við vondan draum og fari að beita sér fyrir bættum kjörum umbjóðenda sinna svo ekki þurfi fleiri upphlaups undirskriftalista.
Fólk er orðið þreytt á því hvernig farið er með eldri borgara og öryrkja ásamt því hvernig lág laun á vinnumarkaði halda stórum hópum þjóðfélagsins undir framfærsluviðmiðum. Það þarf að verða viðsnúningur í viðhorfi þeirra sem halda um stjórnartaumana og þetta blessaða alþingismannalið þarf að fara að hugsa um almúgann og hætta að maka krókinn.
Sem betur fer eru nokkrir þingmenn sem virðast enn vera niðri á jörðinni en þeir sem mestar vonir vour bundnar við hafa brugðist hrapalega og eru komnir í sama sukkið og hinir. Það er svo ágætt að tala fallega á góðum stundum og belgja sig yfir hinum minnstu bræðrum og fólkinu okkar á sama tíma og hirt eru ofurlaun án þess að blikna.
Líklega er landið að fara yfirum núna, aftur, og ný ríkisstjórn tekur við.
VERÐUR EINHVER BREYTING MEÐ NÝJUM STJÓRNARHERRUM?
Hef ekki trú á því, svo sorglegt sem það þó er.
Þjóðin kýs eins og þrælar enn og aftur spillinguna og sukkið.
Þannig blómstrar eina prósentið aftur og aftur og aftur.
Í litla landinu mínu segja þingmenn af sér ef þeir eru staðnir að lygi eða gróðasukki.
Á Íslandi, þar sem ég fæddist, eru menn verðlaunaðir með hæstu stöðum í þjóðfélaginu fyrir sömu brot.
Sinn er siður í hverju landi.
Hulda Björnsdóttir