21.ágúst 2018
Rétt eina ferðina enn hefur formaður FEB sest niður og skrifað prestlega hugvekju.
Ég las þetta.
Ég hló.
Ég varð reið.
Mig langaði helst til þess að standa upp og orga.
Hvað er að manninum?
Hann er formaður félags sem er með yfir 11 þúsund félagsmenn á aldrinum 60 ára og eitthvað upp úr.
Hann er formaður í félagi sem stjórnvöld kalla til þegar setjast skal á samræðustól og gæta þess að enn eitt skýrslufarganið verði til svo hægt sé að fóðra skrifstofur ráðuneyta.
Hann er formaður sem lætur út úr sér helgislepju við hátíðleg tækifæri. Það eru ekki jól núna, ekki páskar og ekki hvítasunna.
Hvað gekk manninum til að setjast nú niður og skrifa hjartnæmt bréf um þá sem samkvæmt hans skilgreiningu er fólkið sem á bágt.
“Réttum öldruðum höndina og hjálpina” segir formaðurinn.
“Núverandi ríkisstjórn féllst á þá tillögu frá eldri borgurum að skipa starfshóp sem endurskoaðið og lagaði tryggingakerfið”, segir formaðurinn og er alsæll.
Takið eftir að formaðurinn segir að tillagan um starfshóp hafi komið frá FEB
Svo segir formaðurinn að “…hjá því fólki sem leitar til TR”
Fólkið sem “leitar til TR” er fólk sem fær lögbundinn eftirlaun frá TR.
Fyrirgefðu formaður FEB, Ellert, ég hef aldrei LEITAÐ til TR. Ég hef greitt skatta alla mína starfsævi og á þar af leiðandi rétt á eftirlaunum frá TR.
Það getur vel verið að formaðurinn hafi LEITAÐ til TR og reynt að fá tekjur sínar bætta, þær eru líklega svo aumingjalegar tekjur formannsins að hann þarf að leita allra leiða til þess að drýgja þær.
Helgislepjan og niðurlægingin rennur í stríðum straumum niður síðuna hjá formanninum.
Ég velti alvarlega fyrir mér hvort stjórn FEB sem slík sé samþykk svona málflutningi.
Kannski ætti stjórnin að sjá sóma sinn í því að svara þessari spurningu minni:
ER STJÓRN FEB SAMÞYKK SKRIFUM FORMANNSINS?
FINNST STJÓRN FEB MÁLFLUTNINGUR EINS OG FRAM KEMUR HJÁ FORMANNINUM Í GREIN ÞEIRRI SEM ÉG ER AÐ BENDA Á, VIÐEIGANDI?
Ég spyr því mér þætti fróðlegt að fá svör við því hvað stjórn FEB er eiginlega að gera.
Þegar ég var hætt við orga af eintómri reiði og örvæntingu velti ég því fyrir mér hvað kveikti helgislepjuna núna hjá formanni FEB.
Hvað var það?
Getur það verið að hann hafi séð skrif Wilhelms Wessmann um hvernig FEB og LEB hefur ekki virt hann svars vegna málsóknar?
Getur það verið að farið hafi um formanninn og stjórn FEB þegar fólk commentaði og vildi að FEB yrði lagt niður?
Getur það verið að formaðurinn haldi að fólk sem komið er yfir 60 séu hálfvitar sem þurfi bara að fá lekandi sæta rullu annað slagið til þess að þegja?
Getur það verið að FEB eigi að vera dansiklúbbur og ferðaklúbbur fyrir ríka eldri borgara?
Var það einhvern tíman markmið FEB að taka í alvöru umræðu um bætt kjör allra eldri borgara?
Heyrst hefur að fólki finnist FEB máttlaust og aumingjalegt félag.
Hvers vegna ætli það sé?
Er öll stjórn félagsins upptekin við dansiböll og ferðalög eða er einhver sem er í alvöru að skoða málefni lífeyrissjóða og hvernig TR stelur sparnaðinum?
Ég spyr og vænti þess að einhver sjái sóma sinn í því að svara, þó ég búist ekki við svari.
Ég er ekki félagi í FEB og er áhyggjufull yfir því að handónýtt félag skuli vera að semja um kjör mín síðustu ár ævi minnar, við ríkisstjórn sem er gjörsneydd manngæsku og sér ekki út fyrir eigin gróðavon og spillingu.
Ég vona að fólk rísi upp og styði þá sem nú vilja breytingar og hætti að kóa með FEB.
Það er hægt að taka mál eins og “málssókn gegn skerðingum” út fyrir ramma FEB og líklega er það eina leiðin til þess að koma þeim málum í höfn. FEB mun ekki gera neitt í þeim málum á meðan núverandi formaður predikar eins og kaþólskur prestur með slepjuna rennandi niður kinnarnar.
Björgvin Guðmundsson hefur ekki legið á sinni skoðun um að félagið sé ekki að standa sig, eða það hef ég lesið út úr skrifum hans. Hann þekkir þessi mál öll vel, kannski betur en við gerum okkur grein fyrir. Björgvin verður ekki eilífur. Hver tekur við skrifunum þegar hann fellur frá?
Það er enginn hvorki hjá hernum eða FEB eða LEB sem er líklegur til þess.
Sami rassinn undir öllu þessu liði sem þykist vera að vinna fyrir fólkið og otar fram fyrir sig orðum um þá sem minnst mega sin, eða minnstu bræður, sem er svo vinsælt hjá handónýtum formanni sem hefur ekki hugmynd um hvernig lög um almannatryggingar líta út eða hvernig líf fólks almennt er. Hann býr í kassa sem er fullur af bómullarhnoðrum og þegar hann lýtur út fyrir hornin þá gengur hann með þétt sólgleraugu og vermir sér við skot sem hann skaut í mark fyrir mörgum áratugum.
Það þarf jú ekki mikið til þess að gleðja lítilmagnann.
Ég er á þeirri skoðun að sá hópur fólks sem nú er að rísa upp eigi ekki að vera að púkka upp á FEB eða LEB. Það eru samtök sem eru ekki fyrir almenning og alls ekki fyrir eldri borgara, venjulega eldri borgara.
Það er í farvatninu uppreisn gegn auðvaldinu í FEB og LEB og er það dásamleg tilfinning að sjá hvernig formanns nefnan hristist og skelfur núna.
Hulda Björnsdóttir