17.ágúst 2018
Þú ert ekkert annað en neikvæðni Hulda, sagði einhver.
Ég var að spyrja hvernig kór háværra óángæjuradda vegna kjara eldri borgara ætlaði að láta í sér heyra.
Fór þetta fyrir brjóstið á einhverjum sem vonaði að fólk yrði ekki neikvætt eins og ég.
Það er ágætt að vera jákvæður og oft upplyfting fólgin í Pollíönnu leiknum.
Málefni eldri borgara eru að mínu áliti ekki þess eðlis.
Ég get ekki verið jákvæð þegar ég veit að fjöldi fólks, eldri borgarar og fátækt fólk svelta heilu og hálfu hungri.
Ég teldi mig aumingja ef settist í sæti Pollíönnu og léti sem allt væri bara svo dásamlegt og jákvætt.
Það er ekki jákvætt að ríkið steli af okkur lífeyrissjóðnum okkar til þess að greiða niður lífeyri frá TR.
Það er ekki jákvætt að eldri borgarar skuli ekki fá almennilegan mat á kvöldin á elliheimilium og sé gert að éta það sem úti frýs ef það vill ekki súpuskjattann.
Það er ekki jákvætt að ekki skuli vera til hjúkrunarúm fyrir eldri borgara sem geta ekki séð um sig sjálfir og eru á lokaspretti þessarar jarðvistar.
Það er ekki jákvætt að eftirlaun skuli vera langt undir framfærsluviðmiðum hjá stórum hópi eldri borgara.
Það er ekki jákvætt að forysta eldri borgara, bæði FEB og LEB, skuli taka þann kost að setjast í vasa ríkisstjórnar sem hefur ekki hinn minnsta áhuga á því að bæta kjör almennings, og bíða eftir samtali við þá sem skara að eigin köku eins og frekast er unnt.
Það er ekki jákvætt að stjórnarandstaðan hafi ekki dælt inn frumvörpum um kjör eldri borgara á síðasta alþingi.
Það er ekki neitt að marka háfleyg orð úr ræðustól um “fólkið okkar” á meðan frumvörp líta ekki dagsins ljós.
Auðvitað hefðu slík frumvörp ekki verið samþykkt en það væri búið að vinna þau og þegar sjtórnarandstaðan kæmist til valda væri fljótlegt að drífa þau upp úr skúffum og samþykkja.
Ég gef lítið fyrir fagurgala þeirra sem ekki eru í stjórn á meðan ekkert kemur frá þeim annað en galinn.
Wilhelm Wessmann var í viðtali hjá Helga P fyrir líklega 2 árum þar sem hann ræddi um hvernig ríkið stæli sparnaði okkar í lífeyrissjóð.
Wilhelm er vel að sér um þessi mál og veit hað hann er að tala um. Hann bauð sig fram til þess að fara í mál við ríkið ef FEB og LEB styddi við bakið á honum. Nú 2 árum síðar hefur stjórn þessara samtaka ekki virt hann viðlits.
Nei forysta FEB og LEB kýs að setjast í nefnd með stjórnvöldum og forystan er svo staurblind að hún sér ekki eða vill ekki sjá að nefndir eru til þess að svæfa svona mál. Það þarf ekkert að ræða þessi mál meira. Það hefur nú þegar verið gert í drep og skrifaðar margar skýrslur um málið og lausn þess.
Ég ríf hár mitt þegar ég hugsa um að forysta FEB og LEB er fólk að mestu sem hefur verið þar árum saman og hefur ekki hugmynd um hvernig venjulegum eldri borgurum reiðir af, eða að minnsta kosti hafa formenn beggja samtaka ekki gert neitt, nákvæmlega ekki neitt, til þess að herja á ríkisstjórn og fá aðgerðir í stað orðagjálfurs.
Formaður FEB skrifar hugljúfar greinar um hinn minnsta bróður við hátíðleg tækifæri.
Formaður LEB er fyrverandi formaður FEB.
Gengur þetta embætti í erfðir?
Þáttur um eldri borgara á Hringbraut var ekki um sveltandi eldri borgara, eða húsnæðislausa eldri borgara eða eldri borgara sem svifta sig lífi til þess að losna undan örbirgðinni.
Nei, þættirnir, eða þeir sem ég sá, voru um eldri borgara sem hafa það fínt og geta keypt sér jepplinga og farið í siglingar erlendis.
Það eru sem betur fer til eldri borgarar sem hafa það fínt og þurfa enga baráttu fyrir kjörum þeirra.
Það þarf ekki að tala um þá í baráttu fyrir bættum kjörum. Alþingismenn, bankastjórar og margir fleiri hafa það dásamlegt og er það frábært. Alþingismenn, þeir voru nú ekki skildir eftir í tíð Davíðs Oddsonar þegar þeirra kjör voru skilgreind.
Formaður FEB sat held ég á þingi einhvern tímann, minnir mig.
Formaður LEB sat á þingi, ég er viss um það.
Ætli lífeyrir þeirra sé hvati til þess að berjast með kjafti og klóm fyrir bættum kjörum “hinna minnstu bræðra”?
Maðurinn getur sagt enn og aftur að ég sé svo neikvæð að ég eyðileggi fyrir hinum jákvæðu.
Ég er löngu hætt að vera í Pollíönnu leik.
Ég horfi einfaldlega á tölur á vef TR og þar sé ég raunveruleikann í hnotskurn.
Svo get ég farið inn á vef Hagstofunnar og séð framfærslukostnað og eitt og annað sem kemur mér ekki í brjálæðislegt bjartsýniskast og bindur fyrir augun á mér svo ég sjái ekki hungrið og vosbúðina sem margir eldri borgarar búa við.
Hulda Björnsdóttir