Fyrir þá sem ekki hafa Facebook – copia af því sem ég skrifaði í morgun á “Milli lífs og dauða” síðuna

28.apríl 2018
Góðan daginn kæri lesandi.
Annar kaldur dagur hér í landinu mínu.
Klukkan 10 var sólskin og 7 stiga hiti en rigning er á leiðinni.
Næstu 4 dagar verða samkvæmt spá kaldir en svo svífur allt upp í 20 stig og sólskin, sem er auðvitað dásamlegt.
Við erum ennþá í úlpum eða jökkum og þykkum peysum, hér á meginlandinu.
Algarve er auðvitað allt annar handleggur þar er hlýrra eins og þeir vita sem eitthvað vita um landið mitt.
Ég hitti vinahjón mín í síðustu viku og þau ætla í viku frí í júlí. Auðvitað fara þau til sólarstranda og slappa af og gera nákvæmlega ekki neitt til þess að safna kröftum fyrir það sem eftir er af árinu. Sólarstrendurnar eru Algarve. Venjulegir landar mínir líta ekki á staðinn sem hið raunverulega Portúgal, það er einfaldlega túristastaður og fátt annað.

Af hverju er ég að röfla þetta um sumarfrí?
jú, ég er að fara í frí, langþráð frí.
Hvert fer ég svo?
Til Algarve?
Nei, ég hef verið þar einu sinni og hef ekki áhuga á að fara aftur.
Ég er að fara norður.
Legg af stað um hádegi 1.maí og dvel allan mánuðinn í unaði sveitasælu og kyrrðar.
Þetta er að miklu leyti vinnuferð.
Ég er með bók sem ég þarf að ljúka við að þýða til þess að koma henni út áður en ég legg upp laupana.
Svo þarf ég auðvitað að njóta náttúrunnar, syngja, halda áfram að mennta mig í hinu göfuga máli nýja landsins míns og lappa upp á heilsuna svona í framhjáhlaupi.
Semsagt nóg að gera en frí er þetta samt og ég hlakka mikið til.
Ég elska norður hluta landsins. Þar er allt eitthvað öðruvísi. Steinarnir eru fallegar myndir og fjöllin blasa við. Árnar renna ljúflega fram og syngja með undurfögrum röddum sem ekkert tónskáld getur toppað.
Viseu er borg hringtorganna og þar gengur umferðin eins og smurð.
Portó er ekki amaleg og fólkið í Portó er uppáhalds fólkið mitt.
Tondela er framtíðarheimlið mitt og þar er eitt og annað merkilegt á ferðinni alla daga.
Guarda er enn einn uppáhaldsstaður minn og svona get ég lengi talið.
Nú eru þingmenn á Íslandi að fara í sumarfrí, kosningar í sveitastjórnum á fullu og ráðherrar að pissa enn eina ferðina í skóinn sinn.
Allt við það sama og ekkert gert til þess að hjálpa þeim sem svelta og eiga ekki þak yfir höfuðið, hvað þá að eitthvað sé gert fyrir öryrkja og eftirlaunaþega. Nei, allt stopp nema hjá gjörspilltu græðgis liði ríkisstjórnar sem mokar að eigin köku og heldur skrúfstykkinu styrkri hendi á þeim sem tilheyra þeim ekki.

Ég er að fara í frí.
Ég veit ekki hversu mikið ég skrifa hér á síðuna okkar í þessum frímánuði mínum. Kannski eitthvað og kannski ekki neitt.
Þeir sem hafa áhuga geta auðvitað sett alla þá pósta sem þeir vilja á grúppuna okkar og þar geta þeir spjallað.
Það kemur alltaf maður í manns stað.

Ég kem til baka úr fríinu og þá hefst nýr kafli.

Þeir sem hafa áhuga geta fylgst með mér á WordPress blogginu mínu en þar ætla ég að njóta þess að halda úti dagbók á ensku fyrir vini mína sem ekki skilja íslensku og ég hef vanrækt hrikalega þessar síðustu vikur vegna ástands á Íslandi.

Í gær hafði einn af erlendu vinunum samband við mig og bað mig um skrif á ensku. Hann er einn af mörgum, og ég lofaði honum bót og betrun.

Mér þykir mun ánægjulegra að skrifa um lífið og tilveruna almennt og þetta verður dásamleg tilbreyting frá vonlausu rifrildi við stjórnvöld og formenn sem engann áhuga hafa á málefnum eldri borgara og öryrkja.

Ég vona að allir njóti helgarinnar og læt þetta duga í dag.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: