Kannski væri ráð að gráta út hækkun eftirlauna !

  1. apríl 2018

Góðan daginn kæru lesendur.

Þá er kominn laugardagur og Trump búin að skjóta á Syríu, svona rétt til þess að snúa umræðunni frá eigin vansæmd. Mikið ofboðslega er sorglegt að slíkur maður skuli vera í æðstu valdastöðu heimsins.

Ég ætla ekkert að gera heimsmálin að umræðuefni hérna en fannst ekki hægt að sleppa þeim alveg.

Ég læt það fara í taugarnar á mér hvernig umræðan er um fátækt fólk, hvort sem talað er um eftirlaunaþega, öryrkja, barnafólk eða bara launþega sem eru á lágum launum.

Mér finnst við alltaf verið að tala niður til þessara hópa.

Við tölum um lágmarkslaun

Þá sem eru verst settir og svo framvegis og framvegis.

Ég held að við þurfum að breyta umræðunni og það gæti skilað sér til ráðamanna, jafnvel manna eins og fjármálaráðherra.

Með þessu eilífa tali um þá sem minnst hafa gefum við hrokagikknum tækifæri til þess að ljúga að okkur og sýna fram á að ekkert þurfi að gera því það sé búið að gera svo mikið.

Með því að breyta umræðunni og hætta að tala um ellismelli, heldri borgara og þá sem minnst hafa, og fara að tala um fólk sem komið er yfir 60 ára eða fólk sem er hætt að vinna eða fólk sem er komið á eftirlaun, þá væri hægt að lyfta umræðunni á raunhæft plan.

Þetta tekur tíma, ég geri mér grein fyrir því, en einhvers staðar verður að byrja.

Kjarasamningar og þeir sem að þeim standa tala oftar en ekki um hina lægst launuðu.

Það vita allir sem vita vilja að prósentuhækkun kemur hinum ríku best, hún gerir ekkert fyrir hina lægst launuðu. Þetta veit Logi og hefur meira að segja sagt það upphátt.

Þegar við skrifum eða tölum um eftirlaun ættum við að hætta að tala um þá sem minnst hafa. Við þurfum að snúa málinu við og tala um hvað allir þurfa að hafa til þess að geta haft í sig og á. Það þarf ekkert endilega að vera skammtað svo naumt að þeir sem minnst hafa fái aðeins meira.

Á meðan við erum endalaust að tala niður til lægst launaða hópsins, til eftirlaunaþega og þeirra sem þurfa að reiða sig á sjálfsagða aðstoð samfélagsins, breytist ekkert.

Á sama tíma og hægt er að afskrifa milljarða á milljarða ofan hjá ríkisbubbunum og hækka bónusa og laun toppanna um milljónir og milljónatugi eru margir þeir sem tala á móti hækkun eftirlauna alveg að tapa sér við tilhugsunina eina að greiðslur hækki um nokkra þúsundkalla og allt á að fara yfirum í þjóðfélaginu.

Auðvitað fer þjóðfélagið ekkert á hausinn þó eftirlaunaþegar séu ekki sveltir í hel.

Auðvitað skilar sér til baka til þjóðfélagsins hækkun, ef hún væri ekki svo agnar pínu pons, og það væri hægt að leggja upp í síðasta fjórðung ævinnar með reisn, fyrir alla.

Margir verða gamlir, meira að segja kannski 65 ára og eldri. Er það ekki dásamlegt?

Sumir verða aldrei gamlir því þeir deyja ungir og það er sorglegt. Kannski finnst einhverjum það þjóðfélagslega hagstætt, þar eð fjölgun þeirra sem verða 65 ára rís ekki eins hátt.

Mér finnst að allir eigi að geta lifað með reisn en það er langt frá því að svo sé í íslensku þjóðfélagi í dag.

Sumir hafa það ágætt og meira að segja hefur nýjum lögum um almannatryggingar verið breytt fyrir þá hópa, hópana sem hafa það fínt. Hálfur ellilífeyrir er fyrir hátekjufólkið. Frítekjumarkið vegna atvinnutekna er fyrir þá sem vilja og geta unnið eftir 67 ára aldurinn. Hverjir eru það? Jú, það eru fyrirtækjaeigendur meðal annars og alls konar fólk sem tilheyrir eina prósentinu.

Venjulegt launafólk er orðið þreytt þegar að þessum aldri er náð.

Venjulegt launafólk sem komið er yfir 67 ára aldur gengur ekki inn af götunni í nýja atvinnu.

Eldra fólk víkur fyrir þeim yngri á vinnumarkaði. Þannig hefur það verið í marga áratugi. Þeir sem ekki eru í klíkunni geta bara etið það sem úti frýs.

Flokkur fólksins fór fremstur í því að auka misréttið með frumvarpi um frítekjumark atvinnutekna og svo greiddi þessi ágæti flokkur atkvæði gegn hækkun fjármagnstekjuskatts.

Já, sá flokkur er svo sannarlega fyrir LITLA MANNINN.

Sjálfstæðisflokkurinn er fyrir löngu búinn að gleyma um hvað hann var upphaflega og er núna fyrir auðvaldið.

Vinstri græn stukku í eina sæng með íhaldinu og runnu ljúflega upp í rúmið.

Ég bara nenni ekki að tala um Framsóknarflokkinn.

Björn Leví er að gera alla gráhærða með því að grafast endalaust fyrir um spillinguna og krefja menn svara. Það er aumkunarvert að horfa á manninn í sætinu fyrir aftan ræðupúlt alþingis þegar Björn stígur á stokk. Takk fyrir baráttuna Björn.

Grái herinn, já herinn sem hafði svo hátt hér um árið og formaðurinn steig í ræðupúlt klökk og þakkaði gamlingjunum fyrir að styðja hana og FEB og mæta á fundinn í Háskólabíói. Voða sætt en ekki mjög uppbyggjandi.

Ætli það sé komið í tísku að gráta úr ræðustól þegar verið er að berjast fyrir eldri borgara og öryrkja?

Eitthvað hefur borið á því undanfarin 2 ár að grátur fleyti fólki fram á veg valda og bara sæmilegra launa.

Kannski ættu eldri borgarar að stofna grátkór með öryrkjum. Kannski ættu grátandi flott gráhærð 67 ára gamalmenni að fjölmenna á þingpalla og á fundi hjá FEB og LEB og hernum. Það væri meira að segja hægt að birta myndir af kórnum á “lifðu núna”.

Ég er viss um að hægt væri að fylla upp í allan raddskalann í slíkum kór.

Er þetta kannski leiðin? Af hverju datt mér það ekki fyrr í hug?

Hulda Björnsdóttir

 

 

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: