13.apríl 2018
Góðan daginn
Hér í Penela skín sólin þó ekki sé mikill hiti og allt eitthvað bjartara í dag en í gær.
Flensan er líklega á undanhaldi, eða það vona ég.
Sumum finnst erfitt að talað sé um bætur þegar verið er t.d. að tala um heimilisuppbót eða örorkubætur og fleira slíkt.
Bætur er það kallað þegar um félagslega aðstoð er að ræða.
Eins og við vitum, þetta venjulega fólk, þá er ellilífeyrir EKKI 300 þúsund krónur á mánuði. Hann getur orðið það með félagslegri aðstoð sem heitir HEIMILISUPPBÓT, og aðeins fyrir þá sem búa á Íslandi og búa einir.
Þeir sem búa einir erlendis fá engar félagslegar uppbætur og þar af leiðandi ekki heimlisuppbót.
Þeir sem búa erlendis fá aðeins strípaðan ellilífeyri og skerðist hann að sjálfsögðu ef viðkomandi fær nú greiddan lögbundna sparnaðinn í lífeyrissjóð.
Þeir sem hafa greitt samkvæmt lögum í lífeyrissjóð niðurgreiða það sem þeir fá greitt frá TR.
Mér er eiginlega nokk sama hvort talað er um bætur eða ekki.
Það sem mér er hins vegar ekki sama um eru þessar endalausu 300 þúsund krónur sem fjármálaráðherra staglast á, endalaust.
Ég er smátt og smátt að komast að þeirri niðurstöðu að maðurinn sé svo veruleikafyrrtur að hann hreinlega viti ekki hvað hann er að tala um.
Ég hlustaði á umræðu á Alþingi þar sem Helga Vala Helgadóttir reyndi að reka þetta ofan í fjármálaráðherra og hann svaraði af sinni alkunnu hreysti með hroka og þvælu.
Helga Vala Helgadóttir var málefnaleg og rökföst og veit greinilega um hvað málið snýst. Það þarf ekkert tilfinningarugl í svona umræðu. Það þarf bara að vita hvernig málin standa.
Nú langar mig til þess að biðja þingmenn stjórnarandstöðu að reyna að koma umræðunni um ellilífeyri inn á raunhæft spor þar sem hamrað er á lífeyri og ekki minnst á heimilisuppbót.
Eins og við vitum er ellilífeyrir krónur 239.484 í janúar 2018.
Þetta er upphæð ellilífeyris fyrir skatt.
Þegar talað er um heimilisuppbót til viðbótar er verið að rugla saman lífeyri og félagslegum bótum.
HEIMILISUPPBÓT ER EKKI PARTUR AF ELLILÍFEYRI hún er félagsleg uppbót rétt eins og bílastyrkur og fleira.
Hverjum dytti í hug að tala um bílastyrk sem part af ellilífeyri?
Eftirfarandi er tekið af síðum TR:
- Lyfja- og sjúkrakostnaðar
- Umönnunar í heimahúsi
- Dvalar á sambýli
- Rafmagnskostnaðar vegna notkunar á súrefnissíu
- Heyrnartækja
- Húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta
Þessar greiðslur eru þó allflestar háðar ákveðnum skilyrðum, til dæmis varðandi tekjur lífeyrisþega, búsetu á Íslandi, heimilisaðstæður og fleira
Heimilt er að greiða lífeyrisþega og örorkustyrksþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar. Þá er heimilt að veita uppbót til framfæranda hreyfihamlaðs barns sem nýtur umönnunargreiðslna.
Uppbót er að fjárhæð 720.000 kr. fyrir þá sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn (átt er við þá sem eru að kaupa sér bifreið í fyrsta sinn á ævinni), annars er hún 360.000 kr. „
Eins og sjá má að ofan eru ýmsar uppbætur til. Hægt er að fara inn á vef TR og sjá allar þessar upplýsingar, og afritaði ég eingöngu nokkrar.
Nú langar mig til þess að biðja þá sem skrifa um málefni eldri borgara og þá sem tala um málefni þessa hóps að taka upp þann sið að tala um ellilífeyri einann og sér en ekki lífeyri með uppbót sem einungis sumir fá.
Ég hef haldið því fram lengi að ellilífeyrir eigi að vera ein tala en ekki puntaður með einhverju sem heitir núna heimilisuppbót og er bara fyrir nokkra.
Ég hef trú á því að í stjórnarandstöðu séu nokkrir klárir einstaklingar sem gætu tekið upp þessa venju, þ.e. að tala um ellilífeyri án þess að klína heimilisuppbót með.
Helga Vala Helgadóttir gerði það af mikilli sannfæringu.
Fleiri þurfa að taka upp hennar sið.
Ef þið hugsið málið þá efast ég ekki um að þið verðið sammála mér og snúið umræðunni. Gerist það þá gæti hugsanlega verið að hrokagikkir létu í minni pokann og hættu að ljúga upp í opið geðið á þjóðinni.
Hulda Björnsdóttir