11. apríl 2018
Góðan daginn kæru lesendur.
Enn einn dagur í inflúensu hér á bæ en ég er að reyna af veikum mætti að láta til mín taka.
Ég hef oft talað um hverjar upphæðir eftirlauna eru og ætla ekkert að gera það núna.
Það er mikið ritað og rætt um þessar upphæðir og fer alveg gífurlega í taugarnar á mér hvernig alltaf er talað um þá sem minnst hafa.
Þurfum við endilega alltaf að miða við þá sem eiga ekki í sig og á?
Þurfum við alltaf að lítillækka okkur með því að tala um þá sem minnst hafa?
Ber þetta árangur?
Kemur þetta við kaun Katrínar forsætisráðherra eða Bjarna Ben fjármálaráðherra?
Skilja þau um hvað málið snýst?
Ég held ekki. Ég held reyndar að þau þyrftu að fara á námskeið í fjármálalæsi en það er annað mál.
Fagurgali eins og vellur út úr formanni FEB er til lítils og hann hamrar endalaust á því að hann sé nú að tala um hina minnstu bræður!
Arg,
Björgvin Guðmundsson talar líka endalaust um þá sem hafa minnst.
Björgvin á auðvitað heiður skilið fyrir öll skrifin sín en ég vildi óska að hann hætti að gera lítið úr okkur hinum. Við hin sem ég er að tala um erum þau sem söfnuðu í lífeyrissjóði allt okkar líf eða alla vega alla okkar starfsæfi og nú er þeim sparnaði stolið og engin talar um það í fögrum ljóðrænum frösum.
Ljóðrænir frasar metta engann, alla vega ekki mig, og ég er svo heimtufrek að ég vil fá lífeyrissjóðinn minn óskiptan og ég neita að sætta mig við að sparnaður minn greiði niður greiðslur sem ég fæ frá TR. Þetta er þjófnaður og ekkert annað, það vita það allir, en enginn gerir neitt í málinu. Bara innantómt lyriskt málaæði.
Flokkur fólksins hælir sér af því að vera fyrir þá sem verst eru settir og sýnir það með dæmum um frumvörp sem þeir hafa lagt fram á alþingi.
Þessi blessaði flokkur lagði fram frumvarp um afléttingu parts af skerðingum á ellilífeyri VEGNA ATNVINNUTEKNA. Flokkur fólksins vill senda alla út að vinna. Hann hlýtur að hafa vinnumiðlun fyrir þá sem komnir eru á eftirlaun og er tilbúinn með störf fyrir þetta fólk, eða hvað?
Hræsni og ekkert annað. Fólk féll fyrir fagurgalanum og ég var jákvæð í garð formannsins en verkin hrópa hærra en fagurgalinn. Mikið er ég þakklát fyrir að hafa ekki kosningarétt á Íslandi og hafa þar af leiðandi ekki sóað atkvæði mínu.
Eins og ég hef sagt hundrað og fimmtíu sinnum hér á síðunni þá fá þeir sem búa erlendis og búa einir, ekki heimlisuppbót.
Heimilisuppbót er félagsleg uppbót og allt svoleiðis fellur niður þegar fólk flytur frá Íslandi.
Ég hef ALDREI séð Flokk fólksins, FEB, LEB, Björgvin Guðmundsson eða aðra tala um þetta sem eitthvað óeðlilegt. Þetta lið talar reyndar aldrei um landflótta eftirlaunaþega.
ALDREI.
Það gladdi mig óendanlega fyrir nokkrum dögum þegar ég sá comment frá einum af nýju stjórnarmönnu FEB þar sem hann segir eftirfarandi:
“Orðrétt sagði Bjarni í Kastljósi: „Þegar við Sigmundur byrjuðum saman í ríkisstjórn árið 2013 þá voru bæturnar rétt innan við 200 þúsund á mánuði, lífeyrir til eldri borgara, og við höfum í millitíðinni hækkað þær bætur í 300 þúsund.“ Hið rétta er að lífeyrir einstaklinga í sambúð var árið 2013 kr. 181.769 en er núna kominn í 239.484 kr. Þetta gildir fyrir þrjá af hverjum 4 öldruðum. Þeir sem búa einir, sem er einn af hverjum fjórum öldruðum, geta fengið til viðbótar heimilisuppbót skv. lögum um félagslega aðstoð (reyndar ekki ef þeir búa erlendis), með henni gat upphæðin orðið 210.922 árið 2013, en kr. 300 þúsund í ár, 2018. En það lítur náttúrulega betur út að taka lífeyri sambýlisfólks fyrir 2013 („innan við 200 þúsund“) og bera saman við lífeyri plús heimilisuppbót 2018 – það gefur meiri hækkun.”
Þessi ágæti maður er Finnur Birgisson og þakka ég honum fyrir að koma þessu á framfæri, fyrstur manna af þeim sem sitja í sætum sem gætu haft áhrif.
“(reyndar ekki ef þeir búa erlendis)” segir Finnur réttilega.
Við erum einfaldlega gjaldfelld við að flytja. Við erum gott úrræði fyrir kerfið á Íslandi. Það þarf ekki að greiða fyrir okkur lyf eða lækniskostnað. Það þarf ekki að sjá okkur fyrir húsnæði og svo gæti ég talið áfram en læt þetta duga í bili. Já í bili.
Nú fjölgar þeim ótt og títt sem rífa sig upp og er að verða til nokkuð vegleg Íslendingabyggð á Spáni.
Minnir þetta ekki örlítið á flótta Íslendinga til Vesturheims hérna um árið?
Nei, það getur ekki verið, nú er árið 2018 og aldrei verið meiri hagvöxtur á landinu.
Hvernig var það aftur með afskriftir sumra pólítíkusanna? Voru ekki afskrifaðir milljarðar hjá fleiri en einum? Hefði ekki verið hægt að nota þessa milljarða í eitthvað annað manneskjulegra?
Og svo er það hálfi lífeyriririnn og engar skerðingar þar. Fyrir hverja? Jú, fyrir þá sem hafa efni á því að taka bara hálfan lífeyri af því þeir tilheyra ekki “þeim sem minna mega sín eða þeim sem hafa minnst eða hvað þið viljið kalla okkur”
Óréttlætið aukið, þeim efnamestu fært meira upp í hendurnar og margir þingmenn brosa breytt og eru bara nokkuð sælir með sitt, ekki síður en LEB og fleiri. Auðvitað berst hver fyrir sinn hóp. ´
Ég ætla að enda á því að benda forráðamönnum Lifðu Núna á að venjulegt fólk lifir líka núna. Það eru ekki bara hinir frægu sem halda áfram að lifa en glasmyndin er ekki jafn glasandi hjá venjulega fólkinu.
Urrandi ill og bullandi veik af inflúensu læt ég þessu lokið í bili. Ég þarf að fara upp í rúm og reyna að ná úr mér flensunni en fleira kemur fljótlega upp úr kössum heimtufrekjunnar og öfundarinna sem Formaður Flokks Fólksins segir mig illa haldna af.
Ég heimta að fá lífeyrissjóðs tekjur mínar óskertar!
Kannski öfundin hafi lagt mig í rúmið! Það væri nú saga til næsta bæjar.
Hulda Björnsdóttir