- apríl 2018
Góðan daginn kæru lesendur.
Mánudagur og rigning hér í Penela. Kalt og drungalegt, ekki nema 6 stig klukkan 8 og á morgun verður hámarkshiti 10 stig og auðvitað rigning, hvað annað.
Í 3 vikur rúmar hef ég háð hreystilega baráttu við hósta og kvef og varð í gær að láta í minni pokann og liggja í rúminu. Við hverju er svo sem að búast í umhleypingum sem engan endi taka hérna í landinu mínu. Ég ætlaði að vera fyrir norðan í dag og heilsa upp á jörðina mína en ekkert verður af því. Semsagt þetta er ég að kvarta!
Þá að alvöru lífsins.
Nú er fólk reitt á Íslandi og ekki að furða. Fólk er þreytt á svikum og prettum óprúttinna pólitíkusa og nú verður kosið eftir skamma stund til sveitarstjórna. Fólk er ekki sérlega reitt hvað þær kosningar varðar, eða er það?
Nei, það eru síðustu Alþingiskosningar og allt sukkið sem út úr þeim kom sem er að æra þjóðina, eða allavega smá part af henni.
Kjararáð burt, segir fólk.
Skoðum það aðeins.
Af hverju er kjararáð?
Jú, einu sinni, fyrir löngu síðan, ákváðu þingmenn sjálfir laun sín, líklega hefur það verið forsætisnefndin sem tók ákvarðanir þá, ég man það ekki. Allt varð vitlaust þegar þingheimur ákvað að hækka laun sín VERULEGA og þá varð til Kjararáð sem átti að leysa vandann og taka úr höndum þingmanna sjálfsalakerfið.
Rætt var um að þingmenn þyrftu að hafa góð laun til þess að fá almennilegt fólk til starfa!
Ef við skoðum laun þingmanna þá eru þau ekkert yfirgengilega há, þingfararkaup er 1.101.194 krónur á mánuði fyrir skatt.
Getum við verið sammála um að þetta sé ágætt kaup en ekkert yfirþyrmandi hátt?
Það sem er að æra mig og fleiri eru aukagreiðslurnar sem þingmenn fá.
Og, hverjir eru það sem ákveða aukagreiðslurnar? Ekki er það kjararáð? Nei, það eru þingmenn sjálfir. Kjararáð kemur ekki nálægt ákvörðun aukagreiðslna.
Forðmaður Flokks fólksins, flokks sem grét sig inn á þing í síðustu kosningum og ætlaði að vinna fyrir litla manninn, fær í laun á mánuði 1.651.791 krónur. Bara nokkuð vel skammtað finnst mér.
Auðvitað má ég ekki tala um þetta því nú rísa upp til varnar formanninum kjósendur sem telja mig komna frá hinu illa, líklega helvíti, og gerast meira að segja svo reiðir að þeir hætta að fylgjast með því sem ég er að segja. Það er allt í himnalagi þó fólk fari af síðunni okkar og flytji sig eitthvað annað. Það er hins vegar ekki í lagi að fylgja svo blint pólitíkusum að ef á þá er hallað er viðkomandi talinn vera frá einhverjum illum öflum.
Ég hef ekkert látið vanta á gagnrýni á aðra flokka og félagasamtök sem ég tel eiga að vera í baráttu fyrir láglaunafólk, hvar sem það er í stétt eða pólitík, á Íslandi.
Það er ekki nóg að tala fjálglega úr ræðustól Alþingis. Það er ekki nóg að gráta framan í þjóðina og segjast ætla að berjast fyrir litla manninn. Verkin tala og þau hrópa nú rétt eins og maðurinn í eyðimörkinni.
Flokkurinn sem var fyrir litla manninn lét það verða sitt fyrsta verk á hinu háa Alþingi að flytja frumvarp um breytingu á skerðinu lífeyris frá TR vegna atvinnutekna. Ekki breytingu vegna tekna frá Lífeyrissjóðum, nei breytingu vegna atvinnutekna. Halló, þetta er hópur fólks sem er kominn yfir 65 ára aldur og á í verulegum erfiðleikum að finna vinnu fyrir sig og í öðru lagi búinn að skila sínu.
Síðan greiddi flokkurinn atkvæði gegn, já GEGN hækkun fjármagnstekjuskatts. Ég man ekki betur en að það sé eitthvað á skjön við stefnu Flokks litla mannsins.
Verkin tala hærra en fögur orð.
Verkin eru það sem við getum tekið mark á, ekki fagurgali.
Hverjir eru það svo sem sitja á þingi fyrir þennann flokk litla mannsins?
Hægt er að fletta því upp á vef Alþingis og þá kemur eftirfarandi í ljós:
Ólafur Ísleifsson:
“Í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna 1981–1985. Fulltrúi í samkeppnisráði 1993–1994. Bankaráðsmaður í Nýja Glitni, síðar Íslandsbanka, 2008–2010, sat í endurskoðunarnefnd bankans á sama tíma. Formaður stjórnar Stofnunar Sigurðar Nordals 1999–2005. Í stjórn ISB Holding, eignarhaldsfélags Íslandsbanka, 2009–2012, formaður stjórnar frá janúar 2010. Stjórnarmaður í Samtökum sparifjáreigenda með hléum 2007–2014. Í ráðgjafarnefnd Gæðaráðs íslenskra háskóla 2014–2017. Hefur setið í fjölmörgum opinberum nefndum. Hefur ritað fjölda greina um efnahagsmál og þjóðmál í dagblöð og tímarit og haldið fyrirlestra og erindi á margvíslegum vettvangi. Sérfróður meðdómandi við Héraðsdóm Austurlands og Héraðsdóm Reykjavíkur. Dómkvaddur matsmaður í málum við Héraðsdóm Reykjavíkur. Í nefnd til að undirbúa hátíðarhöld árið 2018 um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands síðan 2018.“
Situr í fjárlaganefnd, sem er eðlilegt miðað við reynslu og menntun, tel ég.
Karl Gauti Hjaltason:
„Fulltrúi bæjarfógetans í Keflavík, Grindavík og Njarðvík og sýslumannsins í Gullbringusýslu 1989–1990 og starfaði um skeið hjá ríkisskattanefnd. Fulltrúi sýslumannsins í Árnessýslu og bæjarfógetans á Selfossi, síðar sýslumannsins á Selfossi, 1990–1998. Settur sýslumaður á Hólmavík um skeið sumarið 1996, auk þess að vera settur í einstaka málum sem rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, lögreglustjóri í Reykjavík og fleira á árunum 1995–1998. Skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum 1998–2014. Skipaður skólastjóri Lögregluskóla ríkisins 2014–2016.“
Varaformaður Þingflokksins
Situr í umhverfis- og samgöngunefnd
Guðmundur Ingi Kristinsson
„Lögreglumaður í Grindavík og Keflavík 1974–1980. Afgreiðslumaður í versluninni Brynju 1981–1993. Í endurskoðunarnefnd laga um almannatryggingar 2014–2016 fyrir Pírata.
Í trúnaðarráði VR 2004–2012 og fulltrúi þess á ársfundum Alþýðusambands Íslands. Formaður BÓTar, baráttu- og samstöðufélags fyrir bættum kjörum lífeyrisþega og gegn fátækt á Íslandi, frá 2010. Varaformaður Flokks fólksins frá 2016.
Situr í Velferðarnefnd“
Inga Sæland, formaður FF
„Stundaði nám við MH 1994–1999. Stundaði nám í stjórnmálafræði við HÍ 2003–2006. BA-próf í lögfræði frá HÍ 2016.
Stofnandi Flokks fólksins 2016 og formaður frá stofnun. Í samráðsnefnd um veiðigjöld síðan 2018.
Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður síðan 2017 (Flokkur fólksins).
Atvinnuveganefnd 2017–.
Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2017–.“
Allt er þetta ábyggilega hið besta fólk, ég efast ekki um það. Flokkur Fólksins gefur sig út fyrir að vera fyrir litla manninn í þjóðfélaginu.
Mér sýnist í raun bara einn af þingmönnum vera raunverulegur fulltrúi litla mannsins, en það er bara mitt álit.
Áður en stuðningsmenn FF leggjast á árar til þess að hálshöggva mig fyrir ósvífnina þá geta þeir verið rólegir. Þetta er ekki eini flokkurinn sem ég ætla að skoða. Allar þessar upplýsingar og miklu fleiri eru aðgengilegar á VEF ALÞINGIS.
Það er til dæmis hægt að sjá ræður þingmanna, frumvörp þeirra og laun og launakjör ásamt atkvæðagreiðslum.
Á morgun ætla ég að skoða einhvern annann þingflokk og sjá hverjir sitja þar og hverjir eru sem hægt er að búast við að skilji, þekki eða séu tilbúnir til þess að stíga niður til okkar, hins almenna borgara, sem lepur dauðann úr skel. Þar er ég að tala um (almenna borgara), eldri borgara sem hafa laun undir 400 þúsund krónum á mánuði, öryrkja, fátækt barnafólk, láglaunafólk og sveltandi börn ásamt öllum þeim sem litið er á eins og óhreinu börnin hennar EVU og ekki má tala um, því það setur blett á hið ægifagra land sem nú riðar á barmi einhvers sem hefur ekki sést áður.
Það virðist vera að þegar sumt fólk sest á Alþingi þá gerist eitthvað voðalega einkennilegt. Loforð fjúka út um gluggann eins hvít snjókorn í lygnu veðri.
Græðgi virðist taka völdin, einstaklings græðgi, græðgi til handa vinum og vandamönnum og það sem mér finnst kannski sorglegast af öllu: AÐ NÝTA SÉR HVERJA EINUSTU HOLU SEM FINNST og finna ALLAR leiðir til þess að borga eins LÍTIÐ og mögulegt fyrir það sem venjulegt fólk þarf að greiða fyrir.
Getur það verið að einhverjum þingmönnum detti í hug að þeir þurfi ekki að borga fyrir vínglasið? Getur það verið að einhverjum þingmönnum finnist að þeir eigi að geta valsað um allt og fengið allt frítt fyrir sig, bara af því að þeir eru þingmenn?
Getur þetta verið?
Takið eftir að ég er ekki að tala um alla þingmenn. Ég er ekki heldur að tala um einn einstakan þingmann. Ég er bara að spyrja og velta þessu fyrir mér því Kjararáð er ekki meinið í kjörum Alþingismanna, ég tel að græðgi þingmanna, þeirra sem úthluta hlunnindunum séu meinið.
Ég er þakklát unga manninum sem berst með kjafti og klóm fyrir því að upplýsingar um allt mögulegt sem tengist Alþingi og því sem þar fer fram sé birt. Að hann þurfi að verja gjörðir sínar er óskiljanlegt. Leyndarhyggja er eins og graftarkýli sem verður að stinga á og það er það sem ungi þingmaðurinn er að gera.
Spillingin verður ekki uprrætt nema að um hana sé talað og hægt sé að gera það án þess að vera skorinn á háls af ofstækisfullum stuðningsmönnum einstakra flokka.
Hulda Björnsdóttir