27.mars 2018 Góðan daginn kæru lesendur
Í dag verður kveðinn upp úrskurður í máli sem varðar fyrstu 2 mánuði árs í fyrra þar sem skerðingum var beitt á greiðslur frá TR þó lögin segðu til um annað. Lögunum var síðan breytt afturvirk og málið snýst í raun um hvort það hafi verið löglegt…. Þessi uppkvaðning er í Héraðsdómi og tapi ríkið málinu er ég ekki í vafa um að því verði vísað til Hæstaréttar. Vinnist málið hins vegar hef ég ekki hugmynd um hvað gerist. Líklega mun þá eftirlaunaþeginn sem hóf málið áfrýja. þ.e. ef ríkið vinnur.
Fólk er hvatt til þess að skunda niður í héraðsdóm og sitja á pöllum.
Ég hef enga skoðun á því og hvorki hvet eða let fólk til þess að gera eitthvað í málinu.
Eftir hádegi þá verður komin niðurstaða og ég mun auðvitað birta hana hér þegar ég sé útkomuna.
Grái Herinn verður ábyggilega með eitthvað varðandi málið.
Það er miklu áhugaverðara fyrir mig að sjá hvort FEB fer í mál við ríkið vegna skerðinga almennt.
Á stjórnmálaspjallinu var birt exelskjal þar sem reynt er að útskýra hvernig skerðingar koma út og þeir sem hafa áhuga geta séð það skjal á spjallinu.
Jaðarskattar eru enn að ruglast í hugum fólks, rétt eins og svo mörg önnur hugtök. Hægt er að sjá hvað það þýðir í raun á Vísindavefnum, ef fólk nennir að vera upplýst og ekki gleypa allt hrátt sem birtist eftir hina ýmsu “spekinga”
Launahækkanir sem nú dynja yfir hjá toppunum á Íslandi eru umhugsunarefni og ekki síður að nú eru útlendir milljónamæringar komnir inn á leigumarkaðinn.
Reyndar höfum við 63 þingmenn og ótal aðstoðarmenn og ráðuneyti og apparöt til þess að sjá um hag landsins.
Hvað eru þessir hópar að gera til þess að verja okkur, þessa litlu þjóð, og sjá til þess að venjulegir íslendingar sem hafa byggt upp þjóðfélagið drepist ekki úr hungri?
Hulda Björnsdóttir