25.mars 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Sunnudagur og kalt en nokkuð fallegt veður hér í Penela. Veðurspáin er góð fyrir 3 daga og fer hitinn upp í 20 stig. Ég er alveg búin að gleyma því hvernig svoleiðis dásemd lítur út en get huggað mig við að eftir þessa 3 daga kemur páskahret með kulda og rigningu og roki, bara rétt eins og íslenskt veður, eða þannig.
Þá að alvöru lífsins.…
Ég læt það fara í pirrurnar á mér þegar fólk hamast á Facebook og talar um að leiðrétta þurfi krónu á móti krónu skerðingar hjá eldri borgurum og öryrkjum.
Komonnnn!
Krónu á móti krónu skerðingar voru afnumdar hjá eldri borgurum með nýjum lögum um Almannatryggingar. Geta skríbentar, sem oft eru málefnalegir og sæmilega að sér í málum eldri borgara, ekki troðið þessu inn í kollana á sér?
Núna, í mars árið 2018, er krónu á móti krónu skerðing bara hjá öryrkjum.
Núna, árið 2018 í mars eru skerðingar hjá eldri borgurum, það er rétt, en þær eru minni en hjá öryrkjum. Ekki nema 0.45 á móti 1,00 hjá öryrkjum.
Er ekki frekar einfalt að skilja þetta?
Nei það er líklega flókið fyrir all flesta þannig að tillaga mín er að hætt verði að nota orðtakið “króna á móti krónu skerðingar” og farið í stað þess að nota “SKERÐINGAR”
Þeir sem eru í ALVÖRU að berjast fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja eru að tala um að afnema skerðingar, ekki bara krónu á móti krónu, heldur allar skerðingar og koma í veg fyrir að ríkisstjórnir steli endalaust sparnaði fólks úr Lífeyrissjóðunum og noti til þess að niðurgreiða greiðslur TR.
Semsagt:
NOTUM “SKERÐINGAR”
HÆTTUM AÐ TALA UM KRÓNU Á MÓTI KRÓNU, það ruglar alla.
Svo bíð ég spennt eftir páskahugvekju formanns FEB til hinna minnstu bræðra !
Kannski kemur hann með matarpakka og páskaegg til ALLRA.
Hulda Björnsdóttir