7.mars 2018
Þá er lokið kosningu í Eflingu og nýr formaður ásamt stjórn kominn til leiks.
Ég er ánægð.
Það er dásamlegt að sjá hvernig fólk rís upp smátt og smátt og líklega er von fyrir íslenskt samfélag, jafnvel þó spillingin haldi velli á hinu háa alþingi.
Auðvitað var vantraustið fellt, forsætisráðherra spýtti út úr sér vanþóknuninni en á sama tíma kaus fólk í samtökum þeirra lægst launuðu sér nýjan formann og nýja stjórn.
Nýja stjórnin í Eflingu er frábær og það fyllir mig gleði og ég finn von í brjósti sem ég hef ekki fundið fyrir lengi.
Núna á verkalýðurinn að minnsta kosti 3 formenn sem setja verkafólkið ofar eigin hag.
Það verður fróðlegt að sjá mafíuna og hvernig hún bregst nú við.
Ekki kæmi mér á óvart að herferð hinna ríku tæki á sig einhverja viðbjóðslega mynd, einhverja mynd sem við höfum ekki séð áður.
Eftir að hafa horft og hlustað á Pál Magnússon í sjónvarpinu er augljóst að mikið er enn undir stólunum og kemur samkvæmt því sem hann sagði upp á yfirborðið bráðum.
Spillingin hefur grasserað í langan tíma. Óáreitt. Nú er kominn tími breytinga. Alþýðan er að rísa upp og baráttuhugur að líta dagsins ljós.
Þegar við fáum leiðtoga eins og hina hugrökku yndislegu konu sem nú er orðin formaður Eflingar er ekki hægt annað en vera bjartsýn.
Ég vaknaði klukkan 5 í nótt og sá þá úrslitin.
Ég lagðist aftur á koddann og svaf vært.
Nú er von og mér varð hugsað til gömlu harðjaxlanna, bæði kvenna og karla, sem börðust fyrir réttindum verkafólksins.
Ég er viss um að þau hafa öll snúið sér við á himnum og horft niður til okkar með velþóknun.
Hulda Björnsdóttir