- febrúar 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Undanfarna daga hef ég dreyft eins og mögulegt er öllu sem ég hef séð frá hinu frábæra fólki sem nú reynir að komast að hjá Eflingu til þess að berjast fyrir bættum kjörum félaga. Berjast fyrir bættum kjörum af fullum krafti því hið nýja framboð skilur um hvað málið snýst.
Ég vona svo innilega að þau komist að.
Ég vona svo innilega að valdaklíkan fari frá.
Við eldri borgarar fáum að heyra það oft og einatt að það séu hinir minnstu bræður sem þurfi hjálp. Þessi skrif koma frá forystu samtaka eldri borgara FEB sem er með 11 þúsund félagsmenn.
Innan þessara samtaka eru ábyggilega eldri borgarar sem hafa það dásamlegt og þurfa ekkert að berjast fyrir því að eiga á diskinn sinn síðustu daga mánaðarins.
Nú á að fara að kjósa nýja stjórn og ég reyndi að finna út hverjir það eru sem bjóða sig fram. Slíkt er ekki auðvelt og gat ég ekki fundið óyggjandi hver er hvað. Fréttamenn fyrrverandi eru auðvitað auðfundnir og eins fyrrverandi alþingismenn og íþróttakappar. Einn af hópnum er vinur minn á Facebook og bind ég vonir við hans framboð. Auðvitað á ég ekkert að vera að skipta mér af svona máli, kemur það líklega ekki við þar sem ég er ekki í félaginu og ekki einu sinni á landinu.
Ástæða þess að ég læt mig þetta mál varða er að þetta félag er svo stórt að stjórnmálamenn taka mark á því sem þaðan kemur.
Er einhver í þessum væntanlega hópi sem tilheyrir þeim sem ég ætla að taka dæmi um hér á eftir? Ég efast um það.
Það er mikið rætt og skrifað um þá sem hafa ekkert til þess að lifa af, eftir að þeir komast á 67 ára aldurinn, annað en það sem greitt er frá TR.
Björgvin skrifar um þetta og FEB formaður hendir hjartnæmum bréfum um hinn minnsta bróður og fleiri slíkir.
Ég, hin vanþakkláta, gef ekki mikið fyrir hjartnæm bréf og nefndir sem eiga að taka tal saman.
Hér á eftir ætla ég að sýna ykkur hvernig kerfið fer með 4 einstaklinga, eftirlaunaþega.
Tölurnar eru eftir skatta.
Allir þessir einstaklingar gætu verið ég.
Þeir búa einir en hafa flutt erlendis. Þeir fá ekki heimilisuppbót og lækkar það mánaðargreiðslur þeirra.
Einn hefur aldrei borgað í lífeyrissjóð. Hann gæti t.d. hafa verið öryrki en hætti að vera slíkur þegar hann varð 67 ára.
Hinir 3 hafa greitt í lífeyrissjóði alla sína starfsævi. Þeir hafa haft mis há laun og þar af leiðandi mishá réttindi.
no.1. hefur einöngu bætur frá TR.
hann fær greiddar kr. 204.914 á mánuði eftir skatt.
no.2 hefur 50.000 á mánuði frá Lífeyrissjóði. Hann hefur í ráðstöfunartekjur kr. 229.349 á mánuði eftir skatt
no.3 hefur 100.000 á mánuði frá Lífeyrissjóði. Hann hefur í ráðstöfunartekjur kr. 246.691 á mánuði eftir skatt
no.4 hefur 150.000 á mánuði frá Lífeyrissjóði. Hann hefur í ráðstöfunartekjur kr.264.032 á mánuði eftir skatt.
150 þúsund króna tekjur frá lIfeyrissjóði gefur no.4 krónum 59.118 meira í mánaðartekjur en þeim sem aldrei hefur greitt í Lífeyrissjóð (no.1).
Mér finnst nöturlegt að horfa upp á sparnað minn í 40 ár verða að svo til engu þegar ég þarf á loforði um farsæl efri ár að halda.
Það voru jú rökin fyrir því að Lífeyrissjóðirnir voru settir á laggirnar í upphafi. Það var ekki meiningin að verið væri að búa til kerfi sem stjórnvöld gætu valsað með eftir þeirra eigin höfði.
Stjórnvöld eru í dag og hafa lengi verið að nota greiðslurnar í Lífeyrissjóði til þess að niðurgreiða það sem greitt er úr opinberum sjóðum.
Vel á minnst, ríkið er jú byggt upp af þegnum landsins og þeir sem nú eru komnir á eftirlaun hafa greitt skatta og skyldur til þessa samfélags alla sína hundstíð.
Það er ekki eins og verið sé að taka fé úr einkavasa frú forsætis eða herra fjármála, eða akstursköppum þjóðarinnar.
Sameiginlegur sjóður er fyrir alla, ekki bara eina prósentið sem hrifsar til sín allt steini léttara.
Láglaunafólk, barnafólk, einstæðir foreldrar, öryrkjar og eldri borgarar eru hópar sem eiga nákvæmlega sama rétt til sameiginlegra sjóða og auðlinda þjóðarinnar og eina prósentið.
Af hverju fjölgar öryrkjum svo títt? Frú forsætis gæti skellt í eina nefnd og herra fjármálaráðherra í eina köku. Kannski kæmi svarið þannig.
Ég veit ekki hvað það er sem stjórnar á hinu háa alþingi. Ég veit ekki hvort það er heimska eða hreinlega mannvonska. Kannski er það bara græðgi.
Sumir eru nú yfir sig móðgaðir af því að einhver leyfir sér að gagnrýna flokk sem náði inn á þing í síðustu kosningum.
Þetta fólk lofaði öllu fögru rétt eins og allir hinir og nú vilja kjósendur frá eitthvað fyrir sinn snúð og voga sér að gagnrýna skort á upplýsingum.
Formaður verður voða sár og skilur hvorki upp né niður í þessu vonda fólki sem er að gagnrýna.
Kökukaffi og vöfflufundir eru svarið.
Skammist ykkar sem eruð að gagnrýna og horfið bara á sjónvarpið og lesið blöðin, segja eldheitir stuðningsmenn.
Allir, ALLIR sem setjast á alþingi eða í opinberar stöður verða að sætta sig við gagnrýni.
Gagnrýni er ekki skítkast.
Gagnrýni á fullan rétt á sér. Flokkar fengu atkvæði kjósenda og kjósendur vilja efndir.
Var það ekki einhver flokksformaður sem talaði um að þeir sem nú gagnrýna séu fullir af ÖFUND.
Það er ekki allt í lagi með slíka fullyrðingu.
Hulda Björnsdóttir
My foreign friends. Sorry about this Icelandic post.
LikeLike