10 febrúar 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Ég er svo yfir mig reið og vonsvikin núna að ég á erfitt með að halda mig á mottunni.
Það er tvennt sem ég er að ergja mig á.
Í fyrsta lagi sá ég að einhver var svo náðarsamlegur að taka fram að “ómenntuð kona” væri að bjóða sig fram hjá Eflingu og nú hristist elítan í verkalýðshreyfingunni !
Svona ótrúlegur hroki hélt ég að væri ekki til árið 2018 á Íslandi.
Hvað hefur það með menntun hennar að gera hve góður málssvari hún er?
Nákvæmlega ekki neitt.
Konan er hugsjónakona og þorir að berjast fyrir þá sem þurfa svona fólk í forystu.
Hvað með alla hina hálærðu alþingismenn? Hvernig kemur menntun þeirra okkur til góða?
Jú, þeir maka eigin krók og gefa lítið fyrir svona “ómerkilegt” fólk sem hefur enga menntun aðra en lífsreynslu sem er margfalt meira virði en allir titlarnir sem þingheimur og aðstoðarmenn hefur.
Kannski væru mál í landinu öðruvísi ef þessi blessuð mennta elíta setti sig inn í mál “ómerkilega” fólksins sem er ekki með háskólagráðu í hinu og þessu.
Kannski væru mál landsins þannig að fólk þyrfti ekki að setja á sig hauspoka þegar verið er að tala um hið dásamlega Ísland þar sem allt er svo gott, ef “ómenntaða” hugsjónafólkið réði.
Hitt sem vakti upp hjá mér reiði í gær var mál vinkonu minnar.
Hún er nú 70 ára og vinnuveitandi hennar segir henni upp, samstundis, og telur starfskrafta hennar ekki lengur þörf.
Þessi kona hefur verið leikskólastjóri og sinnt starfi sínu af nærgætni og gefið sig alla í að gera sem allra best.
Það skiptir engu máli.
Hún er svo ósvífin að eiga afmæli og verða 70 ára.
Sjötíu ára fólk á að hypja sig af vinnumarkaði.
Á sama tíma og þetta gerist er nýbúið að setja lög um að atvinnutekjur að upphæð krónum 100 þúsund eigi ekki að skerða eftirlaun frá TR. Þetta var gert til þess að fólk gæti haldið áfram að vinna.
Dásamlegt að setja svona lög. Það sem er einfaldlega spurningin er “fyrir hverja”?
Ekki fyrir vinkonu mína sem var rekin um leið og hún átti afmæli um daginn.
Ekki fyrir venjulegt fólk.
Nei, þetta er fyrir þá sem eru sjálfstætt starfandi, reka eigin fyrirtæki og þurfa ekki að vera upp á vinnuveitendur komnir.
Réttlætið lætur ekki að sér hæða á Íslandi árið 2018.
Þessi vinkona mín er með menntun, svo ekki er hægt að telja henni það til vansæmdar að vera ómenntuð. Það eina sem hún hefur gert af sér er að eiga vitlaust afmæli.
Á sama tíma les ég um að einhverjir pótintátar haldi því fram að eldri borgarar ættu að fara að vinna á leikskólum.
Þeir eldri borgarar eiga auðvitað ekki að vera með menntun.
Bölvaður menntahrokinn tröllríður húsum á Íslandi. Menn aka um og fá tvöföld árslaun eftirlaunaþega og öryrkja fyrir ef þessir ökumenn sitja á alþingi.
Sporslur sem fylgja þingmennsku eru svo hrikalegar að mér verður illt af tilhugsuninni einni.
Hverjir eru það sem hugsa um fólkið sem sveltir og er hlunnfarið og niðurlægt?
Hverjir eru það sem berjast af mestum krafti fyrir þá sem lepja dauðann úr skel?
Það eru ekki pótintátarnir í ríkisstjórn, því miður. Þessir pótintátar hafa völdin og þau nota þeir til þess að skara að eigin köku.
Hulda Björnsdóttir