ÞETTA KEMUR MÉR EKKI VIÐ – EÐA HVAÐ?

One article about Iceland, the rich and the poor. Sorry my foreign followers, this is in Icelandic.
9. febrúar 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Ég ætla aðeins að tala um örorkulífeyri.
Þó að ég sé komin yfir 67 ára aldurinn þá er ekki þar með sagt að örorkulífeyrir komi mér ekki við.
Ég tek þó fram að ég hef aldrei verið öryrki en þekki hins vegar vel til þeirra aðstæðna sem sá hópur býr við og hefur búið við svo áratugum skiptir.
Við þvældumst á milli sveitabæja þegar ég var lítið barn því mamma var berklasjúklingur og þar að leiðandi með skerta starfsgetu. Hún reyndi þó eins og hægt var að hafa yfir okkur húsaskjól og mat á borðum. Stundum tókst það og stundum ekki.
Hún vann sem ráðskona á hinum ýmsu sveitabæjum þar sem ofdrykkjumenn og aðrir ólánsmenn bjuggu. Þessi heimili voru rekin af hinu opinbera og þurftu ráðskonu til þess að elda ofan í hópinn.
Ég ætla ekkert að lýsa þvi hvernig það var fyrir lítið barn að búa við þessi skilyrði. Mínar aðstæður skipta ekki máli. Það sem skiptir máli er að á Íslandi árið 2018 eru börn sem búa við sára fátækt. Það er fullorðið fólk sem ekki hefur húsaskjól. Það er fólk sem af ýmsum ástæðum er ekki vinnufært og þarf að lifa af bótum sem greiddar eru af TR.
Allt þetta fólk ætti að eiga rétt á því að hafa húsaskjól, eiga mat á diskinn alla daga ársins og þurfa ekki að kvíða síðustu viku mánaðarins.
Þetta fólk er íslendingar.
Árið er 2018.
Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur lofað að bæta kjör hinna verst settu og hefur talað um öryrkja og eftirlaunaþega.
Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur svikið loforðin án þess að blikna.
Nú er komið í ljós að VG, flokkur sem margir héldu að væri flokkur sem mundi bæta kjör öreiganna, ætlar að skoða málið í vor. Kannski þarf að skoða málið og það getur beðið í nokkra mánuði í viðbót.
Verður málið svo sett í nefnd í vor frú forsætisráðherra?
Mál sem sett eru í nefnd sofna svefninum langa og hvíldarstaður þeirra er oftar en ekki í skúffum í einhverju skrifstofubatteríi.
Frú forsætisráðherra!
Hvað ætlar þú að láta öryrkja og eftirlaunaþega bíða lengi eftir því að kjör þeirra verði þannig að hægt sé að hafa mat á borðum alltaf, að hafa þak yfir höfuðið alla daga, að eiga fyrir lækniskostnaði og lyfjum alla daga?
Frú forsætisráðherra!
Heldur þú að það verði mikið um krossa við þinn flokk í næstu kosningum, og að þeir krossar komi frá eldri borgurum sem búa við fátækramörk árið 2018 eða frá öryrkjum sem eru fastir í gildru fátæktar og eiga enga möguleika á að komast upp úr henni?
Öryrkjar hætta að vera öryrkjar þegar þeir eiga 67 ára afmæli.
Á þeim afmælisdegi verða þeir ellilífeyrisþegar og geta eiginlega bara etið það sem úti frýs, rétt eins og margir þeirra hafa þurft að gera í mörg ár.
Öryrkjar og eftirlaunaþegar eiga sameignlegra hagsmuna að gæta. Þeir hagsmunir eru líka þeirra sem vinna á almennum markaði og eru hraustir en eru svo óheppnir að vera á lægstu töxtum vinnumarkaðarins.
Sveltandi börn árið 2018 á landi sem er meðal ríkustu þjóða heims er þvílík skömm að nægilega sterk orð eru ekki tiltæk í mínum orðaforða.
Fólkið sem fer svangt í rúmið á kvöldin, eða börnin sem fara svöng í skólann, er fólk sem frú forsætisráðherra telur að geti beðið í nokkra mánuði eftir því að mál þeirra verði sett í nefnd til skoðunar.
HVað er hægt að gera?
Hvað getur almenningur, sem lætur sig varða málefni þeirra sem eru að draga fram lífið á lægstu hugsanlegum tekjum, gert?
Björgvin Guðmundsson skrifar um málefni þessara hópa alla daga.
Lesum við það sem hann er að segja?
Látum við orð hans inn um annað og út um hitt?
Getur það verið að fólk sem hefur það ágætt snúi sér á hina hliðina á kvöldin þegar óþægilegar spurningar sækja á og hugsi:
ÞETTA KEMUR MÉR EKKI VIÐ
Getur það verið ?
Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: