Er ég ekki þátttakandi í lífinu að mati formanns FEB?

28th of January 2018

To my foreign readers: This blog is in Icelandic and is just about the situation in Iceland.

Góðan daginn

Þá er þessi mánuður á enda eða svo gott sem og febrúar að koma með 28 daga. Einhverjir verða fegnir að ekki skuli vera annar mánuður með 31 dag. 3 dagar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af hvernig verið hægt að hafa mat á diskunum.

Ég er ofboðslega þreytt á því að sjá endalausar kröfur um að mannréttindi á Íslandi skuli virt gagnvart eldri borgurum og öryrkjum.

Það er ágætt að hamast viðstöðulaust alla daga og tala um óréttlætið en það leysir ekkert. Nákvæmlega ekki neitt.

Hvar eru lausnirnar, hver ætlar að gera eitthvað til þess að steypa þessu óréttlæti? Er einhver að hugsa um að gera eitthvað?

Er einhver að gera eitthvað?

Ef einhver er að gera eitthvað, hvað er það þá?

Þolinmæði mín er á þrotum.

Herinn hefur stigið fram úr sér enn eina ferðina. Nú er hann með á síðu sinni fréttir af kosningaúrslitum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, þ.e. prófkjöri.

Hvað koma okkur við fréttir af lélegri kosningaþáttöku og frábærum sigri einhvers sem er frægur að eindemum fyrir eitt og annað sem er kannski ekki alveg það besta í heimi?

Núverandi formaður FEB opnaði faðminn fyrir hernum samkvæmt “Lifðu Núna” þann 18.02.2017.

Hvaða apparat er herinn aftur?

Rétt til þess að rifja upp þá var hann settur á laggirnar í staðinn fyrir nefnd innan FEB sem hætti þegar Björgvin Guðmundsson lét af störfum sem formaður hennar. Ég held að þetta sé rétt hjá mér en ef ekki þá er einhver sem getur leiðrétt mig.

Opni faðmur formanns FEB er eitthvað svo krúttlegur en árangurinn er ekki að sama skapi krútt, allavega ekki í mínum augum, en eins og allir vita er ég ótrúlega vanþakklát og skil ekki hvað herinn er dásamlegur.

Hvað hefur herinn og FEB svo afrekað?

Jú, það er nú hægt að hrópa þrefalt húrra fyrir því að nú má vinna fyrir 100 þúsund á mánuði án þess að tekjur frá TR skerðist.

Svo er líka hægt að gleðjast yfir því að nú er búið að koma því svo fyrir að þeir sem þurfa ekkert endilega á tekjum frá TR að halda geta frestað töku ellilífeyris þannig að þau fái bara hálfan lífeyri og EKKERT skerðist frá TR.

Þetta er auðvitað ekki fyrir aumingja eins og mig og fleiri sem þurfa á greiðslum frá TR að halda og hafa ekki efni á því að SPARA ríkinu svona. Takið eftir að það er hægt að breyta yfir í hálfan lífeyri allt þetta ár. Svo dásamlegt t.d. fyrir þá sem eru að vinna fyrir FEB, eða hvað?

Aumingjarnir, ég og fleiri eigum auðvitað ekkert að vera að ybba okkur. Okkur kemur þetta ekkert við og getum bara etið það sem úti frýs og í besta falli annað hvort lagt upp laupana eða flutt úr landi.

Það sparar ríkinu talsverða upphæð ef fólk flytur úr landi. Eftirlaunaþegar fá rúmum 60 þúsund krónum minna ef þeir búa einir erlendis en ef þeir búa einir á Íslandi. Er þetta ekki unaðslegt og svo fallegt og ekki að undra að opinn faðmur formanns FEB breiði sig út og hann faðmi stjórnarherrana ekki síður en herinn.

Opni faðmur formanns FEB er ábyggilega í góðu sambandi við stjórnvöld. Hann hefur marg sagt að orð séu til alls fyrst og hlýtur honum að líða vel með frú forsætisráðherra sem treður nú öllu í nefnd.

“Ekki má gleyma þeim sem eru komnir á efri ár, þó þeir séu hættir að vinna og hættir að taka þátt í samfélaginu” sagði formaður FEB við “Lifðu núna” í fyrra.

Sko, herra formaður FEB, ég verð að segja að mér þykir það undarlega til orða tekið þegar þú heldur því fram að þessi hópur “sé hættur að taka þátt í samfélaginu”.

Ekki veit ég af þessum ummælum þínum, formaður FEB, hvar í heimi þú hrærist.

Ég ætla nú að segja þér leyndarmál herra formaður FEB.

Allir, ALLIR þegnar þjóðfélagsins eru partur af samfélaginu. Sumir eru nýfædd börn, sumir eru börn sem komin eru úr vöggunni, sumir eru börn sem eru komin í skóla, sumir eru unglingar, sumir eru komnir í tölu fullorðinna, sumir eru á aldrinum 18 til 67 ára. Sumir eru á aldrinum 67 til 90 ára og jafnvel eldri. Sumir eru foreldrar, sumir eru einstæðingar, sumir eru fjölskyldufólk, sumir eru öryrkjar, sumir eru eldri borgarar og sumir eru fátækir. Sumir eru forríkir og sumir eru svo fátækir að þeir eiga ekki fyrir mat alla daga mánaðarins. Sumir hafa ekki skjól yfir höfuðið. Sumir hafa misst heilsuna vegna vosbúðar, vegna örvæntingar eða bara vegna hungurs.

Herra formaður FEB! Allir þessir hópar, og margir fleiri, eru þáttakendur á samfélginu hver á sinn hátt, einfaldlega með því að vera á lífi.

Þeir sem hættir eru að taka þátt í samfélaginu eru þeir sem hafa dáið. Þeir eru í gröfum sínum, dauðir. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum sem þeir eyða eða bótum sem þeir eiga að fá frá TR. Þeir eru ekki til lengur.

Herra formaður FEB. Ég legg til að þú hættir að tala um félagsmenn þína sem “fólk sem hætt er að taka þátt í samfélaginu” Ég legg líka til að þú hættir að tala niður til mín og líta á mig og vini mína sem einstaklinga sem þurfa að “þiggja aðstoð”.

Við þurfum ekki að þiggja aðstoð.

Við eigum rétt á því að fá sparnað okkar í lífeyrissjóð óskertann og við eigum rétt á því að þurfa ekki ein stétta í þjóðfélaginu að niðurgreiða laun frá TR sem eru komin til vegna þess að við höfum greitt skatta til þjóðfélagsins alla okkar starfsævi.

Við erum ekki “minnstu bræður” þjóðfélagsins.

Við erum fólk sem hefur búið í haginn fyrir þá kynslóð sem nú er að stjórna landinu og við erum fólk sem ætlumst til þess að á okkur sé litið sem þátttakendur í lífinu þar til við erum dauð.

Það er ekki mælikvarði á þátttöku okkar í lífinu að við höldum áfram að vinna á almennum vinnumarkaði fram í rauðann dauðann.

Það er ekki mælikvarði á þátttöku okkar í lífinu hvort við förum á dansiball eða í utanlandsferð með FEB.

Mælikvarði á þátttöku okkar í lífinu er að við erum lifandi og við deyjum ef við fáum ekki næringu og húsaskjól. Til þess að við getum verið þessir þátttakendur þurfa þeir sem hafa völd, t.d. formaður FEB, og stjórnvöld að gera sér grein fyrir því að við erum nú stödd á árinu 2018 en ekki á átjándu öldinni.

Ég og vinir mínir eigum að hafa sama rétt til lífsins og herra formaður FEB og frú forsætisráðherra, að ég tali nú ekki um herra fjármálaráðherra og frú formann LEB.

Hulda Björnsdóttir

 

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: