Póstur sem nær til 6.909 þúsund manns og er dreift 66 sinnum. Hvers vegna?

23.janúar 2017
Góðan daginn kæru lesendur.
Póstur sem nær til 6.909 manns og er dreift 66 sinnum er væntanlega eitthvað sem tekið er mark á.
Eða hvað?
Ég hef skrifað meira um kjör eftirlaunaþega en öryrkja á þessa síðu.
Ástæðan er einfaldlega sú að ég vildi kynna mér mál öryrkja, eins og þau eru í dag, vel áður en ég færi að hætta mér út í umræðu sem auðveldlega gæti lent á villigötum.

Ég sé að DV hefur séð ástæðu til þess að fjalla um grein mína.

Hvers vegna, spurði ég sjálfa mig þegar ég sá umfjöllunina. Var það vegna þess að blaðið hefði svo mikinn áhuga á málefnum öryrkja?

Nei, ég held ekki. Ég held að áhugi blaðsins hafi verið vegna skrifa manneskju sem taldi sig knúna til þess að svara mér og hún hafði á orði að hún skyldi vel laun þingmanna.

Mér er svo sem nokk sama hvaðan gott kemur en þótti þó einkennilegt að taka þyrfti fram að sú sem skrifaði, ég, væri ellilífeyrisþegi.
Hvað kemur það málinu við?

Hvað kemur það máli örykja og kjörum þeirra við hver ég er?

Ég hef áhuga á málefnum þeirra sem oft á tíðum eiga sér ekki marga talsmenn og ég tel mig hafa eitthvað til málanna að leggja.

Það skiptir engu máli á hvaða aldri ég er eða hvaðan ég hef framfærslueyri minn.
Ég er ekki að tala um mig eða mín kjör.
Ég er að tala um í grein minni sem svo mikla athygli vakti, klárar staðreyndir sem birtast á síðu TR.
Málefni öryrkja skipta alla máli, eða ættu að gera það.

Þegar ég hóf rekstur síðu minnar “Milli lífs og dauða” var tilgangurinn í fyrstu að fjalla um málefni þeirra sem hafa flúið góssen landið Ísland til þess að eiga fyrir mat alla daga mánaðarins.
Fljótlega rak ég mig á að það var ekki mikill áhugi fyrir kjörum þessa fólks og ég breytti síðunni í vettvang til að ræða kjör öryrkja og eftirlaunaþega almennt.

Viðbrögð við skrifum mínum um kjör eldri borgara hafa ekki verið mikil.

Viðbrögð við skrifum mínum sem fjalla um staðreyndir um tölur í hinu ótrúlega einkennilega kerfi sem öryrkjar búa við, komu mér á óvart.

Auðvitað áttu þessi miklu viðbrögð ekki að koma mér á óvart.

Auðvitað átti ég að geta sagt mér að fólk hefði meiri áhuga á yngra fólki en þeim sem komnir eru yfir 65 ára aldurinn.

Auðvitað átti það ekki að koma mér á óvart að það þyrfti að taka fram að ég væri ellilífeyrisþegi sem skyndilega opnaði munninn og talaði um kjör öryrkja í góssen landinu.

Auðvitað á ég ekki að láta það koma mér á óvart að sú sem svaraði mér plantaði mér inn í hóp öryrkja án þess að skoða málið.

Ég hef ekkert á móti því að vera í hópi öryrkja, ég er það bara ekki og hef aldrei verið, en það þýðir ekki að kjör þeirra komi mér ekki við.

Málefni öryrkja þekki ég mjög vel. Ég ólst upp hjá móður sem var öryrki og sem reyndi allt sem hún gat til þess að hafa í okkur og á. Ég ólst upp hjá konu sem á leið út á land til þess að vinna fyrir okkur fékk blóðspýting á leiðinni og varð að snúa við á Akranesi. Ég var heppin og átti góða vini sem ég heimsótti oft og þar fékk ég að borða þegar ég kom í heimsókn.

Hafið þið, þingmenn á Íslandi, hugleitt að margir öryrkjar þurfa að fara í heimsókn til vina og vandamanna einfaldlega til þess að deyja ekki úr hungri?

Hafið þið, þingmenn á Íslandi sem eigið talsmenn sem telja ykkur ekki of sæla af milljóninni og öllum sporslunum, hafið þið einhvern tímann stigið niður af stalli ykkar og skoðað hvernig öryrki á að bæta stöðu sína og komast út úr fátæktargildrunni með því að fara í nám? Hvar á hann að fá peninga til þess að stunda þetta nám sem einn ráðherra talaði um í umræðunni um fátækt á hinu háa Alþingi fyrir áramótin?

Hefur þingheimur yfirleitt einhvern áhuga á því að vita um börnin sem svelta á meðan þeir, þingmenn, háma í sig kökur í þinghúsinu?

Það er ágætt að stíga í stól og ræða um fátækt og að eitthvað þurfi að gera. Það er líka ágætt að vera ráðherra og stíga í stól og segja að menntun sé leiðin út úr fátæktinni.
Málið er bara að fátæku börnin eru ekki bara börn. Það er heil fjölskylda í kringum þau. Það eru ekki bara börnin sem svelta það er öll fjölskyldan. Þessi fjölskylda á ekki peninga til þess að leyfa börnum sínum að taka þátt í sjálfsögðu félagslífi sem auðgar líf þeirra. Þessi fjölskylda á ekki peninga til þess að senda börnin í tónlistarnám, nám sem getur auðgað líf þeirra og jafnframt hjálpað þeim við annað nám. Nei, fátæku börnin eru ekki í hópi þeirra sem menntun getur bjargað. Þetta veit ráðherrann sjálfsagt ekki, eða hvað?

Frúin frá Vestfjörðunum er mér ógleymanleg í fátækra umræðunni. Hún talar svo fallega en samt styður hún þessa einkennilegu ríkisstjórn. Hún talar um að við þurfum að bíða og allt taki þetta tíma.

Já, það tekur tíma að vinda ofan af kerfum sem búin hafa verið til utan um öryrkja og eftirlaunaþega. Kerfin eru svo flókin að heilvita maður þarf langan tíma til þess að skilja hvað snýr upp og niður.

Ég tel mig nokkuð vel gefna en það má þingheimur vita að endalausir plástrar sem koma út úr nefndum sem skipaðar eru til þess að skoða allt og ekkert lækna ekki sárin.
Plástrarnir eru gagnslausir.
Það þarf að endurskoða allt kerfið og taka plástrana í burtu.
Það þarf að hafa einfalt kerfi sem allir geta skilið, bæði venjulegt fólk og ekki síður þeir sem þurfa að vinna eftir því.

Ég hef ekki miklar væntingar til þeirra sem nú sitja á valdastóli. Það fólk getur ekki sett sig inn í kjör almennings.
Það versta við þetta allt saman er að spillingin ræður húsum og á meðan svo er sitja öryrkjar, eftirlaunaþegar, fátækar fjölskyldur og sveltandi börn í súpunni.

Það er ekki hlustað á þessa hópa.
Þeir eiga sér ekki talsmenn sem dugur er í.
Það eina sem þessir hópar eiga er vonin. Vonin er óæt. Vonin er ekki húsaskjól. Vonin er eitthvað sem reynt er að halda í en á endanum gefst fólk upp og kannski er það von þeirra sem hrista sig og ygla þegar einhver, sama á hvaða aldri, tekur sig til og rífur kjaft.

Ég hef alla mína tíð greitt skatta á Íslandi og safnað í lífeyrissjóð. Núna held ég áfram að greiða til ríkisins, það hirðir af mér sparnaðinn minn án þess að blikna. Lífeyrirssjóðurinn minn greiðir niður það sem reiknað er út frá TR. Lífeyris sparðnaðurinn verður að engu. Verkalýðsforystunni er alveg sama. Lífeyrissjóðnum er alveg sama. Þingheimi er alveg sama. Ég hafði vit á því að ákveða fyrir mörgum áratugum að verða ekki gömul á Íslandi. Ég fór eins og svo margir aðrir. Ég fór áður en ég var komin á eftirlaunaaldur, löngu áður. Það bjargar mér.

Núna, árið 2018 sér fólk bæði ungt og gamalt ljósið í því að yfirgefa átthagana og eyða síðustu árum ævinnar úti í heimi fjarri fjölskyldu og vinum.

Kerfi sem ekki getur séð fyrir hinum minnsta bróður er rotið niður í grunn. Þeir sem stjórna svona kerfi og viðhalda því eru sekir. Þeir eiga enga undankomuleið frá sannleikanum en svo koma kosningar og fólkið í landinu, það sem enn hefur kosningarétt, kýs sama loforða sukkið aftur.

Þetta er ótrúlegra en nokkur lygasaga.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: